07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1924 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Sigurður Eggerz:

Hv. frsm. (EP) mintist á nefndina í bankamálinu og þótti útkoman hjá henni ekki glæsileg. Jeg skal ekki fara mikið inn á það, en jeg álít, að sú nefnd hafi unnið allmikið starf og hafi jafnvel lagt óvenjulega mikið verk í sitt starf. Jeg bjóst satt að segja ekki við, að hún mundi fá byr hjer í háttv. deild sú till. mín, að láta þetta mál vera óútrætt nú og rannsakað af nefnd þeirri, er jeg geri ráð fyrir, að þingið skipaði. Að það hafi verið Lokaráð, sem jeg hefi ráðið í því efni, eins og hv. þm. sagði, því vísa jeg heim, og sannast að segja get jeg alls ekki kannast við, að jeg hafi ekki verið landbúnaðinum velviljaður í hvívetna. Það mun líklega erfitt að finna, að jeg hafi komið með till. honum í óhag. Oft hefir það sýnt sig, að bestu úrræðin fá ekki altaf byr undir báða vængi. Hve margir í þessari hv. deild hafa nú ekki viðurkent villuspor sín í verslunarmálunum, sbr. tóbakseinkasöluna, sem nú er verið að kveða niður eftir tveggja ára reynslu. Sömu mennirnir, sem fylgdu henni fastast, eru nú harðir með því að koma henni fyrir kattarnef.

Þannig mætti einnig fara um þetta mál. Má vera, ef nefndinni væri falið það til rannsóknar, að ýmislegt kæmi í ljós, sem menn ekki grunar nú. Eins árs dráttur skiftir ekki miklu máli, ef niðurstaðan verður betri. Jeg ber fram þessa till. af því jeg óska þess, að hægt verði að stíga með gætni þetta stóra spor landbúnaðinum til góðs.

Jeg endurtek það, að jeg tel ríkisábyrgðina varhugaverða. En ef ríkisveðbankinn yrði settur á stofn, þá væri hægt að komast af með takmarkaða ríkissjóðsábyrgð, af því að stofnsjóður þess banka er langtum stærri og bak hans yrði yfir höfuð miklu breiðara. Það er áreiðanlega nýtt að binda ríkissjóði svo ótakmarkaða bagga sem ábyrgð sú, sem hjer ræðir um, er. Jeg kannast auðvitað við það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) tók fram, að fyrir það, að vextir brjefanna eru svo háir, þá verða minni afföll af brjefunum. En hinsvegar þola brjefin minni afföll, þegar vextirnir eru háir. Ef afföll að ráði bætast t. d. ofan á 6% vexti, þá fara kjörin að verða heldur hörð fyrir landbúnaðinn.

Jeg skal ekki fara að taka upp alt það, sem jeg hefi áður sagt um þetta, en jeg er sannfærður um, að rjetta leiðin í þessu máli er að rannsaka ítarlega, hvernig brjefunum verður best fyrir komið til þess að útvega sem bestan markað erlendis, og það hygg jeg vera nauðsynlegasta byrjunarskrefið áður en málinu er endanlega ráðið til lykta.

Hv. frsm. kvað mig hafa komist í mótsögn við sjálfan mig þegar jeg talaði um gæslustjórana við sjóðinn. Jeg vil því taka það fram, að auðvitað hugsaði jeg mjer, að búnaðarþingið skipaði gæslustjórana á meðan ræktunarsjóðurinn væri út af fyrir sig, en ef hann væri sameinaður annari stofnun, þá yrðu gerðar aðrar ráðstafanir. Það, sem hæstv. fjrh. sagði um þetta, get jeg fallist á, sem sje, að annar gæslustjórinn væri skipaður af Alþingi.

Ef á að fara að skipa milliþinganefnd á annað borð til þess að rannsaka bankamálin, — því í ósköpunum má hún ekki rannsaka þetta mál líka? Ætlar nokkur að telja mjer trú um það, að landbúnaðurinn skaðist af að bíða eitt ár, ef svo fengist sterkari og betri banki, sem bygður væri á langtum sterkari grundvelli? Hinsvegar get jeg skilið það, að ýmsir af þessum trúnaðarmönnum landbúnaðarins, sem hjer sitja, treysti sjer ekki til annars en greiða atkv. með frv., af því að þeir sjeu hræddir við, að kjósendur tækju það illa upp, ef þeir breyttu á annan veg. En jeg hefi nú svo mikla trú á kjósendum þessa lands, að þeir muni vilja beygja sig fyrir því, sem viturlegast er, bæði í þessu máli og öðrum.