10.02.1925
Efri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það leikur varla á tveim tungum, að verslunarstjettin hjer á landi sje of fjölmenn. Á stríðsárunum hljóp ofvöxtur í hana, svo mikill, að varla verður um það deilt, að kaupmenn sjeu of margir í hlutfalli við aðra landsbúa. Nú er það öllum auðsætt, að þjóðfjelaginu er enginn greiði gerður með þessu. Lífsuppeldi kaupmannanna hlýtur að leggjast á vöruverðið, og ef þeir eru of margir, veldur það hærra vöruverði en þörf er á.

Í árslok 1921 — yngri verslunarskýrslur eru ekki fyrir hendi — eru fastar verslanir hjer á landi taldar rúmlega 800, þar af 36 erlendar. Hjer í Reykjavík eru þá taldar 272 verslanir, og nú má telja líklegt, að þær sjeu um 300.

Margar þessar verslanir hafa ekki fáa menn í þjónustu sinni, og er það því auðsætt, að ekki eru þeir fáir alls á landinu, sem þurfa að lifa af verslunarágóða.

Einnig ber á það að líta, að á síðustu árum hafa ýmsir menn byrjað verslun, sem ekki er vitað um, að hafi þá þekkingu til að bera, sem nauðsynleg virðist til þess að stunda þá atvinnu, og á jeg þar sjerstaklega við þekkingu í bókhaldi og vöruþekkingu. Það ætti að vera sjálfsagt, að enginn ætti að byrja á verslun, nema hann hefði nokkurn veginn staðgóða þekkingu á þeim vörutegundum, sem hann ætlar að versla með. Þessa kröfu verður að gera bæði vegna hans sjálfs og viðskiftamannanna, og alveg hið sama er um bókfærsluþekkingu.

Verslun vor er altaf að færast meir og meir á innlendar hendur, og munu skoðanir ekki vera skiftar um, að það sje oss hollast. En um leið og það verður hljótum vjer að gera þá kröfu til verslunarstjettarinnar, að hún sje starfi sínu vaxin. Og þessi krafa er einnig verslunarstjettinni fyrir bestu, og jeg geng þess ekki dulinn, að allir bestu menn stjettarinnar muni taka undir það, því að vitaskuld er það ekki til hags verslunarstjettinni, að fleiri en góðu hófi gegnir fáist við hana nje að í hana safnist menn, sem ekki bera fult skyn á verslunarmálefni, eða hafa á einn eða annan hátt sýnt með framferði sínu, að þeir eru ekki starfinu vaxnir.

Tilgangur þessa frv. er sá, að safna í eina heild reglunum um skilyrði til verslunar, að þrengja aðganginn að atvinnu við kaupmensku, sumpart með heiðarleikaskilyrðum, sumpart með þekkingarskilyrðum og sumpart með hærra gjaldi fyrir verslunarleyfi, og að setja nánari reglur en hingað til hafa gilt um ýms atriði, er lúta að þessari atvinnu.

Frv., sem fór í svipaða átt og þetta, var lagt fyrir Alþingi 1922, en náði þá ekki fram að ganga. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frv. eftir till. Verslunarráðsins, en fyllilega ánægt mun það ekki vera með frv., enda er varla við því að búast, þar sem slíkt frv. þarf að taka tillit til fleiri manna en þeirra, sem skipa verslunarstjettina.

Að þessari umræðu lokinni leyfi jeg mjer að óska þess, að frv. þessu verði vísað til háttv. allshn.