18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2189 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg verð að biðja hv. þdm. afsökunar á því, að jeg er svo hás og á því bágt með að láta heyra til mín, enda verður þetta lítið, sem jeg hefi við að bæta það, sem jeg hefi áður sagt, og umr. líka orðnar óþarflega langar.

Hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) sagði, að jeg mundi standa allnærri hlutafjelögum þeim, sem ívilnunar eiga að njóta samkv. frv., og virtist mjer hann með þessu gefa í skyn, að jeg með þessu væri að gæta eigin hagsmuna. Nú skal jeg lýsa því yfir, að jeg á ekki, og hefi aldrei átt, hlut í neinu útgerðarhlutafjelagi, og það eina fjelag, sem jeg á hlut í, svo teljandi sje, hefir engan arð 1924, en gaf dálítinn arð tvö undangengin ár, og er því breytingin til óhags fyrir það fjelag. Þá kvartaði hann um, að jeg hefði ekki leitt rök að skekkjunni í dæmi því, sem meiri hl. lætur fylgja nál. sínu. Að jeg ekki nefndi tölur, var af hlífð við hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) og aðra nefndarmenn, sem jeg hugði, að leiðrjetta mundu þetta, þegar búið var að benda þeim á vitleysurnar. Þess vegna furðaði mig satt að segja á því, að hann vildi fá leiðrjettingar þessar inn í umr., svo að öll vitleysan sæist í Alþt. Hitt hafði jeg hugsað mjer, að þetta yrði leiðrjett í framhaldsnál. fyrir 3. umræðu, og þar með slegið striki yfir allar vitleysurnar. En ef hv. þm. (SvÓ) óskar eftir frekari skýringum við þessa umr., þá skal jeg benda honum t. d. á, að fjelag það, sem dæmið fjallar um, hefir 48 þús. kr. skattskyldar tekjur árið 1925, en greiðir á því ári 27600 kr. skatt af fyrra árs tekjum. Til þess að þetta dæmi geti staðið, verða tekjur fjelagsins að hafa numið 75600 kr. árið 1925, því að annars gætu skattskyldar tekjur þess ekki orðið 48 þús. kr. En eftir reglum frv. ætti sama fjelag að greiða á árinu 1925 5933 króna skatt af tekjum ársins 1924, og kemur sú upphæð því til frádráttar 75600 kr. tekjum 1925. Skattskyldar tekjur þess árs verða því ekki 48 þús. kr., heldur 69667 krónur.

Í þessu liggur aðalvilla háttv. meiri hl. En ef hv. þm. (SvÓ) getur ekki skilið, að skattskyldar tekjur verða þeim mun meiri, sem lægri upphæð er dregin frá öllum tekjunum, þá gefst jeg upp við að skýra fyrir honum einföldustu reikningsdæmi og verð að biðja hann að leita sjer fræðslu í öðrum skóla.

Jeg sagði ekki, að ívilnunin á skatti fjelagsins í dæmi hv. meiri hl. væri 13–14 þús. kr., heldur um 17 þús. kr., sem sje mismunurinn á 172 þús. og 155 þús. En jeg bætti því við, að í raun og veru væri sanngjarnt, að fjelagið hefði greitt um 132 þús. kr. í skatt á þessu tímabili, því sá hefði skatturinn orðið, ef tekjur fjelagsins hefðu verið nokkurn veginn jafnar frá ári til árs. Það, sem fjelagið greiðir fram yfir þá upphæð, er nokkurskonar refsiskattur vegna þess, að fjelagið rekur áhættusama atvinnu, sem er misjafnlega arðberandi frá ári til árs. Og ívilnun frv. er aðeins eftirgjöf á nokkrum hluta þessa algerlega ástæðulausa refsiskatts.

Af ummælum hv. þm. (SvÓ) um brjef bankastjórans í Íslandsbanka mátti skilja, að hann hafði misskilið ærið margt í brjefinu. Hann sagði, að sjer ofbyði ekki, þó fjelög, sem hefðu 1 milj. kr. höfuðstól, skulduðu 200 þús. kr. En jeg sagði, að þessi fjelög skulduðu 200 þús. kr. umfram hlutafjeð. Fyrst skulda þau jafnmikið öllum eignum og hlutafje, en þar að auki 200 þús. kr. í raun og veru er höfuðstóll þessara fjelaga ekki lengur til; hann er með öllu tapaður.

