28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1998 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

20. mál, verðtollur

Klemens Jónsson:

Jeg hafði hugsað mjer að fara nokkrum orðum um þetta mál, og þá vitanlega að mestu leyti frá almennu sjónarmiði. Því hafði jeg hugsað mjer að geyma mjer að tala til 3. umr. En ýms ummæli, sem komið hafa fram í dag, og þá einkum í garð nefndarinnar, hafa gert það að verkum, að jeg tel rjett að standa upp nú þegar, svo að mönnum skiljist, hvers vegna jeg fylgi þessu máli.

Frv. stendur, eins og það kemur frá nefndinni, í nánu sambandi við það, að nefndin ætlast til, að innflutningshöftin verði alveg afnumin. Þótt Framsóknarflokkurinn hafi ekki átt beinlínis upptökin að haftapólitíkinni, heldur hæstv. núverandi atvrh. (MG), þá hefir hann (flokkurinn) samt haldið henni uppi að mestu á þrem síðustu þingum. Því er ástæða fyrir mig til þess að gera grein fyrir, hvers vegna jeg er nú horfinn frá henni. Jeg skal þá fyrst byrja með þeirri yfirlýsingu, að jeg hefi aldrei persónulega verið hrifinn af þeirri leið að banna innflutning á vörum. Jeg álít ekki, að Alþingi eigi, að raunalausu, að gerast fjárhaldsmaður landsinanna. Þeir eiga yfirleitt að ráða því alveg sjálfir, hvernig þeir verja fje sínu, hvort þeir kaupa fyrir það nauðsynlegar eða ónauðsynlegar vörur, hver eftir sinni getu. Þess vegna fylgdi jeg, meðan jeg var ráðherra, haftafyrirmælunum linlega fram, þegar mjer virtist vera að glaðna til hjer í landi, til dæmis haustið 1922. En þegar það reyndist aðeins augnablikssólskin, þá var aftur hert á. Hins vegar var það ekki óeðlilegt, þó að hindraður væri innflutningur á óþarfavörum, þegar svo var komið, að bankarnir hættu að geta yfirflutt fje fyrir menn til útlanda, af því að skuldirnar við útlönd voru þá orðnar svo miklar, að bankarnir gátu ekki rönd við reist, og menn jafnvel farnir að fara í kringum bankana með gjaldeyrinn. Þá hlutu nauðsynjavörurnar að sitja í fyrirrúmi. Og það var þessi ástæða aðallega, eða jafnvel eingöngu, sem rjeði afstöðu minni til þessa máls. Báðir bankarnir hjeldu því eindregið fram mína ráðherratíð, sem náði yfir 2 ár, að það væri eitt af aðalráðunum til þess að koma jafnvægi á innflutning og útflutning, að hindra aðflutning á óþarfavarningi. Og þetta var ekki gert að raunalausu. Það sjest af nýútkomnum verslunarskýrslum fyrir 1920, að innflutningur varanna var þá yfir 20 milj. kr. hærri en útflutningurinn. Hvernig átti slíkt góðri lukku að stýra? Og er bönkunum var þetta ljóst, var það þá ekki skylda þeirra að reyna að afstýra því, að skuldirnar ykjust? Hverjum stóð það nær og hverjum átti að vera það ljósara en þeim, hvað átti að gera ? Jeg áleit því, og álít enn, að engum ætti að vera þetta ljósara en bankastjórunum, og að það væri því blátt áfram skylda Alþingis, og þó einkum ríkisstjórnarinnar, að fylgja bönkunum í þessu efni. Jeg þarf ekki að orðlengja um þetta. Get látið mjer nægja að vísa til fyrri ummæla um þetta, einkum á þinginu 1922. Þar sjest af brjefum beggja bankanna, að þeir mæla eindregið með innflutningshöftum.

Nú hefir aðstaðan mikið breyst, svo mikið, að jeg hygg óþarft að halda höftunum áfram. Það var á þessum miklu krepputímum talið aðalráðið að framleiða og spara. Hvort menn hafi nú sparað eins mikið við sig eins og æskilegt hefði verið og þeir hefðu vissulega getað, skal jeg láta. ósagt, en jeg efast um það. En hitt er víst, að við höfum aukið framleiðsluna mjög, og öll líkindi eru til, að svo haldi áfram, þó það reyndar sje alveg óvíst, að útkoman verði eins glæsileg þetta ár og síðasta ár. Það er alt undir markaðinum komið. En þó jeg telji það vafasamt, já, meira en það, að útflutningsverðið verði á næstu árum jafnmikið og það var síðastliðið ár, þá verð jeg þó að ætla, að það verði svo mikið, að það, samanborið við þá upphæð, sem græðist við innflutningshöftin, jafnvel þó þeim væri fylgt til hins ítrasta, sem aldrei mun hafa verið gert, geri það vel forsvaranlegt að afnema þau nú um stundarsakir. Það er nefnilega alls ekki meining mín nje annara að afnema lögin frá 8. mars 1920; svo stjórninni er altaf í lófa lagið að innleiða höftin á ný, ef henni þykir nauðsyn til bera. Jeg hefi altaf haldið því fram, að haftalögunum verði að framfylgja gætilega. Þau eru nefnilega tvíeggjað sverð. Það verður að meta og vega nauðsyn haftanna annarsvegar og hag ríkissjóðs hinsvegar. Það er að segja þann tekjumissi, sem ríkissjóður kann að verða fyrir vegna þeirra, og hvort hann er fær um að þola hann. Við það, sem jeg nú hefi sagt, bætist það, að bankarnir, sem árin 1922 og 1923 hjeldu ákveðið fram innflutningshöftum, hafa ekki nú, svo mjer sje kunnugt, látið neina ósk í ljós um það, að þeim verði haldið áfram. Að minsta kosti hefir ekkert slíkt borist til nefndarinnar. Þó leikur mjer grunur á, að einn bankastjórinn við annan bankann sje enn á sömu skoðun um þetta mál sem fyr. En bankarnir hafa ekkert opinberlega látið í ljós um þetta. Og á það verð jeg, samkvæmt áður sögðu, að leggja mjög mikla áherslu.

