03.04.1924
Efri deild: 38. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

97. mál, landhelgissektir í gullkrónum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og hv. þingdeildarmenn hafa sjeð af nál. sjútvn., þá hefir nefndin lagt það til, að frv. það, er hjer liggur fyrir, verði samþ. óbreytt. Það er að vísu vitanlegt, að sektirnar hækka mjög mikið í íslenskum seðilkrónum, — þær munu alt að því tvöfaldast, miðað við núgildandi „kurs“ — ef þær eru reiknaðar eftir gullgengi. Þó að hegningarákvæðin fyrir landhelgisbrot fari þannig að verða mjög há — miklu hærri en í nágrannalöndum vorum — þá er líklegt, að það veki minni eftirtekt út á við, ef það er ákveðið, að sektirnar skuli greiðast í gullkrónum, heldur en ef sektarákvæðin sjálf væru hækkuð. Einnig mundi það vekja minni eftirtekt vegna þess, að ýms lönd eru nú farin að innheimta opinbera skatta og gjöld þannig, að þau sjeu miðuð við gullgengi.

Sektir fyrir brot á landhelgislögum eru hjer hærri en í nokkru öðru af nágrannalöndunum. Ber þess þó að gæta, að hjer er öðruvísi ástatt en t. d. í Englandi eða Noregi. Fiskiveiðarnar eru annar aðalatvinnuvegur vor og sá þeirra, sem mest fjárútlát verður að bera. Höfum vjer því meiri hagsmuna að gæta heldur en aðrar þjóðir, sem hafa fiskiveiðar að aukaatvinnu. Eftir því sem lengra líður, sannfærist þing og þjóð æ betur um, að nauðsyn beri til að herða eftirlitið með landhelginni. Hefir þetta mikinn kostnað í för með sjer. Hjá öðrum þjóðum eru kröfurnar og að verða strangari í þessu efni. Skotar hafa t. d. fullan hug á því að fá Morayfirth alfriðaðan með alþjóðasamþykki, en eins og kunnugt er, mega útlendingar nú veiða í firðinum, þó Bretum sje það bannað.

Vilja Skotar koma þessu í framkvæmd um leið og væntanleg samþykt hlutaðeigandi þjóða um friðun suðurhluta Norðursjávarins verður gerð, en á það leggur alþjóðanefnd hafrannsóknanna mikla áherslu. Er í þessu sambandi athugandi fyrir íslensk stjórnarvöld, hvort ekki væri hugsanlegt, að um leið mætti ná samþykki sömu aðilja fyrir friðun Faxaflóa.