02.04.1925
Efri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2036 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hefi ekki ástæðu til að vera óánægður við nefndina fyrir meðferð hennar á þessu máli. Hún hefir viðurkent það rjettmætt, þó að hún vilji gera við það breytingar. Skal jeg þá segja henni álit mitt um hinar stærri breytingar hennar, en orðabreytingar og skýringar læt jeg vera, því að þær skifta svo litlu máli.

Er þá fyrst að minnast á þá brtt. nefndarinnar að setja árgjald á verslanir. Sú uppástunga lá fyrir, þegar frv. var samið, en mjer fanst hún ekki rjettmæt. Jeg tel ekki rjett að setja svona gjald á verslanir, þó ekki væri nema fyrir þá sök, að sama gjald á að vera bæði fyrir stórar og smáar verslanir. Jeg viðurkenni vitanlega, að það er ekki hátt gjald, sem hv. meiri hl. stingur upp á, og að stórar verslanir munar ekkert um það. En aftur getur smáverslanir munað það töluvert.

Ef slík tillaga sem þessi hefði komið frá stjórninni, er jeg ekki í neinum vafa um, að hún hefði verið talin ósanngjörn, úr því að það þótti ósanngjarnt og var kallað beinn nefskattur, að allir legðu dálítið af mörkum í sameiginlegan sjóð til þess að styrkja fátæka sjúklinga. Munurinn á verslununum er mjög mikill. En árgjaldið á að vera hið sama á þeim öllum. Það verður því þeim mun ósanngjarnara, sem það er hærra. Jeg get því alls ekki talið þessa till. til hóta, — síður en svo; enda er hjer líka verið að fara inn á nýja leið. Árgjald af verslunum hefir aldrei verið hjer, nema af vínsöluleyfi, því að sá siður hefir verið hjer, eins og alstaðar annarsstaðar, að gjald fyrir verslunarleyfi hefir verið greitt í eitt skifti fyrir öll, þegar byrjað hefir verið.

Þá er annað atriðið, um smásala og heildsala. Það hefir lengi verið deilumál þessara tveggja aðilja, hvort heildsalinn mætti líka reka smásölu, samhliða heild sölu sinni, eins og talsvert þykir hafa bor ið á. Eru smásalarnir mjög óánægðir við heildsalana fyrir þetta. Telja þá vera sína verstu keppinauta, þrátt fyrir það, þó að þeir, smásalarnir, sjeu höfuðviðskiftavinir þeirra. Mjer hefir altaf fundist, að þessar umkvartanir smásalanna væru á rökum bygðar. Þess vegna var sett ákvæði í frv. til að útiloka heildsala frá smásölu. En nú hefir nefndin farið milliveg; vill leyfa heildsölunum að hafa smásölu líka, ef þeir einungis kaupi til þess leyfisbrjef og hafi opna sölubúð. Jeg er nú ekki viss um, nema hægt sje að fara í kringum þetta ákvæði. En eftir atvikum get jeg felt mig við þetta, sjerstaklega þar sem umboðsmaður smásalanna, sem nefndin talaði við, virðist hafa gengið inn á það. En jeg er hræddur um, að smásalarnir verði síðar óánægðir með það.

Þá er 3. brtt. nefndarinnar. Hún er við 5. gr. frv., um að fyrri málsliður 1. töluliðs orðist þannig: „Ef fjelag er, þar sem nokkrir fjelagar eða allir bera fulla ábyrgð á skuldum fjelags, þá skal það eiga heimili og varnarþing á Íslandi og fjelagsstjórnin öll og þeir, sem rita firmað, allir fullnægja skilyrðum 1.–4. og 6. tölul. 3. gr.“ Jeg get að því leyti fallist á þessa brtt., að undir þetta falla samvinnufjelögin. En það var aldrei tilætlunin, að allir meðlimir samvinnufjelaganna ættu að uppfylla þetta skilyrði. Meiningin var, að í 1. flokki væru þau fjelög, sem hefðu takmarkaða fastákveðna fjelagatölu, í öðrum flokki hlutafjelög, en í 3. flokki samvinnufjelög. Eftir þessari brtt. nefndarinnar skilst mjer, að minni kröfur sjeu gerðar til fámennu fjelaganna, þar sem allir bera ábyrgðina. Eftir frv. stjórnarinnar áttu allir slíkir fjelagsmenn, að vera búsettir á Íslandi, en eftir brtt. nefndarinnar er það ekki nauðsynlegt. Jeg efast því um, að þessi brtt. sje til bóta. Hefði jeg því heldur kosið, að ákvæðið hefði verið látið standa eins og það var í stjfrv.

