12.05.1925
Neðri deild: 78. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

8. mál, verslunaratvinna

Ágúst Flygenring:

Jeg vil aðeins þakka hv. 1. þm. Árn. (MT) fyrir hans fyndnu og skemtilegu ræðu. Veitir ekki af því, þó einum glampa bregði fyrir í öllum þessum nauðaleiðinlegu ræðum hans. En leiðinlegt var að vita til þess og hlusta á það, að skilningsleysi hans og dómgreindarleysi í þessu máli var engu minna nú en áður. Það var alt í myrkri fyrir honum, nema þessi gamanyrði, sem hann kom með. En þar sem hann mintist á fjelagsskap minn, þá vil jeg segja honum það, að honum væri fyrir bestu að skifta sjer sem minst af þeim fjelagsskap, sem jeg er í daglega. Jeg gæti ímyndað mjer, að ef út í það færi að gera samanburð við hans og telja upp sumt það fólk, sem hann umgengst dagsdaglega, þá mundi honum ekki koma sá samanburður vel.