31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, fjárlög 1926

Árni Jónsson:

Jeg stend upp aðeins til að lýsa yfir því, að við þm. N.-M. tökum aftur til 3. umr. brtt. okkar undir róm. XXII á þskj. 235, um styrk til byggingar á Skeggjastöðum. Það kom fram í ræðu hv. frsm. (TrÞ), að biskup Íslands er ekki búinn að taka fulla afstöðu til þessa máls, er hann vantar enn ýmsar upplýsingar því viðvíkjandi, þar á meðal umsögn prófasts Norður-Múla prófastsdæmis. En þar eð herra biskupinn gerir ráð fyrir að „visitera“ á næstunni austur þar, viljum við ekki halda fram þessari brtt. í þeirri mynd, sem hún nú er, en munum breyta henni í þá átt, að við 3. umr. munum við fara fram á, að veittur verði helmingur þeirrar fjárupphæðar, er við óskum, að til þessa verði veitt alls, en hinn helmingurinn verði veittur síðar, er biskup hefir látið uppi álit sitt um þetta mál.