Skuldirnar eru orðnar langtum meiri en allar eignir, og fjelögin eiga um 200 þús. kr. minna en ekki neitt. Þetta eru gjaldþrota fyrirtæki, sem haldið er uppi eingöngu vegna þess, að starf þeirra er þjóðnytsamlegt og að ekki má hrekja framleiðslutækin úr landi. Þannig er ástatt um þriðjung þeirra botnvörpuskipa, er skifta eingöngu við Íslandsbanka. Og af þessum fyrirtækjum tala menn um að heimta stórgróðaskatt, af því að þau gryntu eitthvað á skuldum sínum síðastl. ár, en eiga mikið minna en ekki neitt eftir sem áður.

Sama skilningsdeyfðin kemur í ljós hjá hv. þm. (SvÓ), þegar hann kallar söguna, sem jeg sagði af Norðlendingnum, sem hafði tapað ógrynni fjár á síðustu árum en unnið það aftur upp á síðastl. ári, kýmnisögu. Hann virtist ekki skilja, að maðurinn er öreigi eftir að hann hefir greitt bankalán sín með gróða síðasta árs, og á því ekkert til þess að greiða með skattinn af síðasta árs tekjum.

Það er nú svo, að bankarnir hafa ekki gengið að mönnum, sem þeir hafa lánað peninga, enda þótt illa hafi gengið allur atvinnurekstur síðustu 3 árin á undan 1924, í þeirri von, að úr rættist og menn gætu greitt skuldir sínar, en bankarnir þyrftu ekki að tapa því fje, sem þeir áttu þannig útistandandi. En þegar bankarnir hafa náð inn slíkum útistandandi skuldum, þá getur enginn láð þeim, þó að þeir sjeu ekki fúsir til að ausa út lánum aftur til manna, sem engar tryggingar geta sett fyrir lánum sínum.

Það hefir enginn sagt, að menn hafi orðið gjaldþrota af því að græða sæmilega eitt ár. Umræddir menn hafa verið gjaldþrota löngu áður en þeir nutu þessa góðæris, en það hefir ekki verið gengið að þeim, vegna þeirra ástæðna, sem jeg hefi getið um; en nú eru þær burtu fallnar, þegar eitthvað er af hlutaðeigandi skuldunautum að hafa. En mennirnir eru „insolvent“ þrátt fyrir þetta eina góða ár.

Þetta lýtur að 2. gr. frv. Með henni er í rauninni ekki farið fram á annað en það, að ríkissjóður megi sýna slíkum gjaldþegnum samskonar tilhliðrunarsemi og bankarnir hafa sýnt þeim áður, sem sje að ganga ekki að þeim og gera þá gjaldþrota vegna tekjuskattsins, heldur leyfa þeim að starfa áfram.

Ríkissjóður hefir hvort eð er ekkert upp úr gjaldþroti slíkra manna, en hinsvegar er það óþarfa eltingarleikur að ganga svo hart að þeim, að þeir fái ekki umflúið gjaldþrot.

Háttv. þm. (SvÓ) sagði, að sjer væri þetta torskilið mál, og get jeg trúað því, af því að hann segir þetta sjálfur. En ef einhver annar hefði komið til mín og sagt mjer, að hv. þm. (SvÓ) skildi ekki svo einfalt mál, þá hefði jeg sagt það ósannindi.

Þá sagði hv. þm. (SvÓ), að e-liður 1. gr. væri settur vegna a-liðsins, og yrði því að fella þá báða burtu, ef öðrum þeirra væri kipt út. Þetta er ekki allskostar rjett. E-liðurinn er settur vegna allra 4 undanfarandi liða og á jafnt við þá alla. Þess vegna er ástæðulaust að fella hann burtu, ef b-, c- og d-liðirnir fá að standa í frv., eins og hv. meiri hl. leggur til.