03.04.1925
Efri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það er ekki til neins að hafa langa ræðu um þetta mál, enda ekki svo mikið, sem á milli ber. Það getur varla orðið mikið deiluatriði, hvort menn, sem tvisvar hafa orðið gjaldþrota, megi halda áfram að versla eða hvort eitt gjaldþrot sje nægilegt til þess að svifta þá verslunarleyfi. Í mínum augum er þetta ekki aðalatriði. En af því að dœmi eru til tveggja gjaldþrota hjá viðurkendum dugnaðarmönnum, þá finst mjer viðkunnanlegra að setja ekki harðari skilyrði en nú eru í frv. En því má ekki gleyma, að því aðeins mega menn halda áfram, sem gjaldþrota hafa orðið, að þeir sjeu búnir að koma samningum á eða greiða allar sínar skuldir.

Um 2. brtt. hv. minni hl. hefi jeg ekki annað að segja en það, sem jeg tók fram í gær, að mjer þykir það ekki sanngjarnt að gefa verslunarskólunum einkarjett til þess að uppala menn í þessar stöður, af því jeg sje ekki betur en að hægt sje á annan hátt að fá þá þekkingu, sem er alt eins góð og sú, sem þessir skólar veita. En náttúrlega dettur mjer ekki í hug að hneykslast á því, þótt hv. 5. landsk. (JJ), sem er skólastjóri verslunarskóla, vilji halda fram rjetti síns skóla. En það er um fleiri að hugsa en þessa tvo skóla og verslunarstjettina, og það eru landsmenn yfir höfuð. Jeg fæ ekki annað skilið en að sá maður, sem talsvert mikið hefir numið, þó annað sje en verslunarfræði, ef hann er eins vel að sjer og sjerskólagengnir menn í öllu, sem að faginu lýtur, þá sje hann ósanngirni beittur, ef hann er útilokaður nema hann hafi int af hendi þetta próf, sem er óneitanlega aðeins form fyrir mann, sem kannske þekkir alt saman, sem að starfinu lýtur, betur en þeir, sem eru útskrifaðir úr þessum skólum.

Að það hafi farið illa fyrir sýslumönnum vegna þekkingarleysis í bókfærslu, þekki jeg ekki til. Mjer er alveg kunnugt um það, að sú bókfærsla, sem sýslumenn þurfa að hafa, er ekki svo flókin, að það geti ekki hver sæmilega skynsamur og mentaður maður int hana af hendi. Það liggja alt aðrar ástæður til þess, að það hefir farið svo hjá sumum sýslumönnum, sem farið hefir, sem sje trassaskapur þeirra sjálfra eða óregla.

Hv. þm. (JJ) spurði, hvaða skilyrði jeg mundi setja í væntanlegri reglugerð. Jeg verð að segja honum það, að þegar jeg ákvað að taka ekki skilyrðin upp í frv., þá var það af því, að jeg áleit heppilegast að afráða ekkert um þau fyr en þar að kæmi. Jeg sje ekki ástæðu til að ákveða þau fyrirfram; enda geri jeg ráð fyrir, að um það verði leitað umsagnar bæði samvinnufjelaganna og Verslunarráðsins eftir till. hv. meiri hl. Og jafnvel þótt ekkert hefði komið fram í þá átt, þá býst jeg við, að að minsta kosti Verslunarráðið hefði verið að spurt.

Um árgjaldið hefi jeg ekki mikið að segja. Hann sagði, hv. þm. (JJ), að litlar búðir hjer væru leigðar á 300 kr. á mánuði. Leigan mun vera farin töluvert að lækka nú, eftir því sem jeg hefi komist næst. En svo er víðar rekin verslun hjer á landi en í Reykjavík, og má ekki miða eingöngu við það, sem þar er. Hinar smæstu verslanir munar töluvert um þetta gjald. Og það er ómögulegt að neita því, að sama gjald á allar verslanir er mjög órjettlátt.

Að síðustu var hv. þm. að tala um, að við værum sammála um að þrengja aðgang að verslunarstjettinni, og það er rjett. En það er álitamálið, hvað á að þrengja hann mikið. Það, sem okkur hv. þm. (JJ) aðallega skilur á, það er, á hvern hátt þetta skuli gert. Jeg hefi þá skoðun, að þessir menn, sem fara í verslunarskólann og samvinnuskólann, þeir sjeu ekki þar svo lengi og njóti ekki þeirrar staðgóðu mentunar, að það sje rjett að láta þá hafa sjerstakan einkarjett til að fara í þessar stöður. Þá skildist mjer hv. þm. leggja áherslu á þetta gjald meðfram sökum þess, að það myndi þrengja aðgang að verslunarstjettinni. En þarna er hv. þm. í mótsögn við sjálfan sig, þar sem hann segir líka, að verslanir muni ekkert um svo lítið gjald. En aðalatriðið er, að það er ekki sanngjarnt að láta menn borga skatt ársárlega fyrir rekstur atvinnu. Yfirleitt er á þessu landi frjálst að reka atvinnu. Sumstaðar þarf þó atvinnurekandi að greiða gjald í byrjun, en eftir það er atvinnan algerlega frjáls. En hitt dettur mjer ekki í hug, að segja, að þetta gjald sje neitt verulegt atriði; og gæti jeg felt mig við frv., jafnvel þótt gjaldið yrði samþykt.

Jeg get eftir atvikum felt mig við brtt. hv. meiri hl., en jeg á erfitt með að fella mig við brtt. hv. minni hl., því jeg sje ekki annað en að minsta kosti þurfi að hafa undanþáguheimild að því er snertir þessa skóla. Það má ómögulega rígbinda sig við þá með þetta verklega nám, sem hv. þm. nefndi. í vöruþekking liggur þó dálítill angi af þeirri verklegu kunnáttu. Skal jeg svo ekki lengja umræður frekar; tel það ástæðulaust.