Af öllum framantöldum ástæðum hefi jeg talið það rjett að afnema nú, a. m. k. fyrst um sinn, innflutningshöftin. En jeg verð að taka það fram um leið, að jeg held hjer fram minni einkaskoðun. Framsóknarflokkurinn hefir ekki á flokksfundum sínum tekið neina fasta afstöðu til þessa atriðis. Jeg tala því ekki fyrir hans munn, enda er jeg ekki formaður flokksins. Mínir flokksbræður hafa því alveg óbundnar hendur að því er afstöðu þeirra snertir til þessa máls, og það er því vel mögulegt, að einhverjir þeirra sjeu mjer ósammála um þetta atriði, eða að minsta kosti byggi afstöðu sína á öðrum forsendum, þótt þeir sjeu mjer sammála um niðurstöðuna.

Þegar jeg tók við ráðherraembætti fyrir 3 árum, átti jeg marga góða vini úr kaupmannastjettinni, bæði hjer í Reykjavík og úti um land. Jeg átti tal við þá um þetta mál, einkum árið 1922. Sumir þeirra höfðu góðan skilning á því og viðurkendu, að innflutningur á óþörfum varningi færi fram úr hófi og nauðsynlegt væri að hefta innflutning þjóðarheildarinnar vegna, en margir, og þeir voru fleiri en hinir, töldu þetta beina árás á sig og frjálsa verslun yfirleitt. Það var viðkvæðið hjá þeim, að ekki ætti að banna innflutning, heldur leggja háan toll á óþarfar vörutegundir. Þeir sögðu: Leggið svo háan toll á þessar vörur, að það verki eins og innflutningsbann. Leggið á 50%, en hafið frjálsa verslun. Nú, þegar við hverfum að þessu ráði, sleppum höftunum, en leggjum á hæst 30% verðtoll, koma þeir sömu menn og segja: Þetta er alt of hátt gjald; það verkar eins og bann. Hvaða samkvæmni er í þessu? Ein af röksemdum þeirra var sú, að þetta hefði í för með sjer aukna smyglun. En hefir ekki það sama verið sagt undanfarið, meðan bannið var? Jú, það hefir altaf verið viðkvæðið þetta síðasta ár. Samt hefi jeg ekki orðið var við, ekki sjeð þess getið í blöðunum, að neinn hafi verið staðinn að eða dæmdur fyrir smyglun á þessum óþarfavarningi. Ef einhverjir hafa verið dæmdir fyrir smyglun, hefir verið um vínföng eða tóbak að ræða. Menn skulu taka eftir, hvort það verður nokkuð betra með tóbakið, þegar það er orðið frjálst.

Þá hefi jeg nú lokið mínum almennu aths. um málið. Um einstaka atriði frv. get jeg látið mjer nægja að vísa til framsöguræðunnar yfirleitt, en vil taka þetta fram. Jeg vona, að háttv. þdm., og þar á meðal hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), sem síðast talaði, geti skilið, hvernig á flokkuninni stendur. Um leið og við viljum afnema bannið, viljum við ekki gera það alveg laust.

Nefndin telur nauðsynlegt að halda 20% gjaldinu, eins og áður hefir verið, en áleit rjett að lækka á ýmsum vörutegundum, sem nauðsynlegar eru til framleiðslu. Hvort nefndin hefir verið heppin í valinu með þær vörur, getur auðvitað orðið álitamál, og jeg er sannfærður um það, að ef allir hv. þdm. væru aðspurðir, hvort þeir væru ánægðir með flokkunina, þá mundu allir hafa eitthvað við hana að athuga. Það væri og kannske rjettara að hafa ekki eins margar vörutegundir undir þeim flokki, sem tollast með 10%, og jeg er fús á að greiða atkv. með brtt., og sama ímynda jeg mjer, að fleiri nefndarmenn geti sagt, því að það er ekki fastmælum bundið að halda fast við hverja einstaka till. Nefndin hefir aðeins komið sjer saman um þetta „princip“.

Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) lýsti í dag eftir frv., sem vísað var til fjhn. snemma á þinginu. Jeg skal játa, að það er rjett, að nefndin hefir ekki skilað áliti sínu um það enn, en hún hefir oft tekið það til athugunar. Það var ráðgert að fá landlækni á síðasta fund nefndarinnar, til þess að heyra álit hans, en hann gat ekki komið. Nefndin ætlaði að halda fund um þetta mál í gær, en hvarf frá því aftur, vegna þess að nauðsynlegt gamalt mál var til umr. hjer. Jeg get lofað hv. þm. (ÁÁ) því fyrir hönd nefndarinnar, að á fyrsta fundi, sem hún heldur, skal þetta mál tekið til umræðu. Það hefir dregist eingöngu vegna þess, að nefndin hefir ekki haft tíma til að ræða það.