25.04.1925
Neðri deild: 64. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg býst ekki við að þurfa að lengja umr. með því að fara mörgum orðum um brtt. á þskj. 307. Allir, sem á hana hafa minst, hafa farið hlýjum orðum um hana og nefndin fallist á hana og talið að hún sje til bóta. Eins og bent hefir verið á, miðar brtt. þessi að því að lina svolítið byrðar þeirra manna, sem lán fá á meðan ekki er lokið útgáfu 1. flokks vaxtabrjefa, af því að gengið er út frá, að vextirnir af 1. flokks vaxtabrjefum verði hæstir, þar sem yfirleitt er búist við vaxtalækkun í framtíðinni.

Í sambandi við þetta er ekki úr vegi að minnast á brtt. hv. þm. Str. (TrÞ), um að vaxtabrjef 1. flokks skuli vera skattfrjáls. Jeg þykist vita, að honum gangi ekki nema gott eitt til þessa og að hann hugsi, sjer, að með þessu verði bætt fyrir sölu brjefanna. En jeg er hræddur um, að þessi ívilnun verði á kostnað næstu flokkanna, sem á eftir koma, því að það er auðsætt, að ef vextir lækka í framtíðinni, eins og flestir eða allir búast við, þá verða hinir síðari flokkar miklu óútgengilegri en 1. flokkur. Það þarf því síst að kaupa menn með skattfrelsi til þess að kaupa 1. flokks brjef. Þess vegna er minni ástæða til þess að gera 1. flokks brjefin skattfrjáls heldur en 2. og 3. flokks, enda gæti afleiðingin orðið sú, að spilt yrði fyrir sölu vaxtabrjefa 2. og 3. flokks. Það þarf því ekki að ýta undir sölu 1. flokks brjefanna, því það mun alment álitið, að vextirnir muni fremur fara lækkandi en hækkandi. Af þessum ástæðum get jeg því ekki gengið inn á 1. brtt. hv. þm. Str. (TrÞ), fyrir nú utan ýmislegt fleira, sem henni hefir verið fundið til foráttu. Þessi brtt. hans miðar að því að vernda kaupendur 1. flokks brjefanna, en þeir þurfa þess ekki vegna vaxtahæðarinnar. Mín brtt. miðar að því að vernda lántakendurna, bændurna, og þeir þurfa þess með vegna vaxtahæðarinnar.

Jeg get ekki heldur gengið inn á 2. brtt. hv. þm. (TrÞ).

Aftur á móti gæti jeg vel gengið inn á, að annar gæslustjóranna væri skipaður samkvæmt tillögu búnaðarþingsins, eða máske eftir till. Búnaðarfjelags Íslands.

Þá vildi jeg aðeins minnast á brtt. á þskj. 326, frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Jeg skil hana svo, að lána megi fje úr sjóðnum til jarðabóta í kaupstöðum, en ekki húsagerðar. Jeg er sammála hv. þm. Str. (TrÞ) um það, að ekki sje rjett, að setja kaupstaðina hjá um að fá lán til jarðabóta, fyrst álíta má, að sjóðurinn sje svo öflugur, að hann megi við því. Þess vegna mun jeg greiða þessari till. atkvæði mitt.

Aftur á móti er alt öðru máli að gegna um brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), á þskj. 375, um að fela Landsbankastjórninni að fara með yfirumsjón ræktunarsjóðsins fyrst um sinn. Þar er jeg alveg á gagnstæðri skoðun; ekki vegna þess, að Landsbankinn geti ekki í raun og veru annast þetta starf vegna þess hve mikið það sje, heldur af því, að jeg tel það alveg rjett, sem svo mikið hefir verið rætt uni og ritað, að landbúnaðinum sje bráðnauðsynlegt að fá sína eigin lánsstofnun, algerlega óháða annari bankastarfsemi. Sje það ekki sjerstök stjórn, sem stýrir ræktunarsjóðnum, verður starfsemi hans ekki annað en hjáverk. Annars þykir mjer leitt, að hv. landbn. hefir ekki látið uppi skoðun sína á þessari brtt., en vona hinsvegar, að hún gangi aldrei inn á hana, því að jeg tel hana fráleita. Þó að lítið verði um lánveitingar úr sjóðnum fyrsta eða annað árið, þá verður þó ærið starf fyrir stjórn hans að undirbúa alla starfsemi hans og gefa ýmiskonar leiðbeiningar. Verða öll slík svör að ganga greiðlega, en ekki jafnþunglamalega og oft hefir viljað brenna við áður.

Um brtt. hv. 4. þm. Reykv. (MJ) á þskj. 316 er það að segja, að jeg get ekki fallist á þær. Fyrsta brtt. hans gengur út á það, að hann vill ekki miða við virðingarverð eignarinnar, heldur fara eftir fasteignamati hennar. Nú er þar fyrst við að athuga, að fasteignamat fer ekki fram nema á 10 ára fresti, og getur því munað talsverðu, sem eignin hækkar í verði, ef mikið hefir verið unnið að jarðabótum á þessum 10 árum. Þess vegna er ekki rjett, og getur enda valdið lántakanda tjóni, að leggja fasteignamatið til grundvallar. Hinsvegar er sjálfsagt að taka tillit til þess í sambandi við virðingu þeirra verka eða jarðabóta, sem unnar hafa verið á eigninni, enda efast jeg ekki um, að sjóðstjórnin mun haga því svo í framkvæmdinni.

Hinni brtt., um að óheimila viðbótarlán vegna affalla brjefanna, get jeg heldur ekki fylgt. Þetta verðfall brjefanna hlýtur að koma af því, að vextir af þeim eru lægri en á peningamarkaðinum. En það kemur í sama stað fyrir eignina, hvort lánið er reiknað á 6% vöxtum og brjefið standi í 100, eða lánið reiknað 5% og verðmæti brjefsins sett hlutfallslega lægra.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að menn gerðu sjer miklar vonir um þessi lög og að þau kæmu mörgu og miklu góðu til leiðar. Það er rjett og satt, að margskonar vonir eru tengdar við þetta mál, enda telja allir hugsandi menn, að það sje lífakkeri landbúnaðarins að njóta hagkvæmra lána, og það er einmitt til þess stofnað með frv. þessu. En það er margt, sem taka verður til greina, þegar veita á hagkvæm lán. Og í þessu tilfelli er það stjórn sjóðsins, sem mikið veltur á. Enda vona jeg, að til hennar verði svo vandað, að hún njóti fyllilega trausts þjóðarinnar og fari varlega á stað; og tel jeg frv. þetta svo vel úr garði gert, að engin ástæða er til að halda, að framkvæmd þessa máls fari ekki vel af stað. En ekki má gleyma því, að landbúnaðurinn þarf margs fleira en lána, þótt hagstæð sjeu, og enginn má halda, að öll hans mein sjeu bætt með þessu frv. En hinsvegar vona jeg, að með því sje mjög mikið bætt eitt af verstu meinunum.

Þá held jeg, að jeg hafi minst á allar þær brtt., sem mjer þykja nokkru máli skifta, og get jeg því látið staðar unnið að sinni.