28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1995 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

20. mál, verðtollur

Ásgeir Ásgeirsson:

Háttv. frsm. (MJ) ljet svo ummælt, að jeg hefði alveg eins getað sagt, að jeg væri á móti frv. eins og að óska eftir, að frv. væri breytt þannig, að skift væri sundur nauðsynjavörum og óþarfa. Háttv. nefnd hefir þó verið að baxa við að fara eftir þessum óskum mínum, þótt hún hafi komist helst að þeirri niðurstöðu, að slíkt væri mjög mikið vandaverk. En ef hún hefði talið það alveg ókleift, þá hefði hún eins getað leitt alveg hjá sjer að gera nokkrar flokkunartilraunir. 10%-flokkurinn er því aðeins lítil afsökun vondrar samvisku. Það er rjett hjá hv. frsm. (MJ), að þessi flokkun er mikið verk, ef það á að vera vel unnið, og til þess þyrfti ágæt og ítarleg vörutollslög. En hvort sem það nú verður stefna framtíðarinnar að hafa vörutolla eða verðtolla, þá er víst, að hjer er nauðsynjaverk, sem verður að vinna. Og mig undrar það, að sá undirbúningur tollalaganna skuli ekki hafa verið gerður, að gera greinarmun á þeim vörutegundum, sem þola mikla tolla, og hinum, sem mega aðeins við litlum tollum. Frá fyrstu hefir sú skoðun ríkt í tollmálum hjer á landi, að aðeins bæri að tolla þar vörur, sem menn gætu komist af án, þ. e. óþarfann. Og þar sem þetta hefir verið eitt aðalatriði tollalöggjafarinnar hjer á landi, er kynlegt, að ekki skuli vera búið að vinna að þessari flokkaskifting. Hv. frsm. (MJ) kvartaði einmitt yfir, að verkið væri óunnið, en það hefði auðvitað farið best á því, að það hefði nú verið af hendi leyst við undirbúning verðtollslaganna. Að vísu þarf til þess sjérþekking, en hæstv. stjórn hefir einmitt sjerfræðinga við að styðjast, t. d. lögreglustjórana, sem daglega fást við þessi mál, og fleiri. Jeg skal ekki áfella neinn þunglega fyrir það, að hann hefir ekki unnið að þessu, en aðeins leggja áherslu á, að í mínum augum væri það mjög þarft verk, ef hæstv. stjórn ljeti framkvæma þessa flokkaskifting áður en hún leggur þessi lög næst fyrir þingið.

Hv. frsm. (MJ) sagði, að nefndin hefði einmitt byrjað á því að taka töluvert af nauðsynjavörum undan 20% tollinum. En áður en hún vissi af, var kominn 300 þús. kr. tekjurýrnun fyrir landssjóðinn. Jeg vil nú segja, að hv. nefnd hefði átt að halda áfram á þessari braut sinni og ekki að skelfast svo mjög tekjurýrnunina. En ef hún endilega vildi ráða bót á hallanum, sem af hlytist, hefði hún átt að reyna að leita í fórum sínum eftir því að bæta hann upp með öðrum ráðum en að fella skiftinguna niður. Nú vill svo til, að frv. okkar hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um hækkun á áfengistollinum liggur fyrir nefndinni, og þótt það kynni ekki að jafna allan hallann, myndi það þó vega drjúgt á móti honum, ef það yrði samþykt. Ef hv. nefnd hefði tekið það frv. í sambandi við þetta verðtollsfrv., hefði hún ekki þurft að tefja það svo, að nú er allsendis óvíst, að það komist fram. Því fremur hefði hún líka átt að taka það í þessu sambandi, þar sem hv. nefnd fer fram á, að tollurinn hækki upp í 30% á því, sem hún telur óhófsvöru. Hví ekki að taka mestu óhófsvöruna, áfengið, og hækka að sama skapi tollinn á því?

Jeg er hræddur um, að helsti mikil óheill hafi af því leitt, hve nefndin varð skelkuð, er hún sá, hvílík tekjurýrnun leiddi af sanngjarnri breyting verðtollslaganna.

Verðtollurinn er, eftir yfirlýsing háttv. frsm. (MJ) sjálfs, alveg rjettlaus nú. Hann gat um það í fyrstu ræðu sinni, eins og rjett er, að tilgangurinn með tollinum upphaflega var sá, að jafna tekjuhalla. En nú er sú ástæða ekki lengur fyrir hendi, og því er tollurinn orðinn algerlega rjettlaus. Reynsla síðasta árs var sú, að tekjuafgangur varð, og eins verður að líkindum í ár. Eitt hið fyrsta verk þessa þings hefði því átt að vera það að ljetta þessum tolli af öllum nauðsynjavörum, og það einmitt af sömu rökum og honum var komið á. Þetta átti aldrei að verða skattur til þess að mynda tekjuafgang, eins og hann gerði í fyrra og gerir í ár. Hvort því fje verður varið til afborgunar lausra skulda eða annara þarfra fyrirtækja, kemur ekki málinu við. Tollurinn var ekki settur í því augnamiði. Ef menn hefðu sjeð fyrir afkomu síðasta árs á þinginu í fyrra, hefði engum manni dottið í hug að fara fram á að leggja á þennan toll. En það var hægt að rjettlæta hann af því, að þá var neyðarástand og svart framundan. Þannig var hann aðeins neyðarúrræði. En þess ber vel að gæta, að það, sem getur verið rjettlátt í þessum sökum á hörðum árum, verður oft ranglátt í góðærinu. Svo er um þennan toll, og er það auðskilið, þótt sumir vilji enn ekki við það kannast.

Þessi verndartollur er illþolandi nú og verður enn verri á næsta ári, og það vegur lítið á móti ranglæti hans að sjá þá, sem telja sig unnandi frjálsri verslun, standa fastast með honum, enda þótt þeir ættu að vita, að hann er hin mesta hindrun öllum frjálsum viðskiftum. Því jeg veit ekki betur en að þar, sem stjórnmálalífið er betur þroskað en hjer, þá sje litið svo á af meðhaldsmönnum frjálsrar verslunar, að engin einkasala eigi að vera nje neinir, verndartollar. En það er að heyra á hv. þm. Borgf. (PO), eins og þessi tollur nái ekki til frjálsra viðskifta. Ef honum væri ljóst, hvað hugmyndin frjáls viðskifti þýðir, myndi hann vita, að hún felur í sjer, að menn vilja, að sem flestar vörutegundir sjeu lausar við verndartolla og einkasölu, eða að aðeins sje lagður hátollur á einstaka vörutegundir og einkasala leyfð á örfáum vörum, til þess að afla ríkissjóðnum sem mestra tekna.