14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

8. mál, verslunaratvinna

Jónas Jónsson:

Eins og vikið hefir verið að, þá á jeg hjer litla brtt. á þskj. 552. Og þó mjer sje ljóst, að hún sje ekki í sjálfu sjer neitt stórmál, þá fanst mjer þó rjett, að tekið væri fram í lögunum, að samvinnufjelög mættu setja upp búðir þar, sem þau teldu nauðsynlegt fyrir sig að hafa þær. En því þykir mjer betur, að till. verði samþykt, að komið hafa fyrir þau tilfelli, að fjelag sje í trássi við meiri hl. sýslunefndar. Má t. d. geta þess, að eitt elsta kaupfjelag á landinu, Kaupfjelag Þingeyinga, átti harla örðugt uppdráttar vegna þess, að sýslumaðurinn þáverandi, Benedikt Sveinsson, sem var voldugur hjeraðshöfðingi, var í andstöðu við fjelagið. Þegar líkt stendur á, getur oft verið óþægilegt fyrir fjelag að þurfa að hlíta meiri hluta sýslunefndar.

Hvað frv. annars viðvíkur, þá má segja, að hv. Nd. hafi reitt úr því flest það, sem til gagns mátti leiða. Raunar má vera, að eitt atriðið af þeim, sem eftir eru, horfi til bóta, og á jeg þar við ákvæðið um nýjar erlendar verslanir. En þó legg jeg ekki mikið upp úr því. Það mun hvort sem er verða sú reyndin á, að fjármunirnir finna jafnan eitthvað nýtt form til að komast inn í landið.

Einn aðaltilgangurinn með frv. þessu, að því er hæstv. atvrh. (MG) ljet ummælt, átti að vera sá, að draga úr óeðlilegri aukningu verslunarstjettarinnar, með því að takmarka það, að of margir tækju upp verslun. En nú hefir verið, feld till. okkar hv. 2. þm. S.-M. (IP) um meiri kröfur til bóklegrar og verklegrar þekkingar þessara manna, og þannig numið burt helsta ráðið, sem svarað gat aðaltilgangi frv. Ákvæðið um árgjaldið, sem líka var spor í rjetta átt, hefir sömuleiðis verið felt niður.

Að öllu þessu athuguðu get jeg ekki annað sagt en að frv. hafi verið spilt æðimikið, og þó jeg telji, að eitt ákvæði þess kunni að vera til nokkurra bóta, þá greiði jeg sáróánægður frv. atkv. mitt.