28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

20. mál, verðtollur

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg þarf að svara hv. 3. þm. Reykv. (JakM) nokkrum orðum út af því, sem, hann sagði um stefnumun milli sín og meiri hl. nefndarinnar. Hann vildi sýna fram á, að meiri hl. vildi gera miklu gagngerðari breytingar en hann á tollalöggjöf þessari, en jeg býst við, að lengi megi sakast um, hvort svo sje eða ekki. Frá formsins hlið má raunar segja, að okkar till. sjeu víðtækari, þar sem við förum fram á meiri flokkaskiftingu, en að efninu til held jeg, að hans brtt. sje gagngerðari, þar sem þær hafa gagnger áhrif á tekjurnar af frv. Hann segir sjálfur, að þessi verðtollur sje settur til að ná fje í ríkissjóðinn til að jafna hallann á útkomu ársins, og er þá sú breytingin auðvitað gagngerðari, sem fer lengra í þá átt að draga úr eða breyta þessum aðaltilgangi laganna. Þá er og ástæðulaust að segja, að við stefnum að því að gera tollinn fastan, því að það er alveg eins hægt að lækka tollinn alment eða fella hann niður alveg, þó okkar brtt. yrðu samþyktar eins og þó hans brtt. gengju fram. Hann vill byrja á lækkuninni strax, en meiri hl. ekki; það er aðalágreiningurinn. Jeg get auðvitað ekki sagt fyrir hönd okkar nefndarmanna, hvernig við höfum hugsað okkur, að væntanleg lækkun fari fram, en geri ráð fyrir, að byrjað yrði þá á að fella niður lægsta tollflokkinn, (10%-flokkinn), því í þeim flokki eru eingöngu nauðsynjavörur, eins og bent hefir verið á.

Jeg get vel gengið inn á það, að sundurliðun okkar á tollvörunum sje að ýmsu leyti fálm út í loftið. Svo hlýtur það altaf að verða, meðan ekki er fenginn neinn fastur grundvöllur til að byggja skiftinguna. En við höfðum þó til hliðsjónar gögn, sem ekki hafa áður verið fyrir hendi, sem, sje allstóran lista yfir vörur, sem fallið hafa undir verðtoll síðan lögin komu til framkvæmda. Og þó hann væri ekki tæmandi, þá var okkur samt mikil leiðbeining að honum, enda hefi jeg ekki heyrt veruleg andmæli gegn skiftingu okkar, og þótt vitanlegt sje, að aldrei verði alveg siglt fyrir hverskonar misrjetti í þessu efni, þá er þetta þó vissulega spor í rjetta átt. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) kvaðst geta bent á vörur, sem væru alveg eins miklar nauðsynjavörur og þær, sem taldar væru í 10%-flokkinum og ættu þar því heima, svo sem vefnaðarvörur af ýmsu tægi. Það skal játað, að meðal vefnaðarvarnings er margt af nauðsynjavörum, en þó geta dýrar vefnaðarvörur, sem ekki koma að meira haldi en ódýrar vefnaðarvörur, varla talist meðal þess nauðsynlega, að svo miklu leyti, sem þær eru dýrari en hinar. En einmitt slíkur varningur er gott dæmi þess, hve órjettlátt er að tolla eftir þyngd. Og jeg vil segja, að hvergi eigi verðtollur betur heima en einmitt á þessum vörutegundum, því þá kemur hann þyngst niður á dýrustu og óþörfustu tegundunum. — Þá sagði hv. þm. (JakM), að tekjurnar yrðu lítið eða ekkert minni eftir hans till.; en það er ekki rjett. Tekjurýrnun eftir okkar till. nemur aðeins 10% lækkun á litlum vöruflokki sem fellur undir 10% tollinn. Eftir hans till. græðist raunar 5% á þeim flokki, borið saman við till. meiri hl., en þar á móti kemur 5% tap á meginhluta þess varnings, sem verðtollurinn nær til. Er það vafalítið, að þetta hlýtur að muna mjög miklu, ef til vill hundruðum þúsunda kr. Hann talaði og um það, að fært væri að samþykkja sínar brtt., þó þær hefðu lækkun í för með sjer, því tollurinn væri eftir sem áður mjög hár, því hann næmi á fyrsta fjórðungi þessa árs því sem næst helmingi meiru en í fyrra. En jeg held, að erfitt sje að spá um það, hvað tollurinn verði mikill 1926. Fer það auðvitað eftir því, hvað mikið verður flutt inn af vörum.

