07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg vil taka það fram, að það eru 2 prentvillur, önnur í nál., eða rjettara sagt í brtt., sem á eftir því standa, en hin í frv. sjálfu. Það er þá fyrst í 3. brtt., þar sem stendur „einn gæslustjórinn“ þá á það að vera: annar gæslustjórinn. Í 19. gr. frv. stendur „sbr. þó 15. gr.“, en á að vera: 13. gr.

Að vissu leyti er ekki ástæða til að halda langa ræðu. Þingmenn eru orðnir þreyttir; að minsta kosti get jeg sagt það fyrir mig, og auk þess var jeg illa hald inn af tannpínu í alla nótt og naumast jafngóður orðinn enn, þótt sjálf hin skemda tönnin sje farin nú og kvelji ekki lengur.

Eins og mönnum er kunnugt, hafa oft heyrst kvartanir um það nú á síðari tímum, að landbímaður okkar sje skamt á veg kominn og hafi hann fremur staðið í stað en hitt, á móts við ýmsar aðrar framfarir hjá okkur. Þó verður því ekki neitað, að nokkrar framfarir í landbúnaði hafa þó átt sjer stað hin síðustu ár. Það er ýmislegt, sem gert hefir verið og til umbóta horfir; t. d. hefir ekki svo lítið verið sljettað í túnum, tún og hagar girtir. Menn hafa og verið að brjótast í því að bæta húsakynni sín og lagt allhart á sig til að geta komið því í framkvæmd. En þó er þetta á engan hátt sambærilegt við ýmsar aðrar framfarir hjá okkur í öðrum atvinnugreinum, og því lítur helst út fyrir, þegar samanburður er gerður, að landbúnaður okkar hafi algerlega staðið í stað síðari árin. Orsakirnar til þess, að svona lítur út hjá okkur bændunum, hafa vitanlega tvær hliðar. Í fyrsta lagi er öll aðstaða betri hjá öðrum atvinnugreinum, t. d. sjávarútveginum. Það er alment viðurkent, að hafið kringum Ísland sje hin mesta gullkista, og hafa bæði okkar eigin útgerðarmenn og erlendir sótt drjúgum gull í þá kistu. En hinsvegar verður ekki sagt, að landið okkar sje mjög frjótt eða taki mikið fram öðrum löndum til landbúnaðar. Jeg veit, að landið okkar er þrátt fyrir þetta gott land og að það er hægt að lifa hjer góðu lífi, ef vel er á haldið, enda þótt þess sje ekki að vænta, að landbúnaður okkar geti afkastað eins miklu og sumstaðar á sjer stað erlendis. En þótt landbúnaður vor sje ekki og geti sjálfsagt aldrei orðið fyllilega sambærilegur við landbúnað í öðrum frjórri löndum, þá hlýtur hann að geta afkastað meiru en hann nú gerir, ef honum er fullur sómi sýndur. Menn álíta alment, að orsakirnar til þess, að landbúnaðinum hefir ekki farið meira fram en átt hefir sjer stað, sjeu aðallega fjárskortur, þ. e. að skilja skortur á nægum og hagkvæmum lánum. Þetta er sjálfsagt rjett, enda var það svo framan af eftir að við fórum að eiga með okkur sjálfir, að fje skorti nær því til allra hluta. Eftir að Landsbankinn var stofnaður, var nokkurt fje fáanlegt þar, en þó var ekki um mikið að gera. Þessi hálfa milj. króna, sem bankinn rjeð yfir til alls, hrökk ærið skamt. Menn ráku sig fljótt á, að