18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Mig undrar ekki, þó að hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) kvarti undan því, að jeg hafi farið of nákvæmlega út í málið í heild og gert athugasemdir við rangfærslur þær, er hann hefir verið að fleyta sjer á. Bar þessi síðasta ræða hans vott um, að hann hefði illa tekið eftir því, er jeg sagði, eða þá misskilið það, og því ekki nema von, að honum tækist illa að hrekja orð mín, þegar hann vill ekki heyra rök þau, sem fram eru borin.

Hann hjelt ennþá fram þessari meinloku sinni, að arður hlutafjelaganna væri ekki tvískattaður, og tók dæmi því til sönnunar, sem enginn skildi, sem heldur er ekki von, því sjálfur skilur hann ekki, að það er verið að tvískatta sama arðinn með sömu lögunum. Hann sjer ekki, að fyrst er arðurinn skattaður hjá hlutafjelaginu sjálfu, en síðan hjá hluthafanum, sem telur hann fram. T. d. ef maður fær 1000 kr. í arð, þá er upphæð sú fyrst sköttuð hjá fjelaginu, en síðan verður hann að greiða skatt af upphæðinni, af því að hún er þá komin í vörslur hans eða á nafn hans og talin með hans tekjum.

Hitt er satt, að við greiðum tekjuskatt og eignarskatt af sama húsinu, en það sannar ekkert um það, að arður hlutafjelaganna sje ekki tvískattaður með sömu lögunum.

Þá vildi hann enn ekki kannast við, að dæmi þeirra meirihlutamanna á þskj. 189 væri skakt reiknað. Hjelt jeg þó, eins og honum var bent á þetta í gær, að hann gæti fallist á, að svo væri. Þetta hafa þó hv. samnefndarmenn hans gert, og hafði mjer síst komið til hugar, að hann ljeti sjer það ekki að kenningu verða. Nú skal jeg aftur reyna að koma honum í skilning um þetta með örlitlu dæmi, þ. e. a. s. með hans eigin dæmi, en aðeins reikna það á rjettan veg.

Á öðru ári, 1925, eru skattskyldar tekjur taldar eftir báðum reglunum 48 þús. krónur, en eru vitanlega 21667 krónum hærri eftir þriggja ára reglunni, því tekjuskattur fyrra ársins kemur til frádráttar tekjunum á síðara árinu, en skatturinn er 21667 kr. hærri 1924 eftir núgildandi reglum en hann yrði eftir meðaltalsreglunni, skattmismunurinn frá fyrra ári, sem að sjálfsögðu kemur til tekna á næsta ári á eftir. Auk þess er það hverjum manni augljóst, að í dæminu er hvergi talinn skattur af skattmismuninum, kr. 33905, sem fram kemur í þessu hroðvirknisdæmi hv. meiri hl. Jeg hygg, að háttv. frsm. ætlist ekki til, að þessum 33905 kr. sje slept við skatt. Skattur af þessari upphæð er minst 6000 kr., en verður um 10 þús., ef hann lendir á hæsta skattstiga. Þetta vona jeg, að hann skilji nú, svo ekki þurfi oftar að benda honum á rangfærslurnar í útreikningi hans.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að taka það upp, sem hann sagði um hlutafjelögin alment og gagnsemi þeirra, enda erum við sammála um það, að þegar reka á stórútgerð, þá sje hlutafjelagsfyrirkomulagið að sjálfsögðu heppilegast.

Annars hrakti hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) ekkert af því, sem jeg sagði, en reyndi hinsvegar að snúa út úr orðum mínum og rangfæra þau sjer í hag. Jeg tók það einmitt fram í gær, að þriggja ára meðaltalið væri ekkert aðalatriði, heldur mætti skoða það sem tilraun til bóta frá því, sem nú er, enda var öll nefndin á einu máli um það, að tryggja þyrfti betur allan hag hlutafjelaganna. Hann veit það, hv. frsm. meiri hl. (SvÓ), að mikill munur er á skatti þeim, sem hlutafjelög hjer verða að greiða, í samanburði við það, sem tíðkast erlendis, enda getur hann ekki neitað því, að þegar til alls kemur, þá eru skattar þessir miklu hærri hjer en nokkursstaðar annarsstaðar á Norðurlöndum. Hinsvegar hefi jeg ekkert á móti því, að þessir tekju- og eignarskattar sjeu hækkaðir eitt eða fleiri ár í bili, til þess að koma ríkissjóði úr fjárkreppu, en þá á að hækka þá yfirleitt, en láta ekki alla hækkunina lenda á hlutafjelögunum.

Þegar svo er komið, að viðurkent er, að tvískatta megi arð hlutafjelaganna, þá er auðsætt, að þeim er gert erfiðara fyrir í samkepninni, er einstaklingar, sem sömu atvinnu stunda, eru látnir sleppa með margfalt minni skatt. Í þessu liggur ósanngirnin, og úr þessum göllum er frv., og þar á meðal með meðaltalsreglu þess, ætlað að bæta.

Jeg sýndi í gær fram á þetta misrjetti í skattgreiðslu hlutafjelaga og einstaklinga og nefndi fáein dæmi, og gæti komið með fleiri. Og vilji hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) ennþá rengja mig, gæti jeg símað vestur á Ísafjörð eftir tölum, sem sanna mál mitt. En jeg vona, að til þess þurfi ekki að koma, og að hann snúi nú frá villu síns vegar og fallist á, að sú skoðun er jeg held fram í þessu máli, sje rjett og heilbrigð í öllum grundvallaratriðunum.