Annars má segja, að hv. samþm. minn (JakM) og aðrir, sem honum fylgja, gangi á móti sjálfum sjer, þegar þeir þykjast ekki geta aðhylst okkar brtt. vegna þess, að flokkaskifting okkar verði of erfið í framkvæmdinni, en leggja þó til, að settur verði nýr tollflokkur með 30% verðtolli, og brjóta þannig af sjer þau þægindi, að hafa aðeins einn tollflokk. Fer þá að verða bitamunur, en ekki fjár, um erfiðleikana á framkvæmd laganna. Úr því flokkarnir eru tveir, skiftir víst minstu máli, þó að þeim þriðja sje bætt við. Jeg játa, að þetta eykur hæstv. fjrh. óþægindi, en jeg býst ekki við, að hann sjái eftir starfskröftum sínum í það.

Þá talaði hv. þm. (JakM) fyrir brtt. sinni um að undanþiggja tolli bókbandsefni og hljóðfæri. Persónulega er jeg þessu fylgjandi, að minsta kosti hvað hljóðfæri snertir, og mælti fyrir því í nefndinni. Er það og hart, þegar bækur eru undanþegnar tolli, að þá skuli hliðstæð menningartæki, eins og hljóðfæri, ekki vera það líka. En það er um hljóðfæri eins og sumt fleira, að þó að þau geti verið alveg ómetanleg og bráðnauðsynleg menningartæki, þá geta þau líka verið hreinn „luksus“, þegar þau eru ekki til annars notuð en vera til skrauts í híbýlum manna. En það er hart, að það skuli þurfa að koma niður á þeim, sem hljóðfæranna hafa veruleg not.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) var að endurtaka þá brýningu sína við okkur, sem erum andvígir einkasölu á tóbaki, að það væri víst ekki mikil þörf á að afla ríkissjóði tekna, þegar við vildum kasta frá okkur annari eins tekjulind og tóbakseinkasalan er. Það er leiðinlegt áð heyra óvitlausa menn endurtaka stöðugt svona firru. Ásökun þessi væri auðvitað rjettmæt, ef við bygðum okkar skoðun á tóbaksmálinu á því, að tekna væri ekki þörf. En eins og hv. þm. (HStef) veit, þá hefir einmitt þetta verið aðalágreiningsefnið, hvort afnám tóbakseinkasölunnar hafi í för með sjer tekjurýrnun fyrir ríkissjóðinn eða — ekki. Þar stendur orð á móti orði, og skil jeg ekki í því, að neinn háttv. þingmanna langi til þess að fara að draga þá deilu enn á ný inn í þetta mál. Sama er að segja um tekjuskattinn, að margur telur orka tvímælis, hvort skatturinn minki við það, að þriggja ára reglan sje viðhöfð, eða ekki. Jeg hefi heyrt utanþingsmenn, sem skyn bera á þessi mál, halda því jafnvel fram, að eins mikil líkindi sjeu til þess, að skatturinn hækki við breytinguna. Annars skildi jeg ekki hv. þm. (HStef) svo, að hann með þessu væri að ógna með því að verða móti till. nefndarinnar, því þá myndi hann hafa látið mig vita um það, svo að jeg færi ekki að bera fölsk boð frá nefndinni; heldur mun hann rjettilega telja sig hafa óbundnar hendur um ýmsar smærri breytingar, sem nefndin hefir stungið upp á.

Það mætti margt segja um þetta frekar, þó jeg sleppi því nú. En þegar hv. þm. (HStef) talar um ríkan ríkissjóð og sveltandi þjóð, þá held jeg, að hann sje að fara með vitleysu. Tekjur ríkissjóðs hljóta altaf að vera mjög háðar gjaldþoli þegnanna; tekjustofnarnir standa og falla með ástandinu í landinu á hverjum tíma.