þessi stofnun var alt of lítil, og þá var seðlaforði bankans aukinn um 250 þús. kr. En þetta reyndist einnig of lítið, og þá rak að því, að Íslandsbanki var stofnaður. Auðvitað var það tilætlunin, að Landsbankinn ætti jafnt að sinna kröfum og þörfum landbúnaðarins sem annara atvinnuvega, en þarfirnar og kröfurnar voru harðari úr öðrum áttum, þar sem gróðinn var fljótteknari, og því fór svo, að fje Landsbankans lenti frekar annarsstaðar. Og þegar Íslandsbanki hafði verið stofnaður, fór fjeð þaðan einnig þangað, sem gróðinn var mestur, — til sjávarútvegs og til verslunarrekstrar. Þá rak að því, að veðdeild Landsbankans var stofnuð. Í fyrstu sýndist þetta gott og ætla að koma að tilætluðum notum, en brátt sýndi það sig, að þetta var ónógt, og það vantaði ekki, að ýmsar frekari tilraunir væru gerðar til að bjarga landbúnaðinum við. Ein af þeim tilraunum var ræktunarsjóðurinn gamli. En hann var einnig of lítill og kom ekki til leiðar jafnmiklu og vænst hafði verið, og eftir því, sem tímarnir liðu fram, sýndi sig æ betur, að þörf landbúnaðarins fyrir meira fje var orðin mjög mikil, og þetta kom einna best í ljós, þegar hann var borinn saman við sjávarútveginn og þær framfarir allar, sem þar höfðu orðið. Því var á síðasta þingi gerð tilraun til að bæta úr þessu, er frv. um stofnun búnaðarlánadeildar við Landsbankann var borið fram í Nd. Það er engum vafa undirorpið, að þeim, sem þetta frv. bar fram, hefir gengið gott eitt til, en hitt er þegar ljóst orðið, að það hefir orðið til sáralítilla bóta. Það er aðeins ný bót á gamalt fat. Þar við bætist og, að stjórn Landsbankans var þessu máli andvíg frá byrjun. Jeg var frsm. að því frv. hjer í þessari deild, þegar það var samþykt, og þó að jeg mælti fram með því við þessa deild, duldist mjer þó ekki, að þetta var ekki nægilegt til að fullnægja þörfum landbúnaðarins. En hitt sá jeg, að það mundi ekki gera neitt til, þó að frv. yrði samþykt, og hafði jeg þá von, að samþykt frv. yrði til þess, að hæstv. stjórn færi að reyna að finna einhverja aðra leið til að bjarga landbúnaðinum. Jeg áleit því — eins og sjá má af Alþingistíðindunum í fyrra — að samþykt frv. mundi verða spor í áttina til frekari tilrauna til viðreisnar landbúnaðinum. Og þessi von mín hefir nú ræst. Milli þinga hefir hæstv. fjrh. (JÞ) tekið málið alvarlega í sínar hendur og skipaði nefnd til þess að semja frv. til þess að bæta úr fjárhagsvandræðum landbúnaðarins. Þó að upp í þetta frv., sem hjer er til umræðu, hafi verið tekin ýms annarleg ákvæði, er þó grundvöllurinn sá, sem hæstv. fjrh. hefir lagt, og er því enginn vafi á, að hæstv. fjrh. á miklar þakkir skildar fyrir að hafa tekið málið í sínar hendur og komið því jafnlangt áleiðis og orðið er. Jeg er í engum vafa um, að ef þetta frv. verður samþykt, er það afarmikið spor í áttina til þess að útvega landbúnaðinum nauðsynlegt fjármagn.

