12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. þm. Str. (TrÞ) kvartaði undan því, að stjfrv. hefðu komið seinna í hendur þingmanna nú en venja hefir verið. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú, að nú var þing kvatt fyr saman en venja hefir verið, og í öðru lagi voru veikindi í ráðuneytinu. Aðrar orsakir en þessar tvær voru ekki þessum drætti valdandi.

Þá tók háttv. þm. sjer fyrir hendur að lýsa stefnu stjórnarinnar og Íhaldsflokksins, og risti hann þar ekki dýpra en vænta mátti af honum. Vel má vera, að hann geti lýst stefnu sjálfs sín og síns flokks, en stefnu Íhaldsflokksins getur hann ekki lýst, enda mistókst honum það algerlega. Hv. þm. byrjaði á því að fetta fingur út í frv. það til laga um sjúkratryggingar, sem hæstv. atvrh. leggur fyrir þingið. Það frv. er að vísu byrjunarlöggjöf í því efni hjer á landi. En háttv. þm. getur fengið vitneskju um það hjá bandamanni sínum, hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að einmitt sú stefna í þeim efnum, sem frv. flytur, hefir sigrað í mörgum helstu menningarlöndum Norðurálfu. Og það er satt best að segja, að víðast hafa það verið jafnaðarmannaflokkarnir, sem borið hafa slík mál fram. En stefna Íhaldsflokksins er svo heilbrigð, að hann hlífist ekki við því að taka upp góð mál, þótt aðrir flokkar gangist fyrir þeim í öðrum löndum. — Hjer hafa verið nefnd fleiri frv., sem stjórnin hefir látið leggja fyrir þingið, svo sem frv. til laga um breyting á lögum um sóknargjöld. Það frv. er komið frá nefnd, sem stjórnin skipaði samkvæmt tilmælum síðasta Alþingis, til þess að gera tillögur um sparnað á ríkisfje, og það hefði verið hart, ef stjórnin hefði neitað að leggja frv. hennar fyrir þingið. Auk þess er það skoðun margra manna, að rjett sje, að einstaklingarnir beri þær byrðar, sem leiða af trúmálum og prestahaldi í sóknum landsins.

Hv. þm. Str. (TrÞ) var að lýsa stefnu Íhaldsflokksins með allri þeirri grunnfærni, sem honum er eðlileg. Taldist honum svo til, að hún væri í því falin að ná sem mestum tekjum ríkissjóðs af fátækum almenningi, en leggja sem minst á þá, er breiðust hefðu bökin. Kvaðst hann reiðubúinn að berjast gegn slíku og sagði, að þetta frv. skyldi ekki ganga baráttulaust í gegn. Jeg get trúað því, að stjórnin komi hvorki þessu frv. nje öðrum baráttulaust í gegn. En hitt tel jeg of mikið sagt, að kalla þetta illa bót á ljelegt fat, ef á að gera það að sjerstöku stefnumáli Íhaldsflokksins. Hjer er naumast tilefni til þess að fara að skýra frá stefnu Íhaldsflokksins í skattamálum yfirleitt. En jeg get sagt svo mikið, að fyrir honum er það berandi hugsun í öllum skattamálum að haga löggjöfinni í þeim efnum þannig, að atvinnuvegirnir á þessu landi fái sem best borið sig og blómgast. Því viðhald atvinnurekstrar, jafnt fjelaga og einstakra manna, er skilyrði fyrir allri blómgun landsins. Og það er lítill ábati að því, þó alþýða borgi lítinn skatt og alt sje lagt á „breiðu bökin“ svonefndu, ef atvinnurekstrinum er þar með íþyngt svo, að hann verður að draga saman seglin og fjöldinn fær hvorki atvinnu nje kaup. Jeg get ekki sjeð, að Íhaldsflokkurinn eigi skilið skammir fyrir það að vísa hjer veginn og vilja hlynna að því, að hverskonar heilbrigður atvinnurekstur geti blómgast. Háttv. þm. Str. (TrÞ) má berjast á móti því eins og hann langar til. En hann fær víst fáa til þess að fylgja sjer.

Háttv. samþm. minn, 2. þm. Reykv. (JBald), tók í sama strenginn, og hefi jeg nú svarað flestu, sem hann talaði um. En þó vil jeg enn leiðrjetta eitt, sem hann fór rangt með, að fælist í þessu frv. Hann sagði, að frv. færi fram á það að undanþiggja togarafjelögin skatti af miljónagróða sínum árið sem leið. Kvað hann þetta stefnu Íhaldsflokksins í skattamálum. Hvorttveggja þetta er rangt, bæði hvað snertir frv. og íhaldsstefnuna. Frv. fer aðeins fram á það, að tekjuskattur þessara fjelaga sje miðaður við þriggja ára meðaltal af skattskyldum tekjum. Það ár getur komið, að arður sje enginn, og leggur það ár ekkert til meðaltalsins, en dregur heldur ekkert frá, þótt tap sje. Hafi nú eitt fjelag ekkert grætt og jafnvel tapað tvö undanfarin ár, en góður gróði orðið á árinu 1924, þá greiðir það ekki nema 1/3 tekjuskatts af þeim gróða í ár. En á næsta ári kemur sá gróði aftur til greina við meðaltalið, og loks enn þriðja árið. Þetta er hagur bæði fyrir fjelagið og ríkissjóð jafnvel líka. Skatturinn verður síður sligandi byrði fyrir fjelögin og fyrir ríkissjóð er hagkvæmara að fá jafnar tekjur ár frá ári en að hljóta stóra hvalreka einstök ár, sem freista til eyðslu, en missa svo teknanna þegar miður árar. Hjer er skattinum deilt á þrjú ár, í stað þess að hann sje allur goldinn í einu. Það hefir engin áhrif á raunverulegan hag ríkissjóðs, önnur en þau að jafna skatttekjurnar, er misjafnt gengur, en hinsvegar alls engin uppgjöf á skattinum. Alt, sem hv. þm. (JBald) sagði um það, var eins langt frá sannleikanum eins og lygin sjálf. Þá var hv. þm. (JBald) að tala um það, að mjer hefði láðst að gera grein fyrir því, hve miklu ríkissjóður tapaði við þetta frv. Það er ekki hægt að segja það með vissu, hverju muni muna á reikningi 1925. En minki tekjurnar þá, á þessu ári, þá verða þær því meiri 1926 og 1927, og munar það aldrei miklu í heildinni.