Þá talaði hv. þm. (HStef) ennþá fyrir brtt. sinni, þeirri að fella niðursoðna mjólk út úr lögunum, en taka hana upp í 10% tollinn. En ekki er það rjett, sem látið hefir verið í veðri vaka, að mjólk sje ótolluð fyrir. Á henni hvílir einmitt tiltölulega hár tollur, þar sem hún er í 7. flokki vörutollslaganna, og nemur sá tollur 6 au. af kg. En hver dós mun vera, að umbúðum meðtöldum, um 1/2 kg., svo tollurinn á hverri dós verður um 4 au., að viðbættum 25%, gengisviðaukanum. Þetta er strax ekki svo lítill stuðningur við innlenda framleiðslu á mjólk, þar sem þetta nemur nálega 2 kr. á kassa; svo eru ýmsir erfiðleikar, sem útlenda framleiðslan á við að stríða, t. d. „fragt“ til landsins. Ofan á þetta er svo farið fram á að tolla mjólkina svo, að nema mundi eitthvað nálægt 6 aurum á dós, svo þá eru það orðnir 10 aurar á dós, sem mjólkin væri tolluð.

Það var tekið fram, sjerstaklega af hv. þm. Borgf. (PO), sem einnig talaði fyrir þessari till., að hjer væri í raun og veru alls ekki verið að fara inn á nýja braut, ekki tekinn upp verndartollur, heldur láta þessa vöru eins og margar aðrar, sem framleiddar eru hjer, falla undir sömu ákvæði verðtollslaganna. En alt, sem sagt hefir verið í þessu máli, sýnir, að hjer er beinlínis ekki um annað að ræða en vernda niðursuðuverksmiðjuna í Borgarfirði; enda er það augljóst, að svo er. Nú er það held jeg ekkert deilumál hjer, að það sje rjett að styðja þessa verksmiðju. Till. var borin fram í þessari hv. deild, eins og þegar hefir verið minst á, að veita henni 8 þús. kr. styrk; og jeg sje, að fjvn. Ed. hefir tekið upp þessa till. Jeg skal játa, að þessi styrkur er lítið eitt lægri en verndartollur mundi verða, en ætti þó að nægja. En hjer er í raun og veru ekki að ræða um annað en tvær aðferðir til að styrkja fyrirtæki þetta. Önnur er sú, að veita beint úr ríkissjóði nokkurn styrk, og þá að sama skapi meira frá efnamönnum en þeim efnaminni. Það er sú aðferðin, sem jeg vil hafa. En hin aðferðin, sem till. fer fram á, er að láta að mestu leyti fátæklingana í kauptúnunum og kaupstöðunum borga þessu fjelagi styrk til þess að geta haldið áfram, og ekki aðeins það, heldur borga í ríkissjóðinn álitlega upphæð að auki.

Síðustu verslunarskýrslur, sem náð verður til, sýna innflutning mjólkur fyrir. meira en 1/2 milj. kr. Af því mundi tollurinn vera 5 þús. kr., auk þess tolls, sem nú er á mjólk. Ef þetta gjald ætti að skrúfa út úr þeim, sem efnalitlir eru, færi að nálgast á þessu sviði það, sem háttv. þm. N.-M. (HStef) talaði um, feitan ríkissjóð og fátæka gjaldendur. Jeg held það væri rjettara að láta ríkissjóði blæða 8 þús. kr. frá þeim, sem betra eiga með að borga, heldur en skrúfa fátæklingana til þess. Jeg vildi þess vegna óska þess, að brtt. verði feld, enda þykist jeg viss um, að brtt. í hv. Ed. verður samþykt, og á þann hátt sjeð fyrir niðursuðuverksmiðjunni. Og jeg veit, að sú brtt. hefði flogið gegnum þessa hv. deild, hefði ekki orðið þessi handaskol um till.; eftir að önnur var fallin vildu menn ekki ganga inn á hina, því þá fólst í henni nokkurskonar loforð um verndartoll.

