25.04.1925
Neðri deild: 64. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jón Baldvinsson:

Jeg get ekki sætt mig við, að brtt. mín skuli vera talin óformleg og út í bláinn gerð. Reyndar hefir enginn nema hæstv. fjrh. (JÞ) gert tilraun til að rökstyðja þessi ummæli, tilraun, sem þó vitanlega mistókst. En þó hafa þeir hv. frsm. (ÁJ), hv. þm. Str. (TrÞ) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) allir haft yfir dómsorð hæstv. ráðh. (JÞ), án þess að rökstyðja þau hið minsta.

Jeg vil halda því fram, að enda þótt lánin samkv. minni till. eigi að veita með öðrum kjörum en önnur lán úr ræktunarsjóði, þá þurfi hún ekki þar fyrir að vera svo óformleg, að ekki megi samþykkja hana.

Aðalatriðið er, að til þess að lán úr sjóðnum megi yfirleitt koma að fullum notum, er bráðnauðsynlegt, að bændur hafi nauðsynlega þekkingu á því, hvernig hentugast sje að rækta landið, og þá þekkingu geta þeir einmitt fengið hjá fyrirmyndarbúum þeim, sem jeg legg til að stofnuð verði. Og hlutverk sjóðsins er fyrst og fremst að efla ræktun landsins, og því takmarki verður best náð á þann hátt, að menn geti fengið þá bestu og fullkomnustu þekkingu í þeim efnum, sem völ er á. Annars er hætt við, að lánsfjenu verði að meira eða minna leyti á glæ kastað. Og hv. frsm. (ÁJ) og hv. þm. Str. (TrÞ) hafa gengið framhjá því, að í frv. er nú einnig talað um lán, sem ekki eru veitt með nákvæmlega sömu kjörum og annars er ætlast til um lán úr sjóðnum. Nægir í því efni að benda á 31. gr., þar sem ætlast er til, að ræktunarsjóður yfirtaki lán, sem búnaðarlánadeildin hefir þegar veitt, enda þótt lánsskilmálar sjeu aðrir en þessi lög ákveða.

Hvers vegna tala hv. þm. (TrÞ og ÁJ) ekki um, að þetta sje óformlegt ákvæði? Það er af því, að þeir eru samþykkir þessu ákvæði, en mótfallnir minni till., og þess vegna „passar í kram“ þeirra að fetta fingur út í mína till., en láta annað jafn „óformlegt“ ákvæði afskiftalaust.

Mjer virtist skína út úr orðum hv. þm. Str. (TrÞ), að honum þætti stjórn Búnaðarfjelagsins misboðið með því, að hún hefði ekki átt frumkvæðið að brtt., sem færi í sömu átt og mín.

Jeg get lýst yfir því, að enda þótt till. mín verði feld nú, þá mun jeg fylgja svipaðri till., hvenær sem stjórn Búnaðarfjelagsins ber hana fram, eða hver sem það annars kann að gera. En jafnvel þó að hv. þm. Str. (TrÞ) sje sjálfur í stjórn Búnaðarfjelagsins, þá finst mjer alveg ástæðulaust, að hann sje svo stoltur fyrir hennar hönd, að hann geti ekki fylgt rjettu máli af því einu, að hún hefir ekki borið það fram eða átt frumkvæðið að þessari till.

Annars er hjer eingöngu um heimild að ræða, sem Búnaðarfjelagsstjórnin getur gripið til, hvenær sem henni sýnist, og er því ekki hægt að segja, að framhjá henni sje gengið með till. Er því erfitt fyrir hv. þm. (TrÞ) að slást á móti till., nema því aðeins, að hann vantreysti Búnaðarfjelagsstjórninni til að nota heimildina rjettilega.

Loks sagði hv. þm. Str. (TrÞ), að jeg hefði haldið því fram, að lánsfje úr ræktunarsjóði væri kastað í fúafen, ef fyrirmyndarbúin yrðu ekki stofnsett jafnhliða. Þetta er ekki rjett farið með orð mín. Jeg sagði, að menn skyldu vara sig á því, að ekki færi um lánsfjeð eins og sagt er, að farið hafi um silfur Egils Skallagrímssonar, þ. e. a. s. að því verði ekki kastað í fúafen, eins og talsverð hætta er á, ef rjett skilyrði eru ekki fyrir hendi. Háttv. þm. vildi reyndar draga í efa, að jeg hefði fyrir mjer rjettar heimildir að því er snertir fje Egils. Til vonar og vara náði jeg því í Egilssögu, og vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa kafla úr henni:

„Fyrir neðan tún at Mosfelli eru fen stór ok furðuliga djúp. Hafa þat margir fyrir satt, að Egill muni þar hafa kastat í fje sínu.“

Vil jeg því vona, að tilvitnun mín sje ekki fjarri því, sem getið er til í sögunni, og getur hv. þm. (TrÞ) því sparað sjer allar vísindalegar tilgátur um, að jeg hafi fundið nýtt handrit af Egilssögu. Háttv. þm. (TrÞ) ætti a. m. k. að þekkja prentuðu söguna; ekki lætur hann svo lítið yfir fornsöguþekkingu sinni.