20.03.1924
Neðri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

97. mál, landhelgissektir í gullkrónum

Tryggvi Þórhallsson:

Það getur ekki orðið álitamál, að þessu frv. á fremur að vísa til meðferðar sjútvn. en allshn., en annars var það stutt athugasemd, sem jeg ætlaði að beina til væntanlegrar nefndar í þessu máli. Með þessu frv. er ætlast til, að sektirnar fyrir landhelgisbrot verði hækkaðar, en jeg vil vekja athygli á því, að vegna gengislækkunarinnar eru sektir fyrir lögbrot lækkaðar að mun á mörgum öðrum sviðum. Mjer hefir borist áskorun frá mörgum kjósendum mínum á Ströndum norður, um að fá því komið til leiðar, að sektir fyrir seladráp verði hækkaðar. Þar norður eru víða selveiðar miklar, en við seladrápi í látrum liggur aðeins 4 kr. sekt. Af því er það auðsætt, að það er gróðavegur að drepa selina, þó að sektirnar sjeu greiddar. Þessu vil jeg því skjóta til væntanlegrar nefndar að athuga, hvort það sjeu ekki fleiri sektarákvæði, sem koma megi inn undir þessi lög. Vænti jeg, að hv. nefnd vilji athuga þetta, en sjái hún sjer ekki vinnast tíma til þess eða álíti hún það ekki fært á einn eða annan hátt, hefi jeg hugsað mjer að bera fram brtt. um þetta efni.