Þar sem hv. þm. Borgf. (PO) talaði um, að innlend niðursuða væri trygging fyrir vörugæðum, þá hefi jeg enga trú á, að þessi verksmiðja framleiði nokkuð betri vörur en ágætar verksmiðjur ytra, bæði af því að mjólkin þar er sögð kostmeiri og þykkari, og auk þess kunna menn þar þennan iðnað alveg til fullnustu. Jeg held það sje engin hætta á, að þau bestu merki af erlendri mjólk sjeu nokkuð annað en ágætis vara, og að það væri aðeins takmarkið, sem íslensk niðursuða mætti stefna að, að framleiða jafngóða mjólk, og er þá vel gert. En það er ekki hægt að hugsa sjer, að hún verði fyrirmynd fyrir allri heimsins niðursuðumjólk. Það getur vel verið, að í þeirri miklu samkepni, sem verður að hafa um þessa erlendu mjólk, þá geti komið upp í svip miður góð vara, en hún hverfur fljótt af sjálfu sjer. Niðursuða á mjólk er ein af þeim iðnaðargreinum í veröldinni, sem hefir tekið stórkostlegustum framförum á seinni árum.

Jeg vildi óska þess einnig fyrir hönd þessarar verksmiðju, að brtt. þessi verði feld. Því ef dósamjólkin í Reykjavík og öðrum kauptúnum ætti að hækka að mun hennar vegna, er jeg hræddur um, að það gæti bakað verksmiðjunni þeirra óvinsælda, að jafnvel mynduðust samtök um að. kaupa ekki mjólk frá henni, og losna á þann hátt við þennan vágest. Nei, verksmiðjunni er áreiðanlega heppilegra að fá styrk úr ríkissjóði, auk þess sem það er skynsamlegra og sanngjarnara alment sjeð.

Háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) hefir borið fram brtt. nokkrar; fór hann nokkrum almennum orðum um bráðabirgðaverðtollinn og sagði, að menn hefðu í byrjun vonast eftir, að hann þyrfti ekki að standa nema eitt ár. Já, jeg veit ekki, hvort nokkur hefir verið svo bjartsýnn; að minsta kosti ekki þeir, sem sömdu lögin. Þar er ákveðið, að þau standi til ársloka 1925, en þau gengu í gildi snemma 1924; og jeg get ekki ímyndað mjer, að nokkrum manni hafi dottið í hug, að mögulegt væri að afnema slíkan toll í einni svipan, jafnvel þótt ríkissjóður hefði enga þörf á tekjunum. Það er svo ógurleg meðferð á þeim mönnum, sem hafa flutt inn vörur með þessum háa tolli. Annars er það náttúrlega skemtilegt að koma heim og segja kjósendum, að maður hafi afnumið þungan toll. En því miður er svo lítið skemtilegt við það, ef ekki er verulega ljett byrðunum af; það verður að koma eitthvað í staðinn handa ríkissjóði. Það er í raun og veru engu ljett af þjóðinni með því að ljetta þessum skatti eða hinum af henni, ef tekjuþörfin er áfram sú sama. En hitt verða virkileg fagnaðartíðindi, sem hv. þm. geta flutt kjósendunum á sínum tíma, ef þeir gefast ekki upp við að afla ríkissjóði þeirra tekna, sem hann þarf til þess að geta losað sig sem mest úr þeim skuldum, sem nú gera tekjuþörf hans svo mikla.

Verðtollurinn er náttúrlega þungur, en þó hefi jeg aldrei getað skilið fullkomlega í þeim stórkostlegu kvörtunum undan honum, í samanburði við aðrar byrðar. En jeg endurtek það, að 25% gengisviðaukinn er mjög ósanngjarn, og væri miklu meiri ástæða til að kvarta undan honum um alt land.

Seinustu till. hv. þm. hefir nefndin ekki borið sig saman um; tvær fyrstu till. finst mjer þannig, að það geri ákaflega lítið til, hvort þær verða samþyktar eða ekki.

