12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

20. mál, verðtollur

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vitnaði í ummæli, er jeg hefi viðhaft á síðasta þingi í sambandi við innflutningshöft. Það mun vera rjett, sem hann hafði eftir mjer, en jeg vil jafnframt leiða athygli hv. þm. (ÁÁ) og annara að því, að í þessum ummælum mínum felst ekkert, sem hann getur tekið sjer til inntekta í þessu máli. Jeg sagði, að stjórnin myndi ekki ganga lengra í því að beita innflutningshöftum en svo, að ekki yrði halli á rekstri ríkissjóðs árið 1924. Og mín meining var altaf sú, að beita höftunum eftir því, hvernig árferði yrði, og einkum þó eftir því, hvernig hagur landsmanna stæði við útlönd. Jeg skoða innflutningshöft fyrst og fremst vel til þess fallin að stuðla að jafnvægi á viðskiftareikningi landsmanna við útlönd. Og því verður ekki neitað, að út á við er geysimikill munur á afkomu landsins nú og var í fyrra.

Jeg vildi aðeins leiða athygli manna að því, að ekkert ósamræmi er í hinum tilvitnuðu orðum mínum og því, sem nú er fram komið.