12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Pjetur Ottesen:

Það er aðeins út af því, að jeg greiddi því atkvæði á dögununum, að gæslustjórar ræktunarsjóðsins skyldu skipaðir samkvæmt tillögum búnaðarþingsins, að jeg kveð mjer hljóðs. Þessu var, eins og kunnugt er, breytt í hv. Ed., en nú hefir hv. þm. Str. (TrÞ) komið fram með till. um að taka það aftur upp. En þar sem hv. frsm. landbn. (ÁJ) hefir lýst því yfir, að 4 af 5 nefndarmönnum leggi eindregið með því, að frv. verði samþykt óbreytt eins og það liggur fyrir, og leggur á móti brtt., af ótta við að þær tefji málið, þá mun jeg beygja mig fyrir áliti hv. meiri hl. landbn. og fylgja frv. eins og það er nú.

Síðari till. hv. þm. Str. (TrÞ) er jeg eins og áður eindregið á móti. Mjer finst sjálfsagt, að þetta sje sjálfstæð stofnun og stjórn hennar eingöngu skipuð með hagsmuni landbúnaðarins fyrir augum. Þeirra á hún einna að gæta. Þess vegna mun jeg greiða atkv. á móti þessari brtt. eins og á dögunum. Og jeg er þess fullviss, að þessi stofnun nær best tilgangi sínum með því að vera sjálfstæð, en ekki með því að henni sje blandað saman við aðra stofnun, sem hún á ekkert skylt við.