02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og sjá má af nál. frá allshn. á þskj. 249, hefir nefndin haft frv. til ítarlegrar athugunar og borið sig saman við stjórnina og menn úr verslunarstjettinni, bæði um frv. sjálft og um breytingar þær, er stungið var upp á af nefndinni og Verslunarráðinu. Brtt. nefndarinnar, sem máli skifta, eru ekki mjög margar. Skal jeg fyrst skýra fyrir hv. deild, í hverju þessar breytingar eru fólgnar og af hverju þær eru fram komnar.

Það er þá fyrst brtt. við 3. gr. frv.! Nefndin leggur til, að þar sem ákveðið er, að ráðherra setji fyrirmæli eða reglugerð, þar sem til sjeu tekin þau skilyrði, er þeir verði að uppfylla, sem verslunarleyfi fá, að þau fyrirmæli sjeu gerð í samráði við þær tvær stofnanir í landinu, sem telja má málsvara verslunarstjettarinnar, Verslunarráðið fyrir kaupmenn og Sambandið fyrir hönd samvinnumanna. Því var raunar haldið að nefndinni af Verslunarráðinu, og það var einnig skoðun sumra nefndarmanna, að tilgreina ætti í lögunum þau skilyrði, sem heimtuð yrðu til þess að mega reka verslun. Verslunarráðið hafði búið til frv., þar sem þessi skilyrði voru ákveðin. Þetta mætti auðvitað setja í lögin, ef menn gætu þá orðið ásáttir um, hvað heimta skyldi. En það yrði á þann hátt miklu ósveigjanlegra heldur en ef ráðherra setti fyrirmæli. Þau tilfelli geta vel komið fyrir, að ekki þyki rjett að binda sig algerlega við öll þau skilyrði, sem sett kunna að verða í lögin.

Nefndin aðhyllist frv. stjórnarinnar í þessu efni og leggur til, að viðbót sje sett við 5. tölulið 3. gr., til þess að tryggja Verslunarráðinu og Sambandinu tillögur um þetta. Nú sje jeg, að 2 hv. nefndarmenn hafa gert brtt. við þetta atriði, og vík jeg að því síðar.

Þá gerir nefndin brtt. við 5. gr., þar sem talin eru upp þau skilyrði, sem ætlast er til, að þeir menn fullnægi, sem í fjelögum eru og allir bera ábyrgð á skuldum fjelagsins, t. d. þeir, sem eru í fjelögum innan Sambandsins. Nefndinni þóttu ákvæði frv. of kröfuhörð, þar sem ætlast er til, að hver einstakur fjelagi fullnægi skilyrðunum, sem upp eru talin í 3. gr. tölulið 1–4. Hún leit svo á, að ekki væri hægt að gera svo harðar kröfur til hvers einstaks fjelagsmanns, en hinsvegar sjálfsagt um alla þá, er stjórnina skipa og firmað rita, að gera þessar kröfur til þeirra.

Þá er brtt. við 10. gr., frá nefndinni. Eftir stjfrv. var ekki ætlast til, að sami maður gæti fengið leyfi til verslunar nema einnar tegundar á sama stað; ekki t. d. bæði smásölu og heildsölu. Nefndin gat ekki aðhylst þetta, og eru ástæður hennar teknar fram í nál. á þskj. 249. Er t. d. ein ástæðan sú, að miklum annmörkum er bundið að reka sjerverslun, ef ekki má selja bæði í heildsölu og smásölu. Er hætt við, að umsetningin yrði svo lítil, að verslunin gæti ekki þrifist og yrði að breyta til og versla með margar tegundir, eins og algengast er hjer á landi. En nefndin vill stuðla að því, að sjerverslanir geti orðið sem flestar. Það er sýnilegt hjer, þó í smáum stíl sje, að sjerverslanir hafa að öllum jafnaði best úrval og best verð. Er þetta mjög eðlilegt. Þeim mun færri vörutegundir, sem verslunin hefir á boðstólum, þeim mun meiri athygli er hægt að beina að því, hvar varan fæst best og ódýrust. Aðstaðan er miklu verri þegar verslað er með margar tegundir. Starfið deilist meira og nýtur sín ver.

Þá má og líta á það, að hjer í Reykjavík a. m. k. hefir þótt bera á því, að heildsalar seldu í smásölu við og við beint til neytenda. Það er eðlilegt, að þeim smásölum gremjist, sem eru alveg undir væng heildsalans, að vita hann selja í hálfgerðu pukri til einstaklinga, því með því er gengið á rjett smásalanna. Og þessi smásala heildsalanna fer ekki fram með sama hætti og gerist hjá smásölum, í búð, heldur selja þeir einstaklingum af birgðum sínum með heildsöluverði. Engin lög banna þetta raunar hjer á landi, en hinsvegar má telja það óskrifuð lög, að heildsala beri ekki að selja öðrum af heildsölu sinni (Lager) en kaupmönnum og kaupfjelögum. Ef heildsali vill reka smáverslun samfara heildverslun, þá horfir það alt öðruvísi við. Hann er þá bæði heildsali og smásali, og það er þá öllum vitanlegt, sem við hann skifta. Þess vegna vill nefndin, að það sje alveg gagnstætt því, sem ætlast er til í frv. stjórnarinnar, og að það sje leyfilegt heildsala að reka smáverslun á sama stað, gegn því að viðkomandi maður leysi það leyfisbrjef, sem þarf. Ef heildsali vill líka reka smáverslun, verður hann að haga þeirri smáverslun eins og hjá öðrum, hafa opna sölubúð; með öðrum orðum, þá er hans aðstaða til þess að reka smáverslun alveg eins og hvers annars kaupmanns. Hann greiðir sjerstakt gjald fyrir sitt leyfisbrjef og þarf að halda búðarfólk eins og hver annar.

