07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Sigurður Jónsson:

Það mun þykja hlýða, að jeg geri grein fyrir sjerstöðu minni og atkvæði um þetta mál, er jeg hefi ritað undir nál. með fyrirvara. Mjer er það mest áhugamál, að frv. nái að ganga fram á þessu þingi og verða að lögum, og því þykir mjer varhugavert, ef þessi háttv. deild ætlar að breyta frv. í höfuðatriðum. Það er rjett, sem hv. frsm. (EP) sagði, að samþykt þessa frv. yrði líklega það eina, sem gæfi þessu þingi varanlegt gildi í augum bænda, enda væri frv. stórt spor í áttina til að liðka lánskjör landbúnaðarins. Mjer þykja varhugaverðar allar stórfeldar breytingar á frv., því þær gætu orðið til að spilla því, að frv. næði að ganga fram, og áreiðanlega til þess að lengja og tefja þingtímann, en jeg tel vansjeð, að hv. Nd. taki því með þegjandi þögn, að frv. verði mjög snúið við. Annars ætla jeg ekki að ræða þessar brtt. nefndarinnar, en jeg mun sýna með atkv. mínu, hvaða skoðun jeg hefi á þeim.