12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) þótti sem mjer hefði ekki tekist vel að lýsa stefnu Íhaldsflokksins í skattamálum. Nú hafði jeg ekki annað fyrir mjer í þessu efni en verk hans, eða stjórnarinnar. En jeg bjóst við því, að marka mætti stefnu flokksins af stjórninni og stefnu stjórnarinnar af frv. hennar. En sje þetta marklaust, þá játa jeg það, að erfitt sje að gera sjer grein fyrir stefnu Íhaldsins í skattamálunum.

Hæstv. fjrh. var að afsaka sig gagnvart einu frv. með því, að það væri komið frá útlendum jafnaðarmannaflokkum. Og enn annað frv. kvað sparnaðarnefndin eiga. Jeg játa það, að ef öll stjfrv. eru af tilviljun tínd hvert úr sinni áttinni, þá sje erfitt að átta sig á stefnu stjórnarinnar af þeim. En það nær þó engri átt, að stjórnin skjóti sjer á þennan hátt undan ábyrgð á þeim frv., sem hún leggur fyrir þingið. Henni dugir ekki að felast á bak við útlenda jafnaðarmenn eða sparnaðarnefndina.

En þó ekkert mark væri takandi á frv. stjórnarinnar, þá mundu verk hennar að einhverju hafandi. Ekki er lengra síðan en í nóv. f. á., að hæstv. fjrh. ljet þá tilkynningu út ganga, að ekkert gæti orðið af stofnun búnaðarlánadeildar við Landsbankann, sem samþykt var að stofna á síðasta Alþingi, vegna fjárskorts. Samhliða voru tíu nýir togarar keyptir til landsins og nóg fje til þess. Svo ólík er framkoma stjórnarinnar við bændur og stórútgerðarmenn. Tilkynning þessi vakti mikinn storm um alt land og var mjög óvinsæl. Og viti menn. Rjettri viku áður þing kæmi saman lætur stjórnin aftur boð út ganga um það, að nú láti hún stofna deildina. Þykir mjer þetta ljós stefna og festuleysið jafnframt augljóst.

Jeg mun ekki fara nánar út í efni þessa frv. að sinni. Það mun ekki fara framhjá neinum, að í því eru einstök atriði, sem ekki mundu standa þar, ef það væri fram borið af útlendum jafnaðarmönnum. Það hefir eingöngu hagsmuni hinna ríku hlutafjelaga fyrir augum.

Hæstv. fjrh. brá mjer oft um grunnfærni í ræðu sinni. Jeg skal játa það, að eins og stefna hæstv. fjrh. lýsir sjer í frv. þessu, þá er hún ekki grunnfær, heldur róttæk íhaldsstefna.