03.04.1925
Efri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

8. mál, verslunaratvinna

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hæstv. atvrh. (MG) beindi þeirri fyrirspurn til nefndarinnar, hvort hún ætlaðist til, að heildsalar, sem versluðu einnig sem smásalar, ættu að greiða árgjald af hvorritveggja versluninni. Jeg hefi ekki beinlínis borið þetta atriði undir hv. samnefndarmenn mína, en jeg get svarað því frá mínu sjónarmiði, og jeg held, að jeg sje þar í samræmi við skoðun nefndarmanna yfirleitt, en annars svara þeir fyrir sig, ef svo er ekki. Jeg lít svo á, að menn eigi að greiða árgjöldin samkv. verslunarleyfisbrjefum sínum. Sá, sem hefir heildsöluleyfi, greiði árgjald sem heildsali, en hafi hann einnig smásöluleyfi, þá skuli hann og greiða smásalaárgjald.

Vegna þess, sem annars hefir verið sagt um þessi árgjöld, skal jeg geta þess, að nefndin hefir tekið þau upp samkv. till. Verslunarráðsins, sem verður að skoða málsvara verslunarstjettarinnar í landinu. En fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar vil jeg lýsa yfir því, að hann heldur fast við sínar till. um upphæð gjaldsins og mun ekki fallast á, að það verði hœkkað samkvæmt brtt. hv. minni hl., enda er það rjett, sem hæstv. ráðh. (MG) sagði, að gjald þetta kemur altaf misjafnlega niður, þar sem það er jafnhátt á smáum og stórum verslunum, og verður því hlutfallslega þyngra á smærri verslununum. Hið eina, sem getur dregið úr þessu óhjákvæmilega misrjetti, er, að gjaldið sje lágt, og við það vill meiri hl. nefndarinnar halda sjer, og getur því engan veginn fallist á till. háttv. minni hl. um að hækka það.

Jeg vil eindregið mótmæla því, að þessi skattur sje af mjer eða meiri hl. nefndarinnar hugsaður sem liður í því að fækka starfandi verslunum í landinu. Það getur alls ekki verið tilgangurinn.

Sem sagt er till. um þetta árgjald flutt samkv. bendingu Verslunarráðsins, og hefir það í huga, að verslunarstjettin verði sjálf látin njóta góðs af skatti þessum, enda stakk það jafnframt upp á því, að nokkur hluti skattsins gengi til þess sjálfs og verslunarskólans hjer í Reykjavík, sem er undir yfirstjórn Verslunarráðsins.

Nefndinni fanst þó ekki viðeigandi að ráðstafa skattinum þannig fyrirfram, heldur vill hún láta hann renna beint í ríkissjóð, en þó er hún öll á einu máli um það, eins og sjá má af nál., að ekki sje nema sanngjarnt og sjálfsagt, að ríkissjóður verji meira fje en hingað til hefir verið gert til þess að menta verslunarstjettina, og ennfremur til þess að hafa betra eftirlit með því, að ýmsum lagafyrirmælum um verslun og verslunaratvinnu sje hlýtt, eftir að verslunarstjettinni hefir verið íþyngt með slíkum aukaskatti.

Þetta er ekki nema sanngjörn krafa frá þeirra hálfu, sem skattinn eiga að greiða, og þetta hlýtur að vera aðaltilgangurinn með skattálagningunni, en ekki hitt, að hún verði til þess, að verslunum fækki til muna.

Út af ummælum hv. 5. landsk. (JJ) um verslunarskólana er þess að geta, að ekki er nema eðlilegt, að þessi ummæli komi frá honum, sem er skólastjóri annars skólans, sem um er að ræða, en annars eru kröfur hans um þekkingarskilyrðin ekki þannig vaxnar, að hægt sje að segja, að þær sjeu í rauninni of miklar. En hinsvegar finst mjer nægilegt, að hlutaðeigandi maður, sem sækir um verslunarleyfi, sanni fyrir ráðuneytinu, að hann hafi nægilega þekkingu í bókhaldi og á vörum til þess, að honum sje trúandi til að reka sjálfstæða verslunaratvinnu, hvar sem þessi þekking kann að vera fengin. Ennfremur finst mjer nógu tryggilega um hnútana búið, að stjórnarráðið setji fyrirmæli um þetta atriði, að fengnum till. Verslunarráðsins og Sambands íslenskra samvinnufjelaga.