12.02.1925
Neðri deild: 5. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvinsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) ljest vera að leiðrjetta það, sem jeg sagði áðan, en svo var þó ekki, því hann fer eins langt og hann þorir í því að velta skattinum af þeim, sem best eru færir að bera hann. Og þótt ekki sje ætlast til, að fjelögin sjeu undanþegin öllum skatti, þá má nú fyr rota en dauðrota. En svo er þar að auki heimildin, sem stjórnin á að fá til þess að gefa eftir skattinn. Og má geta nærri, hverjir verði fyrir slíkum ívilnunum. Það er svo sem auðvitað, að ef fjelag tapar, hefir það engan gróða og borgar því ekki neitt. Eftir það uppgripaár, sem nú er, hljóta útgerðarmenn að standa vel að vígi til að greiða skattinn. En hæstv. fjrh. gleymir því, að skatturinn er stighækkandi, og er í því, með meðaltalsreglunni, einnig fólgin lækkun. Þannig á togarafjelag, sem grætt hefir 600 þús. kr. 1924, eftir núgildandi lögum að greiða skatt af þessari fjárhæð. En eftir frv. kemur ekki til skatts fyrir síðastl. ár nema 200 þús. kr. Og þar sem skatturinn er stighækkandi, þá kemur þannig fram stórkostleg ívilnun handa þessum skattgreiðendum. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir enga tilraun gert til þess að gera þinginu grein fyrir því, hversu mikið það er, sem ríkissjóður tapar á þessari breytingu á lögunum samkv. frv. Sýnir það eitt af tvennu, annaðhvort hefir hann ekki gert sjer grein fyrir þessu, ellegar þá að hann setur hærra hagsmuni þessara fjelaga heldur en hag ríkissjóðs.