12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1933 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg stend einungis upp til þess að mæla með því, að frv. verði samþykt óbreytt, en ekki hrakið á milli deilda með því að nú verði samþyktar brtt. hv. þm. Str. (TrÞ). Jeg gat ekki verið viðstaddur, er hv. þm. Str. talaði, en mjer er tjáð, að hann hafi sagt, að stjórnin hafi gefið búnaðarþinginu loforð um, að þau ákvæði skyldu tekin upp í frv., að búnaðarþingið skyldi hafa tilnefningarrjett um gæslustjórana. Hafi hann sagt þetta, vil jeg leiðrjetta það. Stjórnin hefir aldrei gefið búnaðarþinginu slíkt loforð. En svo stóð á, að slík ákvæði stóðu í því frv., er hin svokallaða Búnaðarfjelagsnefnd samdi og stjórnin studdist við, er hún bjó til stjórnarfrv. Þegar búnaðarþingið sat á rökstólum, gat það ekki vita annað en að þetta yrði máske samþykt, og ræddi því um tilnefning gæslustjóraefna. Þá vorum við hæstv. atvrh. (MG) kvaddir á fund þess, og það talaðist svo til, að ef þetta yrði að lögum, skyldi tilnefningin í þetta skifti falin Búnaðarfjelaginu. Hitt var alls ekki samþykt, að slíkt ákvæði skyldi koma inn í lögin, heldur aðeins, að ekki þyrfti neitt að standa fyrir málinu af hendi búnaðarþingsins, ef svona lagað ákvæði yrði að lögum.