24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

1. mál, fjárlög 1925

Pjetur Þórðarson:

Hæstv. atvrh. (MG) mintist þannig á þá einu till., sem jeg á á þskj. 190, að ætla mætti, að hann væri henni mótfallinn. Þó er jeg ekki alveg viss um að svo sje. Tillagan er laus við að vera fyrir nokkra einstaka menn eða einstaka hreppa, og er þannig frá almennu sjónarmiði góð og gild. Því býst jeg líka við, að hún hafi snortið hæstv. ráðh. (MG) þannig, að hann hefði í sjálfu sjer gjarnan viljað vera með henni, enda geri jeg ráð fyrir, að svo reynist. Það er líka enginn efi á því, að þessi fjárveiting myndi svara kostnaði og enda verða að hinu mesta gagni og stuðla að því að bæta samgöngumar, þar sem þær eru erfiðastar og gera mönnum hægra um vik að koma afurðum sínum frá sjer og nauðsynjum til sín.

Um upphæðina, 20 þús. kr., er raunar það að segja, að hún er mjög lítil, samanborið við það, sem farið hefir til þessa á undanförnum árum. Reynsla liðinna ára hefir sýnt, að 50 þús. kr. hafa ekki hrokkið nema að litlu leyti til að fullnægja óskum manna og þörfum í þessu efni.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að ríkinu væri nær að hugsa um sína vegi áður en það færi að leggja fje til sýsluveganna. En þess ber að gæta, að þessir vegir liggja eins nærri ríkissjóði að því er skylduna til fjárframlaga snertir og aðrir vegir landsins, því að svo miklu leyti sem ríkissjóður leggur fje til sýsluveganna, þá standa þeir honum eins nærri og aðrir vegir, þó tillagið til þeirra sje ekki nema helmingur af því fje, sem til þeirra gengur. Og þó þessarar upphæðar myndi lítið gæta við lagningu nýs vegar, þá gæti hún þó gert mikið gagn með því að knýja fram það fje til vegabóta annarsstaðar frá, sem á vantar. Þörfin í þessu efni er mjög almenn og mjög mikil, enda viðurkendi hæstv. atvrh. (MG) það.

Jeg vænti þess, að það verði ekki einusinni allir hagsýnir menn, sem geta fallist á þessa till., heldur einnig allir góðir menn, þar sem hún myndi svo mikið gott af sjer leiða, bæði fyrir menn, sem mikinn baga og tjón bíða við það, hvað vegunum er víða ábótavant, og einnig fyrir skepnurnar, sem líða við það að fara yfir vegleysurnar. Get jeg um þetta dæmt betur en yfirleitt flestir hv. deildarmenn, þar sem það hjerað, sem jeg hefi lengst af dvalið í, á einmitt við mjög mikla erfiðleika að búa í þessu efni.

Það er heldur ekki allskostar rjett að líta svo á, að það beri að þvertaka fyrir að leggja fje til þessara vega, þó hætt sje að veita til þeirra brauta og þjóðvega, sem ríkið á að kosta, því jeg býst við, að hv. dm. þekki þörfina á þessu og kannist við, hversu lítið framlag í þessu skyni getur komið miklu góðu til leiðar. Jeg vil meira að segja fullyrða, að hvergi gæti jafnlítil fjárveiting komið að eins miklu haldi sem einmitt sú, sem veitt væri til vegabóta sem þessara. Og ekki er það síst, þar sem fjárhagur manna og sýslnanna er svo þröngur, svo þær eiga erfitt með að leggja fram fje á móti, en hafa á hinn bóginn annað, sem jafngildir peningum, sem sje mannskrafta og hestöfl. Efast jeg ekki um, að hæstv. atvrh. (MG) muni verða mjer og öðrum hv. dm. samþykkur í þessu efni og muni greiða atkv. sitt með þessari till. minni.

Jeg skal ekki tefja tímann með því að fara langt út í aðra sálma, þó tilefni væri til. En misskilnings fanst mjer gæta hjá háttv. þm. Barð. (HK), er hann sagði, að ekki væri rjettlátt að veita 1 eða 2 læknishjeruðum í senn styrk til að koma upp sjúkrahúsi, heldur ætti að gera öllum jafnhátt undir höfði og veita styrkinn annaðhvort öllum eða engum. Jeg er annarar skoðunar í þessu efni og tel hv. fjvn. hafa farið rjetta leið, að taka 2 hjeruð fyrir í senn, því með því vinst þó á smátt og smátt, en með hinu næst ekkert. Hvar byrjað er, skiftir í sjálfu sjer minstu máli, því jeg geri ráð fyrir, að í flestum hjeruðum, sem nú keppa um þennan styrk, sje þörfin nokkurnveginn jafnmikil. Að öðru leyti vil jeg ekki orðlengja þetta; jeg vildi aðeins taka það fram, að skilningur hv. fjvn. á þessum málum sje rjettur.