26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

97. mál, landhelgissektir í gullkrónum

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mjer kemur það dálítið einkennilega fyrir, að komið er með svona brtt. í sambandi við frv. um sektir fyrir brot á fiskiveiðalöggjöfinni. Það virðist engin ástæða til að blanda saman landhelgissektum og ólöglegu seladrápi. Sektir fyrir seladráp væri og rjettara að hækka, ekki um helming, heldur margfalt, en að miða þær við gengi. Jeg býst líka við því, að frekar þætti óþægilegt að þurfa að spyrja Landsbankann um gengi í hvert sinn, sem maður skyti sel ólöglega.