14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Frv. þetta er hingað komið frá hv. Ed. Þar var það vandlega skoðað, og varð ekki ágreiningur um það nema í örfáum atriðum; var það allshn. Ed., sem hafði mál þetta til athugunar í þeirri deild. Jeg vona þess vegna, að þrátt fyrir það, hversu nú er orðið áliðið þings, er það hefir staðið í fulla tvo mánuði, að hv. allshn. Nd. flýti svo afgreiðslu þessa máls, að líkur verði til þess, að það nái fram að ganga á þessu þingi. í Ed. varð það aðallega að ágreiningi í sambandi við þetta mál, hvort leggja skyldi árgjald á kaupmenn og verslunarfjelög. Þetta hafði ekki staðið í frv. upphaflega, og er ekki mikilsvert atriði í sjálfu sjer, og þó jeg sje á móti þessum ákvæðum, geri jeg þau ekki að kappsmáli og vil heldur, að frv. verði samþykt svo breytt heldur en að þetta verði málinu til hnekkis á þessu þingi. Þá var og um það deilt, hvort heldur stórsalar ættu að skyldast til að versla eingöngu í stórkaupum eða þeim skyldi leyft að hafa einnig smásölu á hendi. Varð það efst í hv. Ed., að þeim skyldi leyfast að versla einnig í smásölu, ef þeir leystu bæði leyfisbrjef til heildsölu og smásölu. Þetta var heldur ekki leyft í frv. stjórnarinnar. Jeg sje að vísu ekkert á móti því, að þetta verði leyft, ef heildsalar þá hafa opna smásölubúð, þó að jeg sje hræddur um, að farið kunni að verða kringum þessi ákvæði. Þá vildi minni hl. allshn. Ed. setja það að skilyrði fyrir því, að menn mættu fást við verslun, að þeir hefðu tekið próf í verslunarskóla hjer á landi eða erlendis. Jeg var á móti þessu ásamt meiri hluta nefndarinnar, því jeg áleit þetta of langt farið og væri þetta fullmikil vernd fyrir þessa skóla hjer, sem eru einkafyrirtæki og gera má ráð fyrir, að geti því lagst niður. Jeg hygg jeg þurfi svo ekki að fara fleiri orðum um þetta frv., en mælist til, að því, að aflokinni þessari umr:, verði vísað til allshn., sem jeg vænti, að geri það, sem í hennar valdi stendur, til að flýta framgangi þess sem mest.