31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

1. mál, fjárlög 1926

Bernharð Stefánsson:

Það var út af orðum háttv. frsm. (TrÞ) um brtt. mína um barnaskólann í Ólafsfirði, að jeg þarf að gera örlitla aths. Háttv. frsm. játaði, að æskilegt væri, að skóli yrði reistur í Ólafsfirði, en hann sagði þó, að þessu yrði að fresta.

Jeg þóttist í fyrri ræðu minni um þetta atriði hafa fært fram fullglöggar ástæður fyrir því, að ekki er hœgt að fresta þessu. Skóli verður að koma þarna, og það á þessu ári; ella verður barnafræðslan að falla niður í þessu skólahjeraði af húsnæðisleysi. Verði þessu frestað, get jeg ekki skilið það öðruvísi en svo, að ríkið telji sig ekki hafa ráð til að leggja fram þennan sjálfsagða styrk, en því á jeg ekki hægt með að trúa. Þetta getur ekki verið svo mikilsvert atriði fyrir fjárhag ríkisins yfir höfuð. En hitt er hægt — að fresta þessu máli til 3. umr., og til þess er jeg fús, og tek því aftur þessa brtt. þangað til, svo að hv. fjvn. gefist kostur á að athuga málið betur og þau gögn, sem jeg hefi lagt fram því viðvíkjandi. í þeirri von tek jeg þessa brtt. aftur nú, en mun bera hana aftur fram við 3. umr., en ef til vill eitthvað breytta þá.

Jeg hefi að öðru leyti, ekki tafið tíma þessarar háttv. deildar og lítið gert til að lengja þessar umr., og mun ekki heldur gera það í þetta sinn, en það eru þó tvö atriði, sem hjer liggja fyrir, sem jeg vildi víkja að nokkrum orðum. Það er um styrkinn til Stórstúku Íslands og til ungmennafjelaganna. Bæði þessi fjelög vinna án efa mikið gagn í þjóðfjelaginu og eru því góðs makleg. Bæði eru þau útbreidd víðsvegar um landið og starf þeirra er að mörgu svipað, þar sem bæði vinna að bindindismálinu, þótt ungmennafjelagið hafi reyndar margt fleira á stefnuskrá sinni. Mjer finst því, að ekki ætti að gera eins mikinn mun á þessum fjelögum eins og gert er í frv., þar sem stórstúkunni eru ætlaðar 6000 kr., og 2 hv. deildarmenn flytja jafnvel till. um að hækka hann um 2000 kr., en ungmennafjelagasambandinu aðeins ætlaðar 1500 kr. Þetta þykir mjer of mikill munur, og mun því greiða atkvæði með till. hv. 2. þm. Árn. (JörB). Jeg vil ekki á neinn hátt spilla fyrir fjárframlagi til stórstúkunnar; jeg veit að hún gerir mikið gagn, en jeg held því fram, að það geri ungmennafjelagið engu síður. Nú er mjög kvartað um, að fólkið tolli ekki í sveitum landsins, heldur flykkist til kaupstaðanna, og er talað um ýms ráð til að bæta úr þessu. En jeg segi, og byggi það á töluverðri reynslu: Eitt besta ráðið til að fá unga fólkið til að tolla í sveitunum er, að þar sje góður ungmennafjelagsskapur. En það er með þessi fjelög eins og önnur, að án fjárframlaga einhversstaðar frá fá þau naumast staðið lengi, og er mörgu fje þess opinbera miður varið en til þeirra.