Út af síðustu till. vil jeg benda hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) á það, að það er tvent, sem nefndin varð altaf að hafa í huga, þegar hún var að athuga þessi plögg; annarsvegar nauðsyn vörunnar, en á hinn bóginn það, hvort lögin verði framkvæmanleg. Og það var einmitt út frá því, að t. d. leirílát, plettvarningur og slitföt var sett í hærri flokkinn, að við gátum ekki sjeð nokkurn veg til að framkvæma tolleftirlitið, þar sem þessar vörur eru fluttar til landsins innan um aðrar vörur í þeim flokki, svo það kostaði það, að opna þyrfti hverja einustu sendingu, sem t. d. silfur- og plettvarningur gæti verið í, og rannsaka til hlítar, og er það svo að segja ógerningur.

En um leirvarninginn vil jeg auk þess segja, að jeg veit ekki, hvort hv. þm. er kunnugt um það, að það er flutt til landsins talsvert af leirvarningi, sem er meiri „luxus“ heldur en jafnvel postulín, skrautgripir, sem kosta of fjár og ætti því að tolla hærra en postulín, sem ýmsum þykir of hátt tollað. Sumir sjá sjer meira að segja hag í að kaupa postulín til daglegrar notkunar, því það er borin meiri virðing fyrir því í eldhúsinu en óvönduðum leirílátum, og brotnar því minna af því.

Jeg held, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) hafi verið að tala um, að miklir erfiðleikar væru á að sundurgreina vefnaðarvörurnar, og þyrfti „specialista“ til þess að ákveða, hvað skyldi undanþiggja. Nefndin hefir samt fundið einfalda reglu um þetta, sem sje þá, að undanþiggja fatnað úr þeim sömu klæðategundum, sem eru undanþegnar verðtolli. Það er því ekki þessi örðugleiki, sem gerir ómögulegt að undanþiggja sumt af fatnaði verðtolli, heldur enn þetta sama: Eftirlitið og framkvæmdin. Það mundi kosta svo mikið í framkvæmdinni að rannsaka allar vefnaðarvörusendingar til landsins til þess að tína það úr þeim, sem undanþiggja ætti.

Jeg býst við, að það verði sömu erfiðleikarnir, sem menn sjá við að samþykkja brtt. hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Hann sagði, að þetta væri bending til nefndarinnar um, hvort ekki væri fleira, sem nefndin vildi taka í 10%-flokkinn. Jeg býst ekki við, að nefndin eigi neitt við það. Nefndin er búin að vinna þetta verk á löngum tíma með geysilegri fyrirhöfn, rýna í margskonar skjöl og lista yfir þessar vörur, og jeg býst ekki við, að hún sjái sjer fært að fara út í rannsókn á ný, einkanlega þar sem fjhn. stendur svo að vígi, að hún kemst ekki á fund vegna þess hve þingfundir standa lengi á eftirmiðdögum.

Háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) vitnaði í ummæli sín við 1. umr., þar sem hann taldi sig geta fylgt frv., ef tekinn væri upp tollur á óþarfavarningi, en undanskildar þarfar vörur. En hann gat eins vel lýst hreinni andstöðu sinni við frv. yfirleitt, því slík aðgreining er varla á nokkurrar nefndar færi; getur altaf orkað tvímælis um, hvað eru þarfar vörur og hvað óþarfar. Í þessu efni má benda á tvo flokka, vefnaðarvöru og skófatnað. Ef ætti að fara að greina þar á milli þarfa og óþarfa, þá efast jeg um, að við höfum nokkurn mann hjer á landi, sem gæti það. Fyrst yrði að endurbæta sjálfan grundvöllinn, sem verðtollslögin byggjast á, sem sje vörutollslögin. Ef við ættum ítarleg vörutollslög, þá mætti kannske byggja verðtollslög á þeim eitthvað í áttina til þess, sem þessi háttv. þm. segist geta fylgt. En vörutollslög eru ekki það, sem maður býr til í einni þingnefnd. Þar sem þau eru til, eru þau stórar bækur, samdar á löngum tíma af fjölda fagmanna, því það skiftir líklega hundruðum þúsunda vörutegunda, sem þar þarf að telja upp, enda hefir sama varan oft mismunandi nöfn, eftir því frá hvaða bæ hún er komin. Það eru ekki nema einstöku forlærðir menn, sem geta skapað slíkan grundvöll.

