24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Kjartansson:

Áður en háttv. frsm. (ÞórJ) fer að svara ræðum þeim, sem fluttar hafa verið í dag, vildi jeg beina þeim tilmælum til hans, að hann sæi sjer fært að taka út af dagskrá brtt. nefndarinnar um sjúkraskýli og læknisbústaði, með því skilyrði, að við, sem eigum slíkar brtt. á þskj. 196, gerum hið sama. Er þetta gert í því skyni, að háttv. fjvn. komi til 3. umr. með ákveðna upphæð til þessara mála, sem stjórnin skyldi svo úthluta til hinna ýmsu skýla. Hefi jeg átt tal um þetta við alla nefndarmennina í hv. fjvn., og eins þá háttv. þm., sem slíkar brtt. eiga á þskj. 196, og hafa þeir fallist á það. Jeg skil það vel, að ýmsir háttv. þdm. eigi nú örðugt með að greiða atkvæði um ýmsar þessar till. Það er víða ilt að gera upp á milli og erfitt að greina, hvar sje brýnust þörf. Þessi leið yrði tvímælalaust heppilegri, því hún gerir fleiri læknishjeruðum fært að byrja að byggja skýli, því þó þau fengju aðeins hálfan styrk í ár, væri hægt að byrja á 3–4 skýlum þegar á næsta ári. Vona jeg því, að háttv. frsm. sjái sjer fært að verða við tilmælum mínum, og má hann óhætt treysta því, sem jeg sagði um ummæli annara háttv. nefndarmanna.

Af því að jeg er bráðum búinn að tala mig dauðan, vildi jeg aðeins víkja örfáum orðum að brtt. II á þskj. 196. Ekki er það þó af því, að jeg ætli að hreyfa neinum andmælum, en vildi aðeins beina þeim tilmælum til hæstv. stjórnar, og þó sjerstaklega til forsrh., sem því miður er ekki viðstaddur, að leitað verði samkomulags um strandgæsluna af Dana hálfu, þannig, að þeir leggi til 2 skip til strandgæslunnar, eins og komið hefir til orða. Jeg þykist hafa sjeð af skýrslum dansk-ísl. nefndarinnar, að málið hafi lent í hálfgerðu klúðri, og að jafnvel hafi verið hafnað tilboðum frá Dönum, er gengu í þessa átt. Jeg vona, að menn sjái, að ekki sitji á oss að viðhafa neinn gorgeir í þessu efni, heldur færum oss í nyt þau hlunnindi, er 8. gr. sambandslaganna lætur oss í tje.