03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

101. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Eins og kunnugt er, var samþykt hjer í fyrra frv. til laga um samþyktir um sýsluvegasjóði. Þetta var allstór lagabálkur, saminn af vegamálastjóra. Það atriði í lögum þessum, sem hjer er sjerstaklega um að ræða, er heimild sú, er veitt var til að leggja skatt á þær fasteignir í sveitum og kauptúnum, sem ekki eru alþjóðareign. Þessi skattur miðast aðeins við fasteignir og hvílir eingöngu á þeim. Það, sem mest var haft á móti þessum skatti í fyrra, var það, að hann lenti aðeins á fasteignum, eða eigendum og notendum þeirra, en næði ekki til annara, hversu vel efnum búnir sem þeir væru og hvernig sem á stæði. Úr þessu á þetta frv. að bæta. Tilgangur þess er að veita hreppsnefnd heimild til að dreifa skattinum eftir efnum og ástæðum á fleiri en hin fyrri lög gerðu ráð fyrir.

Jeg veit ekki, hvort skoðanir manna muni verða skiftar um þetta, að heimila að gera skattskylduna ítarlegri en er í þessum nýlegu lögum, en það var einhuga álit samgmn., að þessi breyting væri til bóta og sje miklu sanngjarnara og rjettlátara að heimila að jafna skattinum meir niður en nú er gert ráð fyrir í lögunum. Jeg þarf svo ekki að orðlengja þetta, en vildi mælast til þess, að frv. fái að ganga til 3. umr.