Jeg veit að vísu, að þeir eru margir, sem álíta, að sporið sje of stutt, en jeg get ekki fallist á það. Jeg álít, að sporið sje stórt, mjög stórt, samanborið við aðrar tilraunir, sem gerðar hafa verið landbúnaðinum til hjálpar. Mjer telst svo til, að ef frv. er notað út í æsar, sje hjer um 12 milj. króna að ræða, og er það því afarmikið spor í rjetta átt, á móts við það, sem áður hefir verið gert.

Frágangur málsins hefir verið góður. Það hefir verið ítarlega rætt í hv. Nd. og hefir þar allmiklum tíma verið varið til meðferðar þessa máls. Mjer hefir talist svo til, að um 16 þskj. hafi komið fram í Nd. um þetta mál. Þó hefir landbúnaðarnefnd þessarar deildar ekki þótt tiltækilegt að ganga að frv. óbreyttu, sem ekki er að undra, er um svo mikilsvert mál er að ræða, því það ber oft við, jafnvel í hinum smærri málunum, að ein deildin gagnbreytir því, sem hin hefir talið gott vera, og sje jeg ekki athugavert við það, allra síst er stórmál á í hlut.

Eins og hv. þingdeildarmenn munu hafa sjeð, eru brtt. nefndarinnar við frv. aðallega fjórar. Fyrsta brtt. er við 2. gr. frv. 2. lið; frv. kveður á, að alt tillag ríkissjóðs eigi að svara til þeirrar upphæðar, sem ræktunarsjóðurinn hefir til þessa greitt ríkissjóði samkv. lögum 1905, + 4% vöxtum. Þetta orðalag frv. mun stafa af því, að menn hafa álitið, að þetta væri fje, sem landbúnaðinum einum bæri og aldrei hefði því átt að renna í ríkissjóð. Jeg er nú þeirrar skoðunar, að þetta sje aukaatriði og að ekki beri að fást um slíkt. Mjer stendur alveg á sama, hvort landbúnaðurinn á tilkall til þessa fjár eða ekki. Aðalatriðið fyrir mjer er, að fjeð fáist greitt og að landbúnaðurinn fái það fje, sem hann þarf. Hitt má vel vera, að þarna sje um hreina og beina innieign að ræða, enda þótt mjer finnist það í sjálfu sjer hjegómi. En orðalag frv. þarf lagfæringar við, til þess að upphæðin verði gerð ákveðnari, og óþarfi finst nefndinni, og jafnvel fara ver á því, að reikna þetta fje svo nákvæmlega út, að standi máske ekki einu sinni á tug króna, heldur jafnvel á einni krónu eða broti úr krónu.

2. brtt. nefndarinnar er við 19. grein. Samkvæmt þessari gr. frv. eru lán, sem veitt eru meðan ekki er lokið útgáfu 1. flokks vaxtabrjefa, undanþegin gjaldinu, en eftir að útgáfu þess flokks er lokið, fæst engin linun á þessu gjaldi, hvernig sem horfurnar eru eða fjárhagsástæður í landinu yfirleitt. Nefndin taldi því nauðsynlegt að lagfæra þetta, þannig að ef vextir hækkuðu upp í 6% eða þar yfir, þá mættu allir lánþegar eiga von á ívilnun á þessu gjaldi eða losna með öllu við það.

3. brtt. a. fer í þá átt að fella í burtu úr frv. ákvæðin um, að búnaðarþingið beri ábyrgð á skipun gæslustjóranna. Meiri hl. nefndarinnar getur alls ekki sjeð, að búnaðarþingið sje á nokkurn veg færara um að bera þá ábyrgð en stjórn ríkisins; og er þetta skýrt tekið fram í nál. okkar. Vitanlega verða vart valdir aðrir menn til þessara starfa en þeir, sem búsettir eru í Reykjavík; menn, sem hefðu þetta sem nokkurskonar aukastörf. Búnaðarþingsmennirnir eru að jafnaði of ókunnugir hjer í bæ til þess að þeim sje ætlandi að vita, hverjir best væru fallnir til þessara starfa, og mundu því verða að fara eftir tillögum annara um þetta; eða með öðrum orðum, þeir mundu alls ekki ráða því sjálfir, hverja þeir ljetu útnefna, heldur fara þar eftir tillögum eða óskuni einhverra annara. Ríkisstjórnin veit þetta alt miklu betur og er betur treystandi til að velja þá menn eina, sem hæfastir eru til þessa starfa, og því er rjett, að ríkisstjórnin ráði þessu og beri alla ábyrgð á því.

Þá kem jeg að 3. brtt. b. Nefndin áleit rjett, að ef það yrði samþykt að fella í burtu úr frv. ákvæðin um íhlutunarrjett landbúnaðarþingsins um skipun gæslustjóra, að slá þá um leið þann varnagla, að að minsta kosti einn gæslustjóranna skuli hafa sjerþekkingu í landbúnaði.

