06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. síðari kafla (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg mun eftir mætti reyna að vera stuttorður, enda get jeg sparað mjer allar almennar aths. um frv., þar sem hv. frsm. fyrri hl. (ÞórJ) hefir tekið fram það, sem segja þurfti í því efni af nefndarinnar hálfu.

Jeg vil þá þegar og í eitt skifti fyrir öll víkja að þeim brtt. fjvn., er ganga í þá átt að fylgja fornum og þjóðlegum sið og kenna hvern mann til föður síns, en fella hins vegar niður ættarnöfn. Nefndin lítur öll svo á, að sjálfsagt sje að efla þá þjóðræknisöldu, sem þegar er risin til útrýmingar ættarnöfnum. Jeg vona, að hv. deild taki þessum brtt. vel, enda hefir hjer áður verið samþykt ættarnafnafrv., sem gekk lengra en þessar brtt. gera. Annars mun jeg ekki fjölyrða meira um þetta, nema andmælum verði hreyft. Jeg vona þó, að menn dragi ekki umræðurnar á langinn út af þessu, en láti atkv. skera úr, því að síðar á þinginu mun gefast tækifæri til að ræða það mál.

Sný jeg mjer þá að hinum öðrum brtt. nefndarinnar.

Verður þá fyrst fyrir brtt. XIX, um hækkun á styrk til húsabóta á prestssetrum. Hv. þm. N.-M. báru þetta fram við 2. umr., en umsögn biskups var þá svo nýkomin, að nefndin hafði ekki getað kynt sjer málið til hlítar. En af þessari umsögn virðist ljóst, að presturinn á Skeggjastöðum eigi sanngirniskröfu til þessa styrks, enda þótt nefndin treysti sjer ekki til að ákveða, hve há fjárveitingin yrði. En næsta sumar mun biskup visitera norður þar, og ættu þá að fást fullnægjandi upplýsingar.

Þá eru brtt. XXI, 1 og 3, um launabætur til kennara við stýrimanna- og vjelstjóraskólann. Þetta mál hefir áður verið rætt hjer, m. a. við. 2. umr. Virðist sjálfsagt að taka hækkun þessa upp í fjárlögin. Er það og alment viðurkent, að sanngjarnt sje að veita uppbót þessa.

Þá kem jeg að brtt. XXIX. Hv. þm. N.-Ísf. hafði sótt um styrk til að gera sundlaug á Reykjanesi vestra, og ennfremur var sótt um slíkan styrk úr Svarfaðardal. Báðar þessar beiðnir voru allháar, og sá nefndin sjer ekki fært að verða við þeim. Tók hún því þann kost að ákveða upphæðina í einu lagi og að veita fjeð með vissum skilyrðum og undir eftirliti stjórnarinnar.

Næst er brtt. XXXI,3, styrkur til Eggerts Eiríkssonar Briems frá Viðey, til að gefa út ritgerð um Alþingi hið forna. Má með sanni segja, að engin brtt. fjvn. hafi verið svo harðbökuð sem þessi. Nefndin átti tal við mann þennan í einn hálftíma á síðasta fundi sínum. Öll nefndin var sammála um að veita styrk þennan. Skýrsla lá fyrir frá stjórn sjóðs Jóns Sigurðssonar., og voru þessum manni veitt verðlaun úr sjóðnum í vetur fyrir þessa ritgerð. Get jeg vísað til hinna lofsamlegu ummæla sjóðsstjórnarinnar. Nefndin sannfærðist um, að hjer væri um frumlegar, merkilegar og ef til vill rjettar kenningar að ræða, og áleit nauðsyn á, að ritgerð þessi kæmi út áður en lokið yrði við Alþingissöguna, svo að hafa mætti þær skoðanir. er þar koma fram, til hliðsjónar.

Þá er XXXVIII. brtt. 1. liður, til Skeiðaáveitunnar. Það hefir verið rjettilega tekið fram. að orðin „alt að“ í 1. málsgr. megi ekki falla niður. Þetta mál var rætt allmjög við 2. umr., og munu því þessar brtt. ekki koma mönnum á óvart. Fyrri liður till. fer fram á, að skipaður verði eftirlitsmaður með fjárreiðum fyrirtækisins. Er það í samræmi við fyrri yfirlýsingu fjvn,

Seinni liður brtt. er borinn fram eftir bendingu hæstv. atvrh. (MG). Eins og flestum mun kunnugt, var Landsbankanum veitt heimild í fyrra til að gefa eftir vexti og afborganir af veðdeildarláni þar eystra. Þessu hefir ekki verið framfylgt, og því er þessi till. fram borin.

