12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Tryggvi Þórhallsson:

Hingað til hafa engir aðrir en ráðherrarnir tekið til máls, um leið og þeir hafa lagt frv. sín fram. Hygg jeg þó, að það muni síst vera af því, að allir sjeu ánægðir með þau, heldur af hinu, að menn vilji fara varlega af stað. Má og vel vera, að líka valdi það nokkru, að í þetta sinn var farið með meiri leynd með stjfrv. en venja hefir verið; að minsta kosti fjekk jeg þau ekki í hendur fyr en nú í þingbyrjun. En jeg veit ekki betur en venja hafi verið að senda þingmönnum þau nokkru áður en þing hefir komið saman, að svo miklu leyti sem unt hefir verið, til þess að þm. væru búnir að athuga þau, áður en þeir kæmu til þings. Þetta ásamt öðru má vel vera að sje orsök þess, að menn sjeu nú varbúnari en ella að taka þegar afstöðu til málanna.

Þrátt fyrir þetta get jeg ekki lengur setið rólegur hjá og látið frv. það, er hjer liggur fyrir, ganga umræðulaust til 2. umr., ekki eingöngu vegna þess sjálfs, heldur og miklu fremur fyrir þá sök, að jeg tel það einn lið í stefnuskrá, er kemur fram í fleiri frv., er hæstv. stjórn hefir lagt fyrir þetta þing. Má þar fyrst benda á frv. það, er hjer var til umræðu í gær, sem fór fram á að ljetta berklavarnakostnaðinum af ríkinu og leggja hann með nefskatti á einstaklinga þjóðarinnar.

Í hv. Ed. liggur fyrir frv., sem gengur í sömu átt. Er í því farið fram á að hækka kirkjugjöldin, þ. e. ljetta á þjóðfjelagsheildinni, en íþyngja einstaklingunum, án tillits til efnahags, með nefsköttum. Stefnan er því glögg, sem sje sú, að auka nefskattana, til þess að hlífa þeim, sem breiðust hafa bökin og eiga hægast með að borga.

Loks er frv. það, sem hjer er til umræðu. Það gengur einna lengst, þar sem það fer fram á að veita miklar ívilnanir um skattgreiðslur þeim, sem mest hafa gjaldþolið, og jafnvel heimilað að gefa þeim skattinn alveg eftir. Jeg skal ekki fara út í einstök atriði frv. þessa nú, því að það mun tæplega viðeigandi við þessa umræðu. En jeg vil leyfa mjer að mótmæla þessari stefnu, ekki aðeins fyrir mína hönd sem þingmanns, heldur og fyrir hönd margra þingmanna annara og meginþorra íslensku þjóðarinnar.

Jeg ætla ekki að fara út í það nú, hvort rjettara sje að afla ríkinu tekna með nefsköttum eða að hin reglan eigi að gilda, að þeir, sem hafa hæstar tekjur, eigi og að borga hæsta skatta. En aðeins vil jeg taka það fram, að stefna sú, sem liggur til grundvallar fyrir frv. þeim, er jeg nú hefi nefnt, er ekkert einsdæmi hjá þessari hæstv. stjórn, heldur er hún sameiginleg öllu íhaldi hvar sem er: að reyna að velta skattabyrðunum af sjer og þeim, sem breið hafa bökin, yfir á einstaklingana. Það er þessi stefna, sem hjer verður barist um, og það vil jeg segja hæstv. stjórn, að baráttulaust skal bún ekki bera þessa stefnn fram til sigurs á Alþingi.