12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. þm. Str. (TrÞ) talaði um frv. til laga um sjúkratryggingar. Það er rangt hjá honum, að það frv. sje frá útlendum jafnaðarmönnum. Hitt er rjett, að stefna sú, er þar kemur fram, hefir náð miklum sigri í ýmsum helstu mentalöndum Norðurálfu og notið stuðnings jafnaðarmannaflokkanna.

Þá vil jeg leiðrjetta missögn hjá háttv. þm. Str., sem hann hefir lengi gert sjer gott af í blaði sínu og kemur nú með inn í þingið, þrátt fyrir það, að búið er fyrir löngu að bera hana til baka. Hann hefir borið það fram í blaði sínu, að stjórnin hafi ákveðið það í nóv. síðastl., að ekki skyldi stofna búnaðarlánadeild við Landsbankann samkv. lögum, frá síðasta þingi. Þessi missögn komst í blöð hjer, og held jeg, að blað hv. þm. hafi ekki orðið fyrst til að flytja hana, en hún var þegar leiðrjett með opinberri tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. En missögnin dó ekki þrátt fyrir það. Hún hefir lifað góðu lífi síðan í blaði hv. þm. Str. (TrÞ). Og nú kemur hann með hana inn í þingið, þrátt fyrir leiðrjettinguna og þrátt fyrir það, að búnaðarlánadeildin var stofnuð strax og föng voru á. Hafi hv. þm. (TrÞ) ekki flutt leiðrjettinguna enn í blaði sínu, sem jeg býst ekki við, að hann hafi gert, þá gefst honum nú gott tækifæri til þess að gera það í tilefni af þessari umr.

Jeg þarf litlu að svara háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) Það er sjálfsagt að athuga þetta frv. vel. En mjer þótti kenna dálítillar mótsagnar í upphafi ræðu hans, er hann hjelt því fram, að tekjuskattur af beinum gróða gæti engu fyrirtæki komið á vonarvöl, en komst þó litlu síðar að þeirri niðurstöðu, að slíkur skattur gæti komið útgerðarfjelögunum í kröggur, og færði fyrir því skynsamleg rök, er gróði fjelaganna næði hámarki og mikið tapár fylgdi á eftir. En þetta getur komið fyrir og kemur einlægt fyrir í hvert skifti sem tapár kemur eftir veltiár. Þá talaði hv. þm. (JakM) um, að gert væri hjer upp á milli fjelaga og einstaklinga, en það er ekki rjett, eins og 2. gr. frv. sýnir ljóslega. Háttv. þm. (JakM) var að tala um veltiár í lok stríðsins. Hann á hjer líklega við árin 1917–1918, en það voru sannarlega engin veltiár, heldur hin aumustu ár, sem gengið hafa yfir landið síðan 1909. Árið 1919 er eina veltiárið, sem komið hefir síðan, en þá var stríðinu lokið.

Háttv. þm. (JakM) var ennfremur að mótmæla því, að háir skattar drægju úr framkvæmd manna. Útgerðarfjelögin hafa ekki greitt háa skatta að undanförnu. Hagur þeirra hefir ekki staðið svo, að þau hafi haft af miklu að gjalda. Hjer vantar því reynsluna. Hún fer fyrst að sýna sig á miðju þessu ári, þegar farið verður að bera út gjaldseðlana frá síðustu niðurjöfnun. Þá fá menn að sjá framan í þessa reynslu.