Þá kemur 3. tölul. undir sama rómv. lið, launauppbót til fiskiyfirmatsmanna. Hv. minni hl. fjvn. (BJ) fór fram á allmiklu hærri upphæð í þessu skyni við 2. umr., en þessi brtt. er fram borin í samráði við sjútvn. Tilætlunin er sú. að fiskimatsmenn geti komist hjá að hafa aukastörf á hendi, og jafnframt eru gerðar þær kröfur til þeirra, að þeir reki ekki fiskverslun eða nokkra þá atvinnu, er varpað geti skugga á það traust, sem þeir að sjálfsögðu þurfa að njóta. Vil jeg beina þessum bendingum til hæstv. stjórnar um leið og jeg ber till. þessa fram.

Kem jeg þá að XLII. brtt., um 10 þús. kr. styrk til hafnarbóta í Ólafsvík. Jeg er sjálfur ókunnugur þar vestra, en fullkomin gögn lágu fyrir um nauðsyn fjárveitingarinnar og hæstv. forseti Ed. (HSteins) skýrði málið fyrir nefndinni. Eins og menn vita, er hjer stórt fiskiver, en án þeirra umbóta, sem þessi styrkur á að veitast til, er ekki hægt að reka mótorbátaútgerð þar. Áætlun um framkvæmd verksins lá fyrir nefndinni, og virtist hún vel úr garði gerð. Annars er þessi fjárveiting veitt með sömu skilyröum og slíkir styrkir annarsstaðar, gegn 2/3 annarsstaðar frá.

Næst er brtt. XLVIII,a, styrkur til Lúðvíks Jónssonar, og mun jeg geyma mjer að tala um þá till. uns hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) hefir talað fyrir sinni till., sem fer fram á hærri styrk. Þessi maður, sem hjer um ræðir, var ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Austurlands. Áhugi mun vera vaknaður eystra fyrir notkun þessara jarðyrkjutækja hans, og er talinn að þeim mikill vinnusparnaður. Hefir þó þótt á skorta, að þau væru nógu sterk til þessa, og úr því á styrkur þessi að bæta. Annars mun jeg geyma það, sem fleira mætti segja um þessa brtt.

Kemur þá að XLVIII,b. Nefndin leggur þar til, að fyrverandi eigendum Breiðafjarðarbátsins Svans verði greiddar 6000 kr. upp í rekstrarhalla, gegn jafnhárri upphæð úr sýslusjóðum Dala- og Snæfellsnessýslna. Hv. þm. Dala (BJ) fór fram á 13000 kr. í þessu skyni við 2. umr., en þá till. gat nefndin ekki sætt sig við. Jeg býst við, að hv. þm. sje kunnugt, að áður hefir verið veitt slík fjárveiting með sömu skilyrðum. Jeg mun ekki fara út í þá sálma hjer, hvers vegna bátur þessi bar sig svo illa, en í raun og veru var á honum opinber rekstur og hjeruðin gátu ekki án hans verið, og úr því að komið er sem er, virðist vera ranglátt að láta hallann lenda á forgöngumönnunum. Nefndin hefir þó ekki treyst sjer til að fara hærra en þetta, og það fylgir með frá henni, að hún ætlast til, að þetta sje hið seinasta, er greitt verður í þessu skyni. Að öðru leyti getur hv. þm. Dala. (BJ) upplýst mál þetta frekar.

Undir rómv. LII er aðeins einn liður, sem jeg þarf að víkja að. Hinir eru allir nafnbreytingar. Þessi eini liður er 7. liðurinn, um styrk til Sigríðar Finnbogadóttur, að hann verði hækkaður upp í 800 kr., gegn því að ríkið eignist afskriftasafn manns hennar, dr. Jóns sál. Þorkelssonar. Beiðni frá henni um að ríkið keypti þetta afskriftasafn hafði legið fyrir þinginu. Þeir dr. Páll E. Ólason og Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörður hafa rannsakað safn þetta, og er það án efa mjög merkilegt. En hinsvegar þótti vafasamt, hvers eign hver einstök afskrift safnsins væri, þar sem sumar afskriftirnar höfðu verið unnar með sjerstökum styrk af ríkisfje. Varð það því að samkomulagi, að styrkur til ekkjunnar yrði hækkaður, gegn því að ríkið eignaðist safnið, og býst jeg við, að allir uni vel við þau málalok.

