18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg verð að víkja fáum orðum að hv. frsm. minni hl. (JAJ) í þessu máli og hæstv. fjrh. (JÞ). Við fyrri hluta umr. báru þeir nokkrar brigður á það, að ástæður og útreikningar meiri hl. væru á rökum bygðir. Vitanlega eru þeir báðir mjög fylgjandi þeirri breytingu á 7. gr. tekjuskattslaganna, sem um er að ræða, eða ívilnun í skattgreiðslu fyrir hlutafjelög, og það er ekki að furða. Jeg hygg, að báðir sjeu nokkuð nærstæðir þeim hlutafjelögum, sem einna helst koma hjer til greina og eiga að njóta ívilnana af frv.

Hv. frsm. minni hl. (JAJ) hjelt alllangan fyrirlestur um þá miklu nytsemi og gagn, sem þjóðinni væri að útgerðarfjelögum þeim, sem togaraútveg stunda. Jeg hafði ekki yfirleitt gefið neitt tilefni til, að fjölyrt væri um það. Jeg hefi sem sje ekki látið í ljós neinn efa um það, að þau væru mikilsverður þáttur í þjóðarstarfseminni.

Annars er þetta út af fyrir sig mikið álitamál, hvað þýðingarmikil eða holl þessi hlutafjelagastarfsemi er eða kann að verða, og það tilheyrir dómi sögunnar á ókomnum tíma að ákveða það. Að minsta kosti getur það ekki talist neinn algildur sannleikur hjá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að starfsemi þeirra sje það þýðingarmesta í menningarviðleitninni hjá oss, eða heillavænlegasta framfaraspor okkar þjóðfjelags. Því hefir fylgt flótti mikils fjölda landsmanna úr sveitunum í bæi og verstöðvar, og það er ekki fært enn sem komið er að dæma um það, hver menningarleg áhrif það kann að hafa í næstu framtíð. Við verðum þess vegna að láta ályktanir um þetta bíða eftir dómi sögunnar á síðari tímum.

Annars skal jeg ekki fjölyrða frekar um þetta. Jeg gaf í fyrri ræðu minni ekkert tilefni til umræðu um það.

Eðlilega lagði hv. frsm. minni hl. (JAJ) mikla áherslu á þær auknu tekjur í ríkissjóðinn, sem þessi starfsemi veitir og hefir veitt. Jeg hafði heldur ekki gefið tilefni til að draga þetta mjög sterklega fram. Jeg hefi sem sje engan efa látið í ljós um það, að þeirra nytsemi fyrir ríkissjóðinn væri mikil.

Hv. frsm. (JAJ) tók það meðal annars fram, að auk þess sem þessi fjelög greiddu í tekjuskatt — en það gera þau auðvitað því aðeins, að gróði sje á rekstrinum — þá greiddu þau mikið í ríkissjóðinn í óbeinum sköttum. Hann tók sem dæmi, að sum greiddu árlega 25–27 þús. kr. í ríkissjóð á þennan veg. Mjer þykir ekki ósennilegt, að svo sje; en það er ekki sjerstaklega eftirtektarvert, þótt svo væri, þegar þess er gætt, að í sumum togarafjelögum er talinn um 650 þús. kr. höfuðstóll fylgja einu skipi. Þá er þessi upphæð, segjum 26 þús., ekki nema 4 hundraðshlutar af höfuðstólnum, með öðrum orðum: Ríkissjóður ætti þá að fá í þessum óbeinu tekjum sem svaraði 4% af þeim höfuðstól, sem í slíku skipi er. Það eru engin einsdæmi, að ríkissjóður hafi álíka miklar tekjur, og jafnvel meiri, af öðrum fyrirtækjum. Það er enginn vandi að sýna fram á og sanna, að lítill vjelbátur, sem kostar ef til vill 8 þús. kr., gefi ríkissjóði í samkynja tekjum 400–600 kr. í árstekjur; en það er yfir 6% af höfuðstólnum.

Þetta er þess vegna alls ekki neitt einstakt eða óbærilegt, þótt svo væri, — sem jeg veit ekkert um og hefi ekki athugað — að einstöku stór skip gefi svona mikinn óbeinan arð. Og auðvitað kemur þetta lítið við því, sem hjer er um að ræða, sem sje meðaltalsreglunni um tekjuskatt fyrir hlutafjelög.

