08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2017 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

20. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi ekki mjög mikið að athuga við brtt. hv. nefndar, þótt það sjeu einstöku atriði, sem jeg teldi að betur mættu fara á annan hátt, en það er svo smávægilegt, að mjer þykir naumast taka því að gera það að umtalsefni. Það mun vera tilætlun hv. nefndar, að úr og klukkur og annað, sem lagt er til að falli úr a-lið, komi undir 20% verðtollinn, og skal jeg játa, að það getur verið ákaflega mikið álitamál yfir höfuð, hvernig flytja beri á milli þessara tveggja flokka. Sjerstaklega vil jeg mæla með einni brtt. hv. nefndar; þótt svo kunni að vera, að hún geti verið dálítið fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð, þá held jeg, að það hafi verið fyrir ógát í hv. Nd., að þetta kom inn, eða það, að lagður sje 20% tollur á hurðir og glugga. Hv. nefnd fer fram á að fella þetta burt, og það er rjett. Þessi tollur hefir verkað sem innflutningsbann, og þar af leiðandi ekki gefið neinar tekjur í ríkissjóð. Finst mjer vel stilt í hóf að hafa 10% toll á þessu, því mönnum er mjög nauðsynlegt að fá að flytja inn þessar vörur. Þetta var nú viðvíkjandi flokkunarbreytingum háttv. nefndar. Að því er snertir 3. brtt. hennar, um að tolllækkunin gangi í gildi 1. mars næstk., í stað 1. apríl, þá tel jeg, að ekki hafi verið færð nægileg rök fyrir henni og að það sje því ástæðulaust að samþykkja hana. Hinsvegar get jeg ekki sagt, að þetta skifti mjög miklu máli, því að jeg geri ráð fyrir, að síðustu mánuðina áður en tolllækkunin gengur í gildi muni menn hliðra sjer hjá innflutningi. Jeg býst því ekki við miklum innflutningi eða tolltekjum frá áramótum og þangað til tollurinn lækkar. Því er jeg ekki viss um, að þessi brtt. hafi mikinn tekjumissi í för með sjer fyrir ríkissjóð, en hún dregur dálítið. úr þeim innflutningshömlum, sem frv. annars felur í sjer, þ. e. þennan eina mánuð.