09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

8. mál, verslunaratvinna

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg á hjer tvær brtt., og hefir hv. allshn. lýst yfir fylgi sínu við aðra þeirra, með smábreytingu, sem jeg að vísu legg ekki mikla áherslu á, hvort samþykt verði eða ekki. Þó mun jeg fremur greiða atkvæði á móti þeirri breytingu. Enda vænti jeg þess, að hv. nefnd greiði minni till. atkv., þó hennar falli. — Hin brtt. mín er þess efnis, að þeir kaupmenn, sem hafa fleiri sölubúðir en eina, skuli greiða leyfisgjald fyrir hverja búð. Jeg sje ekki ástæðu til að halda hinu gamla banni gegn því að hafa fleiri en eina opna sölubúð í hverjum verslunarstað, enda hafa ekki komið fram nein rök við þessar umr., sem styðja það. Þvert á móti; það hefir komið í ljós við umr., að bannið er aðeins í orði. Hver sem vill getur sett upp eins margar sölubúðir og honum sýnist með því að hafa sjerstaka forstöðumenn, sem búðirnar eru kendar við. Það er nú samt alls ekki af því, að menn óhlýðnist þessu, að bannið ber að afnema, heldur hafa engin skýr rök komið fram fyrir því, að því skuli haldið. En hinsvegar er sjálfsagt, ef kaupmenn hafa fleiri sölubúðir en eina, þá sje nauðsynlegt, að þeir greiði fult leyfisgjald af hverri. Annars kemur fram misrjetti, ef hver smákaupmaður, sem ekki á nema eina búð, greiðir í raun og veru jafnmikið fyrir sitt verslunarleyfi og auðugur kaupmaður, sem hefir opnar kannske 10 búðir í sama kaupstað. Verði hið gamla bann afnumið, þá er þessi breyting nauðsynleg til þess að afstýra misrjetti. Og jeg tel sjálfsagt, að það verði gert. Breytingin, sem af því leiðir, er ekki önnur en sú, að mönnum er þá leyft að gera það opinberlega, sem nú er gert með leppum.