12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2129 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

8. mál, verslunaratvinna

Magnús Torfason:

Hæstv. atvrh. (MG) gerir altaf veður úr viðgerðum á frv. sín um; það er eins og ekki megi við þeim hreyfa. En við höfum nú puntað æðimikið upp á þetta frv. Og hæstv. atvrh. ætti að eiga þá tegund stolts, að stjfrv. hans færu þannig úr þinginu, að lögin yrðu honum til sóma. Það er spurt um smíðina, en ekki hvernig hún varð til. Og þeir, sem að því vinna að gera gripinn góðan, ættu miklu fremur skilið þakkir hans en vanþakkir fyrir verk sín.

Mjer heyrist, að það sje verið að hóta okkur með hv. Ed. En jeg fullyrði, að Nd. er aðalkjarni og kraftur þingsins. Og jeg neita, að nefndin í háttv. Ed. hafi nokkra tilhneigingu til þess að fella þetta frv., þó að við bættum það dálítið. Jeg veit t. d. um einn nefndarmann, að hann er með öllum brtt. okkar. Og jeg skil ekki, hvaða ástæðu hv. 1. þm. Rang. (EP) ætti að hafa til þess að vera að hlaða undir stórsala í Reykjavík.

Það lítur út fyrir, að hjer hafi átt að gera miðlun milli stórsala og smásala, en það hefir orðið óskapnaður úr því. Jeg þekki einstaka smásala hjer í bænum, og einn kom til mín og bar sig upp undan ýmsum ákvæðum frv., og miklu fleiri hafa komið til hv. frsm. Fulltrúarnir, sem að lögunum stóðu, hafa því ekki verið í samræmi við óskir þessara manna, enda sennilega miðað meir við þá, sem voru af stærri endanum. Og það sjest af frv. Verslunarráðsins, að það er síður en svo, að málið sje vel undirbúið.

Þá vil jeg benda á það, að jeg er ekki einn um það, að sýslunefndir eigi að hafa umsögn um, hvort leyfa skuli manni sveitaverslun. Á þingi 1879 er það að lögum gert, að sá maður skuli vera bæði bóndi og heimilisfastur. Aðeins hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vildi, að hann væri líka bóndi. Ef álitið er, að ákvæðið sje rjett og gott, þá á að festa það í lög á þingi. en ekki eiga það undir dánumensku annara, hverjir fái að reka þessa atvinnu.

Þá kem jeg að hv. 1. þm. G.-K. (ÁF). Það var eins og hann væri að tala um Reykjavík eina, Hafnarfjörður væri þurkaður af jörðinni. Mjer fanst hann vera allur annar maður en fyrir nokkrum dögum, enda var auðheyrt á orðbragðinu, að hann hefir verið í vondum fjelagsskap. Hann talaði um „lævíslegar tilraunir“. Þetta er afskaplegt, og jeg þykist vita, að forseti hafi ekki heyrt það, úr því hann vítti það ekki. Að tala um það sem lævísar tilraunir, sem eru sýnilegar umbætur, það er ekki vottur um góðan málstað.

Það var einu sinni borin upp sú gáta, að ef lykillinn kæmist ekki í skráargatið, hvort það væri af því, að lykillinn væri of stór eða skráargatið of lítið. Þetta ætti hv. þm. (ÁF) vel að athuga. Þá sagði hv. þm. (ÁF), að jeg hefði verið að tala um ilt siðferði í verslun. En jeg hefi aðeins haldið því fram, að það væri ilt til afspurnar, ef Alþingi færi að afnema lög vegna þess, að brotamenn væðu uppi. Slík stefna er vond, og munu fleiri við það kannast en jeg.

Þá kem jeg loks að blessuðum bökurunum. Er þá fyrst frá því að segja, að brtt. nefndarinnar við 1. gr. gekk út á það, að leyfa frjálsa sölu á íslenskum iðnaðarvörum. Jafnframt kom till. um að nema þessi orð burtu úr 3. gr. 5. tölulið: „nje þeirra, sem ætla að versla einungis með innlenda mjólk, rjóma, skyr eða egg. brauð eða kökur“. En skilningurinn á þessu var nú ekki meiri en svo, að fyrst var iðnaðurinn drepinn og svo þessi till. En nú er komin ný till. til að lappa upp á þetta. En þó hún verði samþykt, þá fullyrði jeg, að till. er of þröng. Álít jeg, að fleiri tegundir ættu að standa í 5. lið 3. gr. Þess vegna komumst við að raun um, að ekki væri rjett að hafa þarna upptalningu, heldur liðinn nógu víðan. Og ýmislegt fleira bendir mjer á, að málið sje ekki nógsamlega athugað. En nú fer frv. til hv. Ed., og má þá kannske koma breytingum að þar til lagfæringar. En það verður aldrei nógu vel brýnt fyrir mönnum, að máli eins og þessu, sem snertir svo mjög athafna- og atvinnufrelsi manna, má ekki flaustra af rannsóknarlítið og illa undirbúnu, eins og hjer á sjer stað nú, þar sem málið er afgreitt í þinglokin með hverri skriflegri brtt. á fætur annari. Skil jeg ekki þetta mikla kapp. Mjer vitanlega hafa ekki komið neinar kvartanir um þá löggjöf, sem nú gildir um þessi efni, og væri því enginn skaði skeður, þótt lög sem þessi hefðu beðið nokkurn tíma. Mætti það þá fá betri undirbúning og athugun, en það skal vel vanda, sem lengi á að standa.