Það er rjett, sem hv. þm. (ÁÁ) sagði, að verðtollur kemur einstöku sinnum fram sem verndartollur, ekki fyrir innlendan, heldur jafnvel útlendan iðnað. Hann hefir t. d. komið þannig fram á ýmsu, sem lýtur að viðgerðum togara, því að mönnum hefir þótt borga sig að láta gera við togara í Englandi.

Þá benti háttv. þm. á bókbandið. Jeg held, að alt sje háskalaust hvað það snertir, því að jafnvel þótt menn fái eitthvað af útlendum bókum í bandi, munu bókbindarar missa lítils í við það; þeir byggja lítið atvinnu sína á að binda erlendar bækur. En þetta sýnir, eins og hv. þm. sagði, að það er margs að gæta í þessu efni.

Þá hefir verið minst á einstaka teg. í 30% -flokknum og talið ósanngjarnt, að þar væru, svo sem úr og klukkur. En það er ekki svo þægilegt að fara millileiðina, því talsvert af þeirri vöru má hreint og beint telja til skrautgripa, en ekki nærri eingöngu það, sem enskurinn kallar „timekeepers“. Þess vegna tel jeg, að talsverður hluti af þessum vörum eigi heima í hæsta tollflokki.

Annars er jeg hissa á, að enginn nefndi það, sem mjer finst mestur vafi á, hvort vera skuli undir 30% tolli, en það eru niðursoðin matvæli, niðursoðið kjöt t. d., sem suma tíma er nauðsynjavara í Reykjavík. En jeg ætla ekki að fara að ræða það. Hv. þm. sagði, að það væri fjöldamargt í 10%-flokknum, sem átt hefði að vera undanþegið. Nefndin byrjaði á að gera undanþáguflokkinn áður en hún gerði þennan 10%-flokk. Þó það væri ekki nema örfátt og smámunir einir, að því er nefndinni fanst, sem undan átti að taka, þá kom það upp á 11/2 miljón, en það er um 300 þús. kr. í tolli. En nefndin vildi skoða huga sinn tvisvar áður hún legði það til.

Þá beindi hv. þm. spurningu til fjhn, um það, hvort von væri á frv., sem til hennar var vísað, m. a. um að sameina forstöðumannsstöðurnar fyrir áfengisverslun og landsverslun, og tollhækkun í sambandi við það. Því er til að svara, — reyndar stendur formanni nefndarinnar nær að svara fyrir nefndina en mjer, — að fjhn. hefir nú í margar vikur verið gert ómögulegt að starfa það, sem hún hefir þurft, af því að þingfundir eru svo langir. Á hinn bóginn getur hún ekki tekið fundartíma fyrir hádegi, af því að það rekst á fundi annara nefnda. Nefndin byrjaði að ræða frv. þetta, og hefði getað afgreitt það tiltölulega fljótt, hefði tími unnist til, en af þessum ástæðum liggur þetta mál og önnur ennþá hjá henni.

Hæstv. fjrh. mintist á það, að hann teldi ekki óaðgengilega brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) um að færa tollinn niður í 15%, ef lögin gengju ekki í gildi fyr en um næstu áramót. En þá er það að athuga, að innflutningsbannið, sem nú er á allmörgum vörutegundum, og sem jeg held að öllum komi saman um að nú muni óhætt að ljetta af, það mundi þá einnig standa jafnlengi. Og sá vöruflokkur, sem nú er ætlast til að stimpla með 30%, er nálega allur þar í. Jeg tel óheppilegt að ljetta innflutningshöftunum aftur af fyr en búið er að ákveða tollinn eins og hann á að vera í framtíðinni. Ef til vill er ástæða til að láta tolllögin ganga í gildi fyr, t. d. þegar í stað, eða um mánaðamótin maí og júní, til þess að geta því fyr komið þessum ráðstöfunum í framkvæmd.

Um brtt. hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) held jeg, að jeg þurfi ekkert að segja. Það er rjett hjá háttv. þm., að það, sem þar er nefnt, tollast mjög tilfinnanlega með þungatolli, þó ekki komi verðtollur að auki.

Þá held jeg, að jeg hafi minst á allar brtt., sem fram hafa komið, og þurfi ekki að lengja mál mitt meira.