24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1925

Halldór Stefánsson:

Jeg skal ekki lengja umræður að mun; þær verða víst nógu langar samt. Hv. fjvn. hefir sýnt talsverða viðleitni í því að lækka ýms útgjöld í fjárlögunum, en ekki þykir mjer hún í því efni hafa gert eins hreint fyrir sínum dyrum og skyldi. Sje jeg ekki annað en eins og nú horfir við muni verða um 800 þús. kr. tekjuhalli, þegar tekið er tillit til þess, að útgjöld samkvæmt berklavarnalögunum munu verða talsvert hærri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. stjórnarinnar, og fleiri atriði, sem fram komu í ræðu hv. frsm. (ÞórJ).

En jeg stóð nú aðallega upp til að minnast á það, að feldur hefir verið niður sem sjerstök fjárveiting 1500 kr. styrkur, sem nokkrum hreppum í Fljótsdalshjeraði hefir verið heitið í fjárlögum síðustu ára, ef þeir rjeðu sjerstakan lækni. Áður hefir verið farið fram á það, að stofnað væri þarna sjerstakt læknishjerað, en ennþá hefir því ekki fengist framgengt. Hjeraðsbúar hafa þá sjálfir reynt að útvega sjer lækni, en það hefir ekki tekist enn. Og nú hefir fjárveitingin verið feld niður í fjárlagafrv. stjórnarinnar. Nefndin hefir ekki tekið hana upp og ekki annað sýnna en nú eigi að bregða gömlu loforði þingsins við hjeraðsbúa.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir lýst aðstöðunni og það hafa aðrir gert áður. Læknisbústaður er á óheppilegum stað og aðrar aðstæður allar erfiðar. Víðast 2–3 dagleiðir eftir lækni, og sama tíma tekur að fylgja honum heim og sækja nauðsynleg meðul. Í hjeraðinu er alþýðuskólinn á Eiðum, og er afarbagalegt vegna hans, að læknir skuli ekki vera nær. — Illfær vötn eru í hjeraðinu, fjallvegir erfiðir, vegir vondir og snjóþyngsli afarmikil á vetrum. Væri þarna því full þörf á sjerstöku læknishjeraði, en eins og jeg hefi minst á, þá hefir því ekki fengist framgengt.

Þá gæti komið til mála að flytja læknisbústaðinn, en um það hefir þingið ekki úrslitaatkvæði. Því ráða sýslunefndir Múlasýslna, og vafasamt er, hvort tekst að fá læknisbústaðnum breytt. En eins og stendur er þarna með öllu læknislaust og ekki annað að leita en til nágrannalæknanna. Og er það ærinn vegur. Innan landfræðilegra takmarka Fljótsdalshjeraðs er aðeins einn læknir, en hann er fyrir upphjeraðið og bústaður hans valinn með tilliti til þess. Virðist því bersýnilegt öllum, sem vilja sjá það, að þörf fyrir styrk í þessu skyni er þarna mikil. Til glöggvunar fyrir háttv. þdm. skal jeg geta þess, að innan landfræðilegra takmarka Fljótsdalshjeraðs eru 4 prestar, 11 kirkjusóknir, en aðeins 1 læknir.

Betra en ekki þykir mjer þó það, að hv. frsm. (ÞórJ) ljet þess getið, að sú væri ekki meiningin að draga með öllu styrkinn af hjeraðsbúum, heldur væri þeim ætlað fje af þeirri upphæð, sem veitt er til læknisvitjana í fjárlagafrv. einnig í þessu skyni. En mjer finst óþarfi að breyta um form á þessari styrkveitingu til hreppanna eystra. (Frsm. ÞórJ: Fjárveitingin hefir ekki áður verið sjerstök í fjárlögunum). Jeg skil ekki, að hv. frsm. (ÞórJ) muni það ekki, að liðurinn hefir einmitt verið sjerstakur. Og jeg get ekki skilið, ef til þess kæmi, að þessi fjárveiting þyrfti að dragast frá þegar til skiftingar kemur á þessum 5 þús. krónum, sem veittar eru í einu lagi sem styrkur til þessara hluta, að það, sem hrepparnir fá, verði svo mikið, að það verði að nokkru verulegu gagni. Mjer finst háttv. deild ætti að huga sig tvisvar um áður en hún neitar um þennan styrk til læknisráðningar, og það því fremur, þegar þetta hjerað ætti fyrir löngu rjettlætiskröfu á sjerstökum lækni, þegar þess er gætt, að ýms læknishjeruð á landinu eru ærið miklu minni en þær sveitir, sem hjer er um að ræða. Vænti jeg þess, að hv. deild samþykki tillögu okkar og sýni þá sanngirni, sem jeg að óreyndu hefi ekki ástæðu til að ætla, að hv. alþm. vilji ekki sýna.