Þá er næst brtt. um heimild handa stjórninni til þess að greiða Grímsneshreppi 2400 kr. gegn jafnhárri upphæð frá sýslunni. Mál þetta er ekki nýtt. Það er sprottið af síldarkaupum þessa hrepps vorið 1920, þegar harðindin miklu voru á Suðurlandi. Þá braust Pjetur heitinn Jónsson frá Gautlöndum, þá atvinnumálaráðherra, með miklum dugnaði í því að útvega síld til skepnufóðurs, og kom það að mjög miklu gagni. Þá var mikil síld útveguð handa Árnessýslu, og stóð sýslumaðurinn fyrir úthlutuninni. Pantaði þá Grímsneshreppur, sem skorti þá mjög fóðurbirgðir, allmikið af síld og borgaði þegar alla pöntunina. En þegar til átti að taka, fjekk Grímsneshreppur aldrei alla þá síld, sem honum bar. Ódrýgðist hún mikið þar sem hún lá á Eyrarbakka, hverjar orsakir sem til þess kunna að hafa legið, og er talið, að það, sem ekki kom fram af henni, og sem hreppurinn þannig hefir ofborgað, muni nema um 5000 kr. Eftir því, sem jeg veit sannast, mun nú mál þetta standa svo, að lítill vafi sje á því, að hreppurinn gæti fengið sjer þessa upphæð endurgreidda af ríkinu með dómi, ef til máls færi, þar sem lögfullar sannanir eru fyrir því, að síldin hefir ekki öll komið fram. Nefndin hefir ráðgast við hæstv. atvrh. um þetta, og er það í samráði við hann, að þessi tillaga er fram borin. Teljum við sanngjarnt. að sýslan, sem auðvitað ber að sínum hluta ábyrgð á þessu, og ríkissjóður greiði hvort helming upphæðarinnar.

Þá er mjer sjerstakt gleðiefni að mæla fyrir næstti till. fyrir hönd mína og fjvn., um kæliskip. Efast jeg ekki um, að hjer sje um eitthvert mesta hagsmunamál bænda að ræða, og er mjer gleði að lýsa yfir því, að nefndin var óklofin um málið. Þessi tillaga fer í aðalatriðum í sömu átt og till. minni hl. kæliskipsnefndarinnar. Vænti jeg þess, að eins og samkomulag varð um þetta í fjárveitinganefnd, þá verði samkomulag um það í hv. deild. Skal jeg víkja að undirstaflið 2, viðvíkjandi íshúsunum. Nefndin hefir athugað og komist að raun um, að nægilegt fje muni vera í viðlagasjóði til að veita svo há lán, sem hjer eru nefnd, til byggingar íshúsa á kjötútflutningshöfnum, þótt því sje ekki að treysta, að það verði nema rjett nægilegt. Því leggur fjvn. einróma til, að þessar fjárveitingar verði látnar ganga fyrir öllum öðrum. Till. undir staflið 3 er sprottin af því, að nefndinni fanst nauðsyn bera til þess að gera í haust rækilegar tilraunir með útflutning á frosnu kjöti, því að þótt íshús vanti tilfinnanlega víða á landinu, þá eru hjer í Reykjavík og á Akureyri ágæt íshús, svo að það ætti ekki að standa í vegi fyrir tilraununum. Nefndin vill láta leigja skip og láta S. Í. S. annast tilraunina, en það er sá eini aðili, sem hefir gert tilraunir á þessu sviði, og hefir auk þess vanan og duglegan fulltrúa í Englandi, sem annast söluna.

Jeg vona, að jeg þurfi ekki að svo stöddu að fara frekar út í þetta, enda vænti jeg, að jafneinróma verði fylgi við þessar till. í hv. deild sem varð í nefndinni, og auk þess eru allar till. skýrt og greinilega orðaðar og auðskildar öllum, en vel má vera, að hv. deild megi enn eiga von á einni tillögu til frá fjvn. viðvíkjandi þessu máli.

Þá vík jeg að brtt. LIII,4, um að gefa Hólshreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu upp viðlagasjóðslán, að upphæð 16000 kr., enda kosti hreppurinn aðgerð og viðhald á brimbrjótnum í Bolungarvík. Þetta er gamall gestur hjer í hv. deild. Vjek hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) að þessu við 2. umr., og fyrir nefndinni lá erindi frá hreppnum. Var þar í fyrsta lagi farið fram á 10000 kr. til viðgerðar brimbrjótnum, og til vara, að hreppnum yrði gefið upp þetta lán. Þótti nefndinni rjettara að hníga að því síðara, enda mun hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) gera sig eftir atvikum ánægðan með þau málalok. Læt jeg hjá líða að fjölyrða um þennan lið, því að hv. þm. N.-Ísf. er því kunnugastur og mun skýra það nánar.

Jeg hefi þá ekki fleira að segja nú. Geymi að tala um brtt. hv. þm. þangað til hv. flm. þeirra hafa minst á þær og talað fyrir þeim.