Þá tók hv. frsm. minni hl. (JAJ) það fram eins og mikilsverða ástæðu fyrir því, að meðaltalsregluna ætti að taka upp, eða til þess að rjettlæta hana, að þessi útgerðarhlutafjelög hefðu svo mikinn tekjuskatt að bera, að jafnvel gæti komið fyrir, ,að þau greiddu á 4 ára tímabili hærri tekjuskatt en svarar skattskyldum tekjum þeirra á sama tíma.

Jeg held það þurfi nú ekki langa umhugsun til að sjá, hvað þetta er fráleitt, að koma fram með aðra eins kenningu. Allir vita, að tekjuskattur er ákveðinn hundraðshluti af ákveðnum tekjum. Þess vegna getur það aldrei komið fyrir, að tekjuskattur á einhverju ákveðnu tímabili fari fram úr tekjum þeim, sem skatturinn á að borgast af. Hv. frsm. (JAJ) hefir sjálfsagt orðið hjer mismæli; hann hefir ætlað að taka upp það, sem stendur í nál. minni hl., að það geti komið fyrir, að slík fjelög greiði hærri tekjuskatt t. d. á 6 árum heldur en skattskyldar tekjur hafi orðið á því tímabili. En þetta, sem stendur í nál., er hreinasta meinloka. (JAJ: Að frádregnu tapi). Það er alt annað mál. En í nál. er ekkert um tapið talað, aðeins sett fram þessi ramskakka ályktun. (JAJ: Það var bent á það með dæminu). Það er hægt að láta það svo heita, ef til vill.

Hitt er auðvitað rjett, sem á að draga út úr dæminu hjá hv. minni hl., að það getur komið fyrir, að skattur sá, sem slík fjelög greiða á nokkru árabili, geti orðið hærri en þær skattskyldu tekjur, sem afgangs verða tapi á sama tíma. En slíkt er algengt hjá öðrum atvinnurekendum, og má sjálfsagt finna hliðstæð dæmi í hundraðatali um allar sveitir landsins, og ekki síst á undanförnum dýrtíðartíma.

Það er alkunna, að fjöldi manna, einkanlega smærri útgerðarmanna, hefir á undanförnum kreppuárum synt í botnlausum skuldum og væru í raun og veru löngu gjaldþrota, ef ekki hefði staðið svo á, að lánardrotnar kusu að bíða, með von um að þeir rjettu við, heldur en ganga að verðlitlum eignum skuldunautanna. Út frá þessu getur þetta heldur ekki talist nein fullgild ástæða fyrir því að taka upp meðaltalsregluna fyrir þessa einu gjaldendur frekar en aðra.

Hv. frsm. (JAJ) lagði mikla áherslu á það, að áhætta þessara fjelaga væri svo yfirgengilega mikil, að þess væri ekki dæmi um annan atvinnurekstur. Hann tók það meðal annars fram, að þessi fjelög töpuðu stundum á ári sem svaraði öllum höfuðstólnum. Jeg þekki að vísu ekki dæmi þess, en veit hinsvegar, að mörg þeirra hafa tapað á undanförnum kreppuárum, og það er heldur ekkert einstakt. Það hefir sem sje gengið yfir eins og landplága undanfarin ár, að flest útgerðarfyrirtæki hafa sokkið í skuldir. Ef jeg hefi skilið ástandið rjett, þá er það svo yfirleitt, að þessi stórútgerðarfjelög standa einna skárst að vígi, sem er í sjálfu sjer eðlilegt, því það er löngu sjeð og viðurkent, að aðferð þeirra við fiskiveiðar er langsamlega öruggasta aðferðin og líklegasta til þess að geta staðist misæri og náð fiskinum hvar sem er kringum landið og á hvaða tíma sem er. Öll önnur útgerðartæki eru að því leyti valtari, að þau eru miklu meir staðbundin og meir háð veðráttunni.

Hinsvegar hefi jeg aldrei neitað því, að áhætta væri mikil við þennan rekstur; aðeins hefi jeg látið á mjer skilja, að áhættan væri þar minni en í öðrum útgerðarfjelögum.

Þá sagði hv. frsm. (JAJ), að jeg hefði haldið því fram, að óeðlilega hár væri höfuðstóllinn hjá sumum þessum fjelögum. Það gerði jeg að vísu ekki, en jeg drap á það, að hann hjá einstökum fjelögum væri í samanburði við höfuðtól einstakra annara fjelaga óeðlilega mikill. Það eru sem sje dæmi til þess, eins og jeg áður nefndi, að 650 þús. kr. standi eins og höfuðstóll á bak við eitt skip, en í öðrum tilfellum ekki nema 50–60 þús. Það er óeðlilega mikill munur á þessu.

