07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það var ekki meiningin með frv. að hreyfa við 27. gr. samvinnulaganna. Þvert á móti á hún að standa óbreytt og aðrar verslanir að fá sama rjett.

Um sveitaverslunarleyfið verð jeg að segja það, að jeg hefi vanist því, að sýslumaður ákvæði, á hvaða jörð skuli versla. Hv. 2. þm. Rang. (KIJ), sem er kunnugur þessum málum, sagði líka, að leyfið væri bundið við ákveðna jörð. Þó að svo sje til orða tekið, að leyfið sje bundið við ákveðna sveit, er tilgangurinn sá, að sýslumaður ákveði, hvar í sveitinni versla skal. Leyfið er veitt með tilliti til hagsmuna þeirra, sem skifta við verslunina.

Nú hefir nefndin gefið yfirlýsingu um, að hún hafi ekki athugað málið nógu vel. Mjer sýnist því ekki líta vel út um framgang málsins. Jeg er ekki svo vitur, að jeg viti, hvort það er málvilla að segja „fleirum“ í stað „fleiri“, en jeg hefi oft heyrt það og sjeð það í riti, svo að jeg vona, að háttv. nefnd geti látið frv. ganga fram fyrir þessu.

Út af þeirri sölu í gegnum kunningja sína, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) var að tala um, skal jeg taka það fram, að frv. á alls ekki við það, heldur sölubúðir.

Það má segja, að Verslunarráðið hafi undirbúið frv. að nokkru leyti. En það er óánægt með frv. eins og það er nú, af því að ekki er tekið tillit til einnar ákveðinnar stjettar manna, heldur breytt, þar sem álitið er, að hagsmunir almennings og þessarar einu stjettar gætu rekist á.