07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg er þakklátur hv. landbn. Ed. fyrir undirtektir hennar og meðferð á þessu frv. Einnig get jeg í aðalatriðum fallist á allar brtt. háttv. landbn., sem jeg tel vera til bóta á frv., og finn jeg því ekki ástæðu til að gera þær sjerstaklega að umræðuefni. Þó verð jeg að víkja nokkrum orðum að efni síðustu (4.) brtt. nefndarinnar, um að fella burt úr frv. 34. greinina, sem gerir ráð fyrir, að þessi lánsstofnun sameinist ríkisveðbankanum á sínum tíma og undir eina og sömu stjórn. Háttv. frsm. nefndarinnar (EP) gerði fullkomlega ljósa grein fyrir brtt. þessari frá sínu sjónarmiði og þeirra, sem næst standa ræktunarsjóðinum. En jeg verð að bæta því við til skýringar ræðu háttv. frsm., að jeg geri ráð fyrir, að á næsta þingi verði að taka ákvörðun um, hvenær eða jafnvel hvort ríkisveðbankinn verði stofnaður, vegna þess að þá verður þrotinn 4. flokkur veðdeildarbrjefanna, og verður þá að ráða fram úr um það, hvort bæta skuli við nýjum flokki eða taka upp einhverja aðra tilhögun á þessari lánadeild, t. d. ríkisveðbankann. Þess vegna teldi jeg það óheppilegt, ef það væri látið vera í nokkrum vafa, hvað gera ætti við ræktunarsjóðinn, ef ríkisveðbankinn verður stofnaður; hvort þeir skuli sameinast eða ekki. Jeg gæti hugsað mjer, að svona ákvæði, eins og 34. gr., gætu vafist inn í umr. um ríkisveðbanka á þann hátt, sem óheppilegur gæti orðið fyrir það mál. Það er stór ávinningur fyrir það mál, ef þá er ákveðið, að ræktunarsjóðurinn sje alveg sjerskilinn og út af fyrir sig. Þetta er heimild, sem stendur í greininni, og liggur sem óafgert spursmál fyrir næsta þingi. Þá kunna sumir að verða á móti ríkisveðbanka, af því að þeir vilja ekki eiga á hættu, að heimildin til þess að leggja ræktunarsjóðinn undir hann verði notuð.