Fleiri brtt. frá meiri hl. nefndarinnar hefi jeg ekki ástæðu til að minnast á, því jeg get felt mig við hinar allar. En um brtt. minni hl. er það að segja, að jeg get ekki gengið inn á neina þeirra. Um þær allar var rætt í nefndinni að mjer viðstöddum, og ljet jeg þá þegar það álit uppi.

Um 1. brtt. er það að segja, að mjer er ekki fyllilega ljóst, hvað átt er við með löglegum samningum. (IP: Nauðasamninga samkvæmt lögum). Því að allir samningar eru löglegir, sem gerðir eru með frjálsum vilja beggja aðilja, ef fullmyndugir eru. (JJ: Þetta sama orð stendur í stjfrv.). Í stjfrv. er gert ráð fyrir, að veita megi þeim manni verslunarleyfi, sem tvisvar hefir orðið gjaldþrota. En minni hl. nefndarinnar leggur til, að engum megi veita verslunarleyfi, sem gjaldþrota hefir orðið. Þetta finst mjer æðihart, því að þess má finna mörg dæmi, að menn hafa orðið gjaldþrota af óviðráðanlegum orsökum, þó að þeir hafi í alla staði verið mjög vel hæfir til þessa atvinnurekstrar.

Aðra brtt. hv. minni hl., að gera að skilyrði fyrir verslunarleyfi, að umsækjandi hafi lokið fullnaðarprófi við verslunarskóla Íslands eða samvinnuskólann, get jeg alls ekki gengið inn á; og vona jeg, að jeg geri ekkert lítið úr þessum góðu skólum fyrir það, þó að jeg líti svo á, að menn geti aflað sjer þeirrar þekkingar á annan hátt, sem fáanleg er þar, og sjái því ekki ástæðu til þess að gefa þessum skólum neitt „monopol“. Þannig er t. d. maður, sem hefir háskólapróf, svo vel að sjer, að hann þarf ekki nema stuttan tíma til þess að læra bókfærslu til þess að hann geti staðið hinum fyllilega á sporði. Auk þessa ber þess að gæta, að bæði verslunarskólinn og samvinnuskólinn eru einkafyrirtæki, sem geta lagst niður. Væru þá engir skólar til, sem gætu int af hendi þennan lögskipaða undirbúning.

Um þriðju brtt. er það að segja, að mjer er sama, hvort hún nær samþykki eða ekki.

Um síðustu brtt. hefi jeg talað áður, og get endurtekið það, sem jeg hefi sagt áður, að jeg tel hana því ósanngjarnari því hærra sem gjaldið er. Því að þó gjaldið sje ekki nema 100 kr., er jeg viss um, að það getur verið tilfinnanlegt fyrir suma smásalana, þó að stærri verslanir viti vitanlega ekkert af því, því að mörg dæmi eru þess, að fátækar ekkjur eru að reyna að halda áfram verslun, þó að tekjurnar sjeu litlar.

Að síðustu vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hv. nefndar, hvort tilætlunin sje ekki, að heildsalar, sem líka hafa smásölu, eigi að greiða hvorttveggja ársgjaldið, bæði 50 og 100 kr. Þetta er ekki fyllilega ljóst eftir till. nefndarinnar.