09.05.1925
Neðri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2111 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

8. mál, verslunaratvinna

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal lýsa yfir því, að jeg geng með ánægju inn á brtt. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) á þskj. 484. Jeg tel aðra þeirra til bóta. En um þá seinni er það að segja, að hún er til skýringar og getur engu spilt, enda þótt jeg geti ímyndað mjer, að menn mundu samt hafa verið krafðir gjalds af hverri búð, þó að till. hefði ekki komið fram.

Um brtt. á þskj. 497, frá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), er það að segja, að jeg hefi ekkert á móti a.-lið hennar. Mjer er sama, hvort lögin ganga í gildi í júlí í ár eða 1. janúar 1926. Um b.-liðinn stendur ekki alveg á sama, því að hann mun verða til þess, að margir kaupi verslunarleyfi á tímabilinu til 1. júlí, fyrir miklu lægra gjald en eftir þann tíma verður, og er það síst til bóta.

Jeg legg því til, að b.-liðurinn verði feldur.

Þá er brtt. frá hv. meiri hl. allshn. á þskj. 517. Jeg verð að segja það, að jeg sje ekki, að hún sje til bóta; því að skilyrði fyrir því, að iðnaðarmenn megi selja iðnaðarvörur án verslunarleyfis, á að vera, að þær sjeu framleiddar af honum eða skylduliði hans, sem hjá honum er.

Þá eru brtt. á þskj. 516. Við 1. brtt. hefi jeg ekkert að athuga. Það er orðabreyting, og eins og hún er nú orðuð, þá tel jeg hana til bóta. 2. brtt. er jeg aftur mótfallinn, vegna þess, að um það atriði varð mikil deila í hv. Ed., og varð að lokum samkomulag um þau ákvæði í þessu efni, sem eru í frv. Og jeg er sannfærður um það, að ef nú á að breyta því hjer, þá er það sama og að láta frv. daga uppi. Sama er að segja um 3. brtt. Jeg veit ekki, hvers vegna nefndin vill láta fella niður upphafning opna brjefsins frá 7. apríl 1841. Jeg sje ekki betur en að í 10. gr. frv. sje leyft að versla á fleirum en einum stað í sama kaupstað. Vil jeg benda á 3. málsgr. 10. gr. þessu til sönnunar.

Jeg tel það því ekki rjett að fella niður upphafningu hins opna brjefs. En þótt það sje gert, þá skiftir það þó ekki miklu máli, þó að það sje altaf skýrara að taka það fram, með hverjum lögum hvaða ákvæði sjeu þar með numin úr gildi.

Jeg vona, að hjer þurfi ekki að verða langar umr. á ný, og málið fái að ganga óhindrað áfram.