Þá fanst nefndinni, að ákvæðin í 17. gr. um rjett þeirra manna, sem hafa fengið verslunarleyfi eftir gildandi lögum, væru þannig, að rjettur þeirra væri ekki óskertur samkvæmt greininni, en þennan rjett vill hún láta vera óskertan og að þeir, sem hafa fengið verslunarleyfi, eins og þau hafa verið til þessa dags, þeir haldi þeim rjetti, sem þeir hafa, þó að ný skipun sje gerð um atvinnuna í heild sinni, og það er með þetta fyrir augum, að nefndin gerir brtt. við 17. gr.

Eitt nýmæli tók nefndin upp í frv. eftir till. Verslunarráðsins, árgjöldin. Verslunarráðið hafði stungið upp á því, að þeim, sem verslun reka, væri hjer eftir gert að greiða árlegt gjald, auk þess sem þeir kaupa verslunarleyfisbrjef, en það vildi, að hluti af þessum gjöldum gengi til Verslunarráðsins og verslunarskólans, en nokkur hluti í ríkissjóð. Nefndin getur fallist á, að það mætti taka upp einhver lág árgjöld, en að hinu leytinu getur hún ekki lagt til, að þessi árgjöld renni til neinna sjerstakra stofnana. Þau eiga, eftir hennar till., að renna í ríkissjóð. En á hinn bóginn er það vitaskuld ekki nema sanngirniskrafa af verslunarstjettinni yfir höfuð, að áhugamál hennar sjeu betur styrkt en verið hefir, ef innleidd er þessi skylda um árlegt gjald af verslunarstjettinni. Það varð ekki algerlega samkomulag innan nefndarinnar um það, hve hátt þetta árgjald ætti að vera, og á þskj. 270 er brtt. frá tveimur hv. nefndarmönnum, sem gengur í þá átt að hækka árgjaldið, og á sama þskj. eru tvær aðrar brtt., og miðar sú fyrri sjerstaklega að því að þrengja aðganginn að þessari atvinnu, þar sem brtt. fer fram á, að þeim sje ekki veitt verslunarleyfi, sem hafa einu sinni orðið gjaldþrota, en í frv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir, að maður geti fengið verslunarleyfi, þótt hann hafi tvisvar sinnum orðið gjaldþrota.

Þriðja brtt. frá þessum tveimur nefndarmönnum er í þá átt, að það sje þegar ákveðið í lögunum um þekkingarskilyrði manna. Þeir vilja, sem sagt, láta það standa í lögunum sjálfum, en meiri hl. nefndarinnar gerir sig ánægðan með það, sem stendur í frv. um það, að því viðbættu, að fyrirmæli þau, er sett verða, sjeu sett að fengnum tillögum Verslunarráðs Íslands og Sambandsins.

Jeg hefi þá minst á þær helstu brtt., sem nefndin hefir komið með, og vitaskuld eru brtt. um fleiri atriði, en þær eru ýmist til þess að lagfæra orðalagið eða til þess að skýra einstakar greinar, svo að þær þurfa ekki neinnar sjerstakrar útskýringar við.

Nefndin álítur, að það sje til bóta að draga nú saman, eins og gert hefir verið í þessu frv., bæði gildandi ákvæði um þetta efni og eins að bæta við þeim ákvæðum, sem þurfa þykir, og að settar sjeu reglur um kröfur til þekkingar þeirra, sem framvegis ætla að leggja fyrir sig verslunaratvinnu. Það var tekið fram af hæstv. atvrh. (MG), þegar þetta frv. var hjer til 1. umr., að tilgangurinn með því væri meðal annars sá, að þrengja aðganginn að þessari atvinnugrein, með kröfum um meiri þekkingu á bókhaldi og vöruþekkingu o. s. frv. Jeg get tekið undir það, að rjett sje að gera hæfilega miklar kröfur til manna, sem stunda þessa atvinnu, ekki síður en til annara, en á hinn bóginn held jeg, að með lagaákvæðum einum muni lítið hægt að stemma stigu fyrir því, að menn leggi fyrir sig verslunaratvinnu, því það er með hana eins og svo marga aðra atvinnu, að það verður ilt að stemma stigu við því með lagaboðum, að menn, sem langar til að versla, reyni sig á einn eða annan hátt. Þeir, sem ekki eru færir til þess að standa í stöðu sinni, dragast aftur úr, verða undir í samkepninni. Sem sagt, þetta „regulerar“ sig nokkuð mikið sjálft, og að minni hyggju verður það altaf höfuðreglan, að þeir, sem færastir eru, þeir komast lengst áfram á þessari braut sem annarsstaðar. Þetta er þó ekki sagt til þess að hafa neitt á móti frv.; bæði jeg og eins allir nefndarmenn álíta það þarft og rjett að samþykkja það, með þeim breytingum, sem nefndin leggur til, og þeir tveir hv. nefndarmenn, sem hafa komið með aðrar brtt., eru samþykkir frv. í öllum aðalatriðum. En það er mín skoðun, að þó að þessi lög sjeu sett, þá verði þau ekki einhlít til að ráða við það, hve margir gefi sig við þessari atvinnu.