04.04.1925
Neðri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jakob Möller:

Hv. frsm. (AJ) hefir misskilið mig. Jeg sagði ekki, að frv. hefði verið breytt þannig, að nú væri sjóðnum ætlað að lána fje til bygginga. Jeg vissi, að fyrir því var ráð gert áður, en þá var það aukaatriði. Nú leggur nefndin til, að þetta ákvæði, um að jarðræktin skuli ganga fyrir, sje felt niður. Það var sú breyting, sem jeg átti við.

Háttv. frsm. (ÁJ) heldur því fram, að sveitirnar geti ekki notast við sömu lánsstofnanir og kaupstaðir, af því að þær geti ekki fengið hentug lán hjá bönkunum. Fasteignalánsstofnanir munu þó alls ekki setja sveitirnar hjá. Því fer fjarri, að veðdeild Landsbankans hafi síður gefið sveitunum kost á lánum. Það, sem hv. frsm. sagði um lánsstofnunina á Austfjörðum, sannar ekkert, því að þar er vitanlega ekki um fasteignalánsstofnun að ræða, heldur almennan viðskiftabanka.