28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2005 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

20. mál, verðtollur

Jakob Möller:

Jeg þarf ekki að deila við háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) um það, hvað 10% tollurinn hefir mikla tekjurýrnun í för með sjer.

Um till. hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) um leirvörur er það að segja, að jeg hygg, að erfitt muni að greina vandlega á milli þeirra og postulíns, og er heldur engin ástæða til annars en að láta hið sama yfir báðar þessar vörutegundir ganga. Postulín er ekki fremur „luxus“-vara en leirvörur, heldur er það álitamál, hvort er „praktiskara“.

Það eru aðeins sárfáar vörutegundir, sem taldar eru í 10%-flokknum, er nokkuð sjerstakt mæli með, að fremur sjeu tollaðar með 10% heldur en 15%.

Aðallega stóð jeg upp til að gera nánari grein fyrir því, hvernig verðtollurinn mundi koma út nú í samanburði við tolltekjurnar í fyrra. Þær urðu í aprílmánuði í fyrra 150 þús. kr., en nú 220 þús. kr. Af þessu má sjá, að það má vafalaust lækka tollinn, og þó líkur til þess, að hann fari fram úr áætlun.