03.04.1925
Efri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

8. mál, verslunaratvinna

Ingvar Pálmason:

Hæstv. atvrh. (MG) hafði m.a.á móti árgjaldinu af þeim ástæðum, að það kæmi jafnt niður á verslunum, hvort sem þær væru smáar eða stórar. Þetta er rjétt að því er árgjaldið snertir, en þess ber og að gæta, að hið sama má segja um sjálft leyfisbrjefagjaldið. Hvorugt þessara gjalda er hægt að miða við stærð verslananna, eins og gefur að skilja. Enda hefir gjald fyrir verslunarleyfi hingað til verið tekið alveg án tillits til þess, að hve miklum hagsbótum leyfið kunni að verða leyfishafa, enda er ekki hægt að ætlast á um slíkt fyrirfram. Manni, sem byrjar verslun í mjög smáum stíl, getur t. d. vaxið svo fiskur um hrygg, að verslun hans verði tiltölulega mjög umfangsmikil á örfáum árum. Slíkt getur altaf breyst frá ári til árs. Jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að þessi árgjöld sjeu einkum nauðsynleg vegna eftirlits með verslunum í landinu.

Eins og kunnugt er, er það mjög slælegt víðast hvar, og t. d. þekki jeg til fjölda manna, sem hafa leyst verslunarleyfisbrjef, en reka þó enga Verslun. Eina ráðið til þess að geta fengið glögt yfirlit yfir starfandi verslanir í landinu er einmitt þetta, að leggja árlegt gjald á verslanirnar. Og þetta tel jeg mikilvægustu ástæðuna fyrir því að lögleiða árgjaldið.

Þá hefir talsvert verið um það deilt, hvort sanngjarnt sje að veita verslunarskólum þeim, sem nú eru starfandi hjer, nokkurskonar einkarjett til þess að framleiða verslunarmenn, eða öllu heldur sjálfstæða verslunarrekendur. Jeg fæ nú ekki betur sjeð en þetta sje í fullu samræmi við það, sem gildir hjá okkur á ýmsum öðrum sviðum. Við höfum allskonar sjerskóla, sem hafa það verkefni að veita mönnum sjerfræðimentun, sem víða er krafist í löggjöfinni til þess að menn megi hafa viss störf með höndum. Þessi brtt., að lögfesta sem skilyrði fyrir að mega reka sjálfstæða verslunaratvinnu, að hlutaðeigandi hafi leyst af hendi próf við sjerskóla, er því í fullu samræmi við ýms ákvæði í okkar eigin löggjöf, sem og löggjöf nágrannaþjóða okkar um þessi efni. Annars er óþarfi fyrir mig að fjölyrða frekar um þetta, þar sem háttv. 5. landsk. (JJ) hefir talað rækilega fyrir brtt.

Viðvíkjandi aths. hv. 1. landsk. (SE) um, að til sjeu menn óskólagengnir, sem hafi starfað við verslun árum saman og á þann hátt fengið betri sjermentun en skólarnir geta veitt, skal jeg geta þess, að jeg fæ ekki sjeð, að hart sje að gengið, þó að slíkir menn þyrftu að leysa af hendi próf við annanhvorn verslunarskólann, ef þeir vilja byrja sjálfstæðan verslunarrekstur. Jeg þykist vita, að slíkum mönnum muni veitast auðvelt að leysa þetta próf af hendi.

Dæmi, sem eru þessum prófum hliðstæð, eru til á öðrum sviðum, einnig hjer á landi. T. d. geta stýrimenn leyst próf sín af hendi, þó að þeir hafi ekki gengið í skóla, en til þess þurfa þeir að hafa öðlast þá þekkingu, sem sett er sem skilyrði fyrir prófinu.

Hv. meiri hl. þykir nægilegt, að hlutaðeigandi færi sönnur á, að hann hafi nægilega þekkingu til þess að reka verslun. En þá rís sú spurning, hvað sá atvrh., sem með völdin fer í hvert skifti, telur nægilega þekkingu. Ef það atriði er látið óútkljáð, þá verða kröfurnar komnar undir geðþótta atvrh., og er engan veginn víst, að þeir líti altaf sömu augum á þetta mál. En í öllum sjermentunargreinum hlýtur meiningin að vera sú, að skilyrðin til að geta talist sjerfræðingur sjeu altaf hin sömu, enda gæti annað leitt til misrjettis. Þess vegna efa jeg ekki, að rjettara er að taka fram þegar í upphafi, hver skilyrðin skuli vera, en láta þau vera komin undir geðþótta þess embættismanns, sem um málið fjallar á hverjum tíma.

Hv. meiri hl. vill ekki kannast við, að árgjöldin, hvort sem þau verða ákveðin há eða lág, verði mikill hemill á fjölgun kaupmanna eða verslunarfyrirtækja. En mjer skilst þó á þeirri andúð, sem hærra ákvæðið mætir, að hún bendi til þess, að menn telji það verða mundu vexti verslunarstjettarinnar til trafala.

Það getur meira en vel verið, að gjald þetta komi ekki ætíð rjettlátlega niður, en svo er ávalt um slík gjöld. Það er erfitt að ákveða þau svo, að enginn geti talið sjer misrjetti sýnt. Vil jeg því vona, að hv. deild geti gengið inn á þetta árgjald, ef ekki hærra gjaldið, þá a. m. k. hið lægra, ekki síst með tilliti til þess, sem jeg hefi sagt um eftirlitið með starfandi verslunum í landinu. Vegna þess sjerstaklega álít jeg spursmálslaust rjett að lögleiða þetta árgjald.