27.03.1924
Neðri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

105. mál, hvalveiðamenn

Sveinn Ólafsson:

Jeg vil leyfa mjer að vekja athygli á því, að þetta frv., sem er framlenging á lögum um hvalveiðamenn frá 1913, getur verið dálítið athugavert, einkanlega þar sem þess hefir verið óskað úr sumum hjeruðum, að nánar væri tekið fram um smáhveli en gert er í lögunum, frá 1913, hver ættu að vera friðuð. Á síðustu árum hefir verið tekið til að veiða voghvalinn, sem áður var talsvert mikið af á fjörðum inni og síldveiðamenn hafa haft allmikið gagn af. Þessi veiði hefir vakið mikla óánægju, einkum á Austurlandi. Nú er í lögunum frá 1913 leyft að veiða andarnefju, höfrung, hnísu og önnur smáhveli, sem tíðkanlegt hefir verið að veiða, og er þetta ekki skilgreint nánar. En þegar ágreiningur kom upp um veiði voghvalsins og var borinn undir lögreglustjórana, svöruðu þeir, sem von var til, að af þessari upptalningu tannhvala og smáhvala yrði ekki sjeð, hvort voghvalurinn væri friðaður eða ófriðaður. Ef nú á að endurnýja þessi lög, hygg jeg fulla þörf að taka nánar fram, hvaða smáhveli sje leyfilegt að veiða.

Jeg skal þá minnast lítið eitt á aðra hlið málsins, til athugunar fyrir hlutaðeigandi nefnd. Með þvílíkum lögum sem þessum er alls ekki auðið að friða kynstofn hvalanna, eins og tilgangurinn var í upphafi með þessari lagasetningu. Það má telja víst, að þegar aftur eykst hvalagengd við strendur landsins, þá munu útlendingar þeir, er þessa veiði stunda, fara að reka hana frá flotstöðvum fyrir utan landhelgi. Bann gegn því að hagnýta veiddan hval í landi, eins og stefnt er að með þessu frv., verður þá til þess eins, að þessi ágæta veiðidýrategund verður að mestu leyti upprætt á ný kringum landið, án þess að landsmenn hafi nokkurn hag af því; en verði leyft að hafa stöðvar í landi, verða þær þó skattskyldar. Ennþá hefir hvalnum fjölgað svo lítið, síðan hvalveiðin var lögð niður, að ekki er tiltækilegt að reka veiðar frá flotstöðvum. En Norðmenn hafa um langt skeið reynt það fyrirkomulag í Suðurhöfum og gefist vel, og er enginn vafi á því, að þeir muni hefja þær veiðar hjer, þegar hvalnum fer að fjölga að ráði.

Það þarf að athuga bæði þessi atriði vel. Annarsvegar þarf að taka fram, hvaða smáhveli sje leyfilegt að veiða, og hinsvegar íhuga, hvort hyggilegt sje að meina landsmönnum alt gagn af stórhvalaveiði, þegar hún verður tekin upp af annari þjóð, sem gera má ráð fyrir að verði eftir nokkur ár, ef hvalveiðamenn frá Færeyjum uppræta ekki göngurnar sunnan og austan við landið.