Hann hjelt því þá jafnframt fram, háttv. frsm., að fjelögin væru því öruggari og betur stæð sem hærri væri höfuðstóllinn. Getur verið, að svo sje, en þá því aðeins, að hann standi í sæmilega rjettu hlutfalli við þær eignir, skip og annað, sem tilheyra og hann á að sýna mynd af, — og þá því aðeins, að sá höfuðstóll sje ekki orðinn til á þann hátt, að varið hafi verið ársarði kannske fleiri ára til þess að fjölga hlutabrjefum án þess að reksturinn hafi aukist að sama skapi. En sje svo gert, þá er vitanlegt, að höfuðstóllinn verður ekki á neinn veg til hagsbóta, ef t. d. er vanrækt að leggja í varasjóð. En það leiðir hinsvegar til þess, að tekjuskatturinn verður eftir núgildandi reglum skattalaganna miklu lægri. Og það er sú freisting, sem ekki er hægt að taka burt; hún verður auðvitað altaf til, af því að skatturinn er miðaður við ákveðinn hundraðshluta af höfuðstólnum.

Hv. frsm. (JAJ) hafði eftir mjer, að jeg hefði talið vöxt togaraútgerðarinnar afleiðingu af gróðafýkn einni, og þess vegna ekki af rjettum rótum runninn. Þetta er fullkominn misskilningur hans. Jeg hefi ekkert um þetta talað, enda er það óskylt mál meðaltalsreglunni, sem hjer ræðir um. Annað mál er það — og mælir hvorki með eða móti meðaltalsreglunni —, að til togaraútgerðarinnar hefir verið stofnað með gróðavon fyrir augum, alveg eins og tíðkast um önnur atvinnufyrirtæki.

Loksins kom hv. frsm. minni hluta að því, að skýrsla sú eða dæmi, er við meirihlutamenn birtum í nál. okkar á þskj. 189, mundi ekki sem ábyggilegust og að niðurstaða þess yfirlits um skaða ríkissjóðs á 12 árum af meðaltalsreglu skattgreiðslunnar væri röng. Vildi hann halda því fram, að skakka mundi um 6 þús. kr. sem tap ríkissjóðs yrði minna en okkar útreikningar sýndu. Ekki leiddi hann nei rök að þessum fullyrðingum sínum, en hjet á góða menn í deildinni að rökstyðja þetta fyrir sig. Hæstv. fjrh. (JÞ) varð vel við þessari beiðni og hljóp undir baggann. Reyndi hann að sýna fram á reikningsskekkju hjá okkur meirihlutamönnum, en þó á annan veg, því hafi jeg skilið hann rjett, vildi hann fallast á, að útreikningur okkar sýndi miklu meiri tekjurýrnun en því svaraði; hún væri ekki aðeins 6 þús. kr. of há, eins og hv. frsm. minni hl. (JAJ) heldur fram, heldur mundi hún vera um 20 þús. krónum of há, eftir því sem ráða mátti af orðum hans. Verður þá mismunur skattsins á 12 árum, sem meiri hl. telur í dæminu 33905 kr., ekki nema 13–14 þúsund krónur, eftir orðum hæstv. fjrh. (JÞ) að dæma. En það er aðeins einn galli á þessum útreikningi hans, og hann er sá, að allur þessi útreikningur hans er ramskakkur. Hæstv. fjrh. forðaðist líka að leiða nokkur rök að þessum staðhæfingum um skekkjuna. Hann sagði aðeins, að útreikningurinn væri hvarvetna ári á undan tímanum, og átti víst skekkjan að liggja í því. Að minsta kosti fann jeg engin önnur rök í ræðu hans.

Nú sje jeg ekki annað en á sama standi í slíku dæmi og valið var, hvert árið er, eða hvort byrjað er á skattgreiðslu 1924 af tekjum frá 1923, eða skattgreiðslu 1925 af tekjum ársins 1924. Að halda öðru fram er að rugla alla áætlun vísvitandi. Eins og dæmin eru valin fyrir árin 12 í röð, er útreikningur okkar laukrjettur. En með annari áætlun verður útkoman auðvitað önnur. Það má búa til óendanlega margar töflur af þessu tægi og sýna ýmiskonar útreikninga, alt eftir því, hvaða aðferð er notuð eða hvað háar tekjur eru áætlaðar, en það sannar ekkert um það, að okkar dæmi sje ekki rjett. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir því ekki haft þau rök fram að bera, að hægt sje að leggja neitt upp úr þeim. Þess vegna læt jeg þau inn um annað eyrað og út um hitt.

