12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg þarf ekki að fylgja þeim úr hlaði með mörgum orðum þessum tveim brtt., sem jeg hefi borið fram. Þær hafa báðar verið samþyktar áður í þessari háttv. deild. En jeg tek það fram þegar, að ef mjer hefði komið til hugar, að nokkur hætta myndi stafa af því fyrir málið í heild, að þessar brtt. yrðu samþyktar, þá hefði mjer ekki dottið í hug að koma með þær. En jeg er sannfærður um, að málið nær fram að ganga, hvort sem þær verða samþyktar eða ekki. Svo mikið hefir verið að þessu máli unnið, og það er svo gott samkomulag um aðalatriði þess, að það er víst, að það verður leitt til sigurs. Jeg hefi og heyrt sagt, að háttv. frsm. landbn. í Ed. hafi lýst því yfir á fundi, að hann gæti fyrir sitt leyti vel sætt sig við, að brtt. mínar verði samþyktar. Einkum á þetta við fyrri brtt. mína, um að gæslustjórarnir skuli skipaðir samkv. till. búnaðarþingsins. Menn þurfa ekki að greiða atkv. um þá till. með það fyrir augum, að þeir sjeu að bjarga málinu, ef þeir fella hana. Það er ómögulegt að gera hv. Ed. þær getsakir, að hún láti málið stranda af þeim sökum, að þessi till. verði samþykt. Það er líka svo, að það er stórmál, sem aðeins er til 2. umr. í hv. Ed. í dag, og líklega á eftir að koma hingað, en telja má víst að afgreitt verði á þessu þingi, og því mun þessu máli eins borgið, hvernig sem snúist er við þessum till.

Seinni brtt. er um, að ræktunarsjóðinn megi sameina ríkisveðbankanum, þegar hann tekur til starfa. Þessi brtt. er alveg með sama orðalagi og stóð í frv., er það var afgreitt hjeðan. Gerði jeg fulla grein fyrir þessu við 2. umr., og meiri hl. þessarar hv. deildar fjelst þá á það.

Um hina brtt., eða að gæslustjórarnir sjeu skipaðir eftir tillögum búnaðarþingsins, þarf jeg heldur ekki að fjölyrða. Jeg er að vísu einn hjer til frásagna um það, sem gerðist á búnaðarþinginu, en jeg get fullyrt, að þá varð það að samkomulagi milli hæstv. landsstjórnar og búnaðarþingsins, að þetta ákvæði stæði í lögunum, enda fjell þá búnaðarþingið frá hinu, sem stóð í frv. Búnaðarfjelagsnefndarinnar, að búnaðarþingið skyldi skipa alla stjórn sjóðsins. Síðan var þetta mál afgr. með besta samkomulagi og ákvað búnaðarþingið að fela stjórn Búnaðarfjelagsins að sjá um þetta þar til það næst kæmi saman. Því kemur mjer það kynlega fyrir, að hæstv. fjrh. (JÞ) skuli með atkv. sínu, og jeg geri einnig ráð fyrir með áhrifum sínum, hafa lagt í móti því, að þetta verði samþykt. Jeg kalla það hiklaust, að hjer hafi verið sett grið í málinu um þetta. Við á búnaðarþinginu treystum því fyllilega, að þau yrðu haldin. En nú sje jeg ekki betur en að þau grið hafi verið rofin. Og jeg segi það hiklaust: Hjer hafa verið rofin grið.