12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

8. mál, verslunaratvinna

Ágúst Flygenring:

Jeg get látið mjer nægja að skírskota til þess, sem jeg sagði við síðustu umræðu þessa máls hjer í deildinni. Það hefir ekki verið hrakið, enda var það ekki hægt. Bæði stórsala og smásala fara fram í nágrenni hvor við aðra og við hliðina hvor á annari. Þetta hljóta allir að vita, sem á annað borð fylgjast með auglýsingum í blöðunum, ef þeir vilja lesa þær.

Það er ekki rjett hjá hv. 1. þm. Árn. (MT), að jeg hafi talað um illvilja gagnvart þessu frv. í sambandi við brtt. nefndarinnar. Jeg sagði, að það væri lævísleg tilraun til þess að koma frv. fyrir kattarnef, því að flm. tillögunnar vita það fullvel, að frv. fer ekki í gegn í Ed., ef þeirra brtt. verður samþykt. Það er undarlegt, að menn skuli fást til þess að vilja halda í opna brjefið frá 1841. Það var sett í þá daga af ótta við það, að stórsalarnir legðu hina smærri kaupmenn undir sig. Er undarlegt, að sá ótti skuli enn vera til, er verslun hefir þróast svo mjög síðan og tekið miklum framförum. Óttinn við það, að stórsalarnir geti lagt smásalana undir sig, er algerlega gripinn úr lausu lofti. Heildsalar eru margir hverjir ekki efnaðir menn og mörg firmu ekki spor efnaðri en sumir smásalar. Auk þess getur smásali líka verslað sem stórsali, og eru dæmi til þess hjer í Reykjavík, og fer vel á því; sje jeg ekkert á móti því að láta lögfesta það, sem nú er „praktiserað“. Við eigum að afnema lög, sem virt eru vettugi og ekki fylgir neitt gott eða gagnlegt. Þau eru í skilningi fólksins andvíg því, sem heilbrigt er.

Það kemur ekki til, að nokkur hluti nefndarinnar hafi viljað hlynna að stórsölunum á kostnað smásalanna, eins og gefið hefir verið í skyn hjer. Sá nefndarhluti, sem hjer er átt við, hefir áreiðanlega viljað gera öllum rjett til. Jeg vil vekja athygli hv. deildarmanna á því, að með því að samþykkja brtt. á þskj. 516 fella þeir þetta frv. Og jeg get ekki sjeð, að með því sje unnið gott verk. Með því er spilt fyrir nauðsynlegri reglu fyrir því, hvernig menn öðlast rjettindi sem kaupmenn.