4. og síðasta brtt. nefndarinnar er langveigamesta brtt., og er hún um að 34. gr. frv. verði feld burtu. Grein þessi, sem mun hafa komið inn í frv. í hv. Nd., virðist vera sett þar af sparnaðartilhneigingu og ekki öðru. Tilgangurinn hefir verið sá, að spara mannahald við þessa stofnun, ræktunarsjóðinn. Það er vitanlegt, að þegar ríkisveðbankinn verður stofnaður, þarf hann sína sjerstöku stjórn, og því hefir þess verið vænst, að spara mætti forstjóraembættið við ræktunarsjóðinn og fela bankastjóra eða bankastjórum ríkisveðbankans forstjórn ræktunarsjóðsins. Jeg og öll nefndin álítum þetta vera mjög óheppilegt og að það gæti orðið landbúnaðinum til hins mesta óhagræðis eða beinlínis stórtjóns. Þetta mundi vitanlega gera minna til, ef það væri víst, að forstjóri ræktunarsjóðsins yrði gerður að formanni ríkisveðbankans. En sú vissa liggur alls ekki fyrir. Og allra síst að nokkur trygging sje fyrir því, að við skipun bankastjóra ríkisveðbankans yrði aðallega tekið tillit til hagsmuna ræktunarsjóðsins eða þekkingar umsækjanda á högum landbúnaðarins. Með því að halda 34. grein frv. yrði stjórnin á ræktunarsjóðnum fyrst um sinn, og hver veit hve lengi, aðeins millibilsástand. Á þessu þingi fæst engin vissa um það, hvenær ríkisveðbankinn verður stofnaður, og enginn getur með vissu sagt ennþá, hve lengi það muni dragast, ef til vill 1–2–3 ár. Það er augljóst, að til svo skamms og óákveðins tíma mundi vart fást almennilega hæfur, því síður góður eða fær maður til þessa starfa. Með þessu ákvæði 34. gr. yrði þannig strax í byrjun stigið mjög óheppilegt og óheillavænlegt spor, er hindra mundi fyrst og fremst, að hæfur maður fengist sem forstjóri ræktunarsjóðsins, þar sem enginn maður í lífvænlegri stöðu mundi líklegur til að fást til að fleygja starfi sínu frá sjer til þess að taka að sjer ræktunarsjóðinn og vera þar aðeins til vara um nokkur, ef til vill örfá ár. Það mundi mega ganga út frá því sem vísu, að enginn maður, sem hefði fullkomna þekkingu eða vit á landbúnaði, fengist til þessa. Og færi svo síðar, að forstjóri ríkisveðbankans, þó að öðru leyti væri hann góður og gegn, hefði litla þekkingu, og ef til vill ennþá minni áhuga á landbúnaðinum, mundi þessi stofnun verða búnaði vorum til lítilla hagsbóta. Það er ekki nóg fyrir landbúnaðinn, að fje sje til, ef forstöðumaður ræktunarsjóðsins veit ekki, hvernig á helst að nota það. Það er einskisvert að hafa fje til, ef það er annaðhvort alls ekki notað eða því er varið til þess, sem að engu gagni kæmi landbúnaðinum. Þessi 4. og síðasta brtt. nefndarinnar er þannig aðalbrtt., sem hún leggur mesta áhersluna á, að hv. deild samþykki. Vitanlega leggur nefndin fulla áherslu á, að samþyktar verði hinar aðrar brtt. hennar, þar eð hún er sann færð um, að þær eru til mikilla bóta á frv., enda væntir meiri hl. nefndarinnar, að hv. Nd. geti fallist á frv. þannig breytt, vegna þess að flest af þessu, sem við leggjum til að breytt sje, var í Nd. samþykt aðeins með örlitlum atkvæðamun og hefir líklega ekki verið þar athugað nógu vandlega.