Þá tók hann fram, eftir því sem mjer skildist, að hlutafjelög yrðu oftast að greiða tvöfaldan skatt, og átti þetta að vera eitthvað sjerstakt um útgerðarhlutafjelögin. Jeg veit ekki betur en að sama megi segja um flesta skattgreiðendur, svo þetta er ekkert sjerstakt fyrir útgerðarfjelögin. Hann taldi líka, að samvinnufjelögin slyppu betur um skattgreiðslu en hlutafjelög. En þetta er ekki að öllu rjett, því þegar tekjur hlutafjelaganna eru litlar, greiða þau ekki nema 5% af tekjum sínum, en samvinnufjelögin verða ætíð að greiða 6%, hvort sem rekstur þeirra gengur vel eða illa, ef aðeins er einhver gróði. Fasteignaskattur er goldinn sjerstaklega, þótt andvirði fasteignarinnar sje talið fram öðru sinni í eignum og greiddur af eignarskattur. Er þar því um tvöfaldan skatt að ræða, og ekkert undarlegt, þó á þetta sje bent í sambandi við togarafjelögin. Líka mætti nefna vörutolla og innflutningsgjald, sem er þrefaldur og ferfaldur skattur, er allir skattþegnar landsins verða að greiða, og þetta á alveg eins við þá, sem skattinn greiða samkvæmt 6. gr., eins og þá, sem greiða eiga skatt eftir 7. gr.

Þá las hæstv. fjrh. (JÞ) upp í ræðu sinni skýrslu um hag nokkurra útgerðarfjelaga og viðskifti þeirra við Íslandsbanka. Nefndi hann togarafjelög, sem skulduðu Íslandsbanka um 200 þús. kr., og virtist mjer hann álíta þetta óvenjulegar skuldir. En þetta ógnar mjer alls ekki. Bæði er nú, að undanfarið hafa verið kreppuár til lands og sjávar, enda mun þetta síst meira en tíðkast hefir hlutfallslega um önnur smærri fjelög og einstaklinga. Ef jeg hugsa mjer t. d., að togarahlutafjelag, sem skuldar 200 þús. kr., hafi höfuðstól, sem nemur einni miljón króna, þá er skuldin aðeins 20% af eigninni. Sje nú þetta samanborið við önnur smærri útgerðarfjelög og atvinnufyrirtæki í smáum stíl, sem eru svo skuldum hlaðin, að ekki má á þau anda og velta, ef að þeim er gengið, þá verður ekki annað sagt en að togarafjelögin standi vel að vígi hlutfallslega.

Að lokum kom hæstv. fjrh. með skringilega sögu af einhverjum síldarkóngi í Norðurlandi, sem tapað hefði aleigu sinni við síldarkaup og sokkið í skuldir árið 1923, skuldað þá um 100 þús. krónur, en árið 1924 græðir hann jafnháa upphæð og hann skuldaði, eða um 100 þús. krónur. Bregður þá svo kynlega við, að af því að maðurinn græddi þetta, verður hann gjaldþrota, þegar hann sjer fram á, að hann muni þurfa að greiða um 30 þús. kr. skatt af gróða þessum árið 1925.

Þetta er þungskildara dæmi en svo, að jeg reyni að skilja það, að maður, sem græðir 100 þús. króna á einu ári, þurfi að verða gjaldþrota þess vegna. Má vera að betri skilningur fáist á þessu stórmerkilega fyrirbrigði síðar, þó jeg hinsvegar sjái ekki, að það standi í neinu sambandi við frv. eða meðaltalsreglu þess um skattgreiðsluna. Annars held jeg, að hæstv. fjrh. hafi tekið of djúpt í árinni, er hann talaði um þennan 30 þús. króna skatt af 100 þús. kr. gróða, því eftir núgildandi lögum getur ekki verið um slíkan skatt að ræða.

Í enda ræðu sinnar tók hæstv. fjrh. það fram, að hann gæti ekki skilið, hvers vegna meiri hl. nefndarinnar legði til að fella e-lið 1. gr., þó að a-liðurinn yrði feldur. Því er til að svara, að e-liður er bein afleiðing af a-lið og getur ekki staðið, ef hinn fellur.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta og býst tæplesa við að tefja umr. þessar framar.