28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

20. mál, verðtollur

Ágúst Flygenring:

Jeg á hjer litla brtt. á þskj. 368 við till. nefndarinnar, sem að vísu má eins kalla leiðrjettingu á 2. lið verðtollslaganna, um að undanskilja frá tolli botnvörpukeðjur og keðjulása, bolta, saum og rær o. fl. þ. h.

Þetta eru hlutir, sem ekki er hægt án að vera, en ekki heldur að búa til hjer. Hjer má því enginn verðtollur hvíla á. Jeg hefi t. d. nýskeð keypt efni í bryggju í Hafnarfirði og verð að borga um 1600 kr. í toll af boltunum, sem viðirnir eru tengdir saman með. Slík fyrirtæki eru hvarvetna annarsstaðar styrkt af ríkissjóði, og sjest þá af þessu, hversu tollur þessi getur orðið ranglátur.

Jeg mun ekki lengja mál mitt meira, en verð að segja það, að jeg, eins og flestir aðrir, er óánægður með verðtollinn, enda þótt hann kunni að vera nauðsynlegur nú sökum afgreiðslu fjárlaganna. En sjálfsagt tel jeg, að allir sjeu sammála um, að full þörf sje á að endurskoða verðtollslögin öll sem fyrst og gera rækilegar breytingar í þá átt að ná rjettlátara samræmi, ef þingið neyðist til að halda lögunum til